Helgi á Grundarfirði

Æ mikið var þetta gaman.

Ég var alveg að tapa mér í einhverri fýlu á föstudaginn og var við það að hætta við að fara í útilegu. Guði sé lof fyrir að ég fór. Ég var að koma heim aftur eftir tvo virkilega skemmtilega daga á Grundarfirði með Serrano starfsfólki. Er sólbrunninn (mér líður allavegana einsog ég sé brunninn, þrátt fyrir að ég líti ekki þannig út), með kvef og fáránlega þreyttur. En mikið skemmti ég mér vel.

Á Grundarfirði var bæjarhátíð, sem var nokkuð vel heppnuð. Allur bærinn, og þá meina ég hvert einasta hús, var skreyttur í einum af fjórum litum, en hverfunum var skipt uppí fjóra hópa og var keppt í skemmtiatriðum og skreytingum á milli bæjarhluta. Nokkuð skemmtilegt konsept og það virtust allir bæjarbúar taka þátt í þessu því öll húsin voru skreytt (sjá [lýsingu hjá önnu.is](http://www.anna.is/weblog/arc/004677.html)).

Við komum þarna á föstudagskvöldinu og um leið og við vorum búin að tjalda fórum við í partý í heimahúsi. Eftir það fórum við svo öll á ball með Sálinni. Sem var æðislegt. Veðrið var svo fáránlega gott að fyrir utan félagsheimilið var stappað af fólki. Þannig að bæði fyrir og eftir ballið eyddi ég heillöngum tíma þar fyrir utan og hitti fulltaf skemmtilegu fólki. Inná ballinu var líka frábært.

Laugardeginum eyddi ég í sundi og rölti um bæinn. Í miðbænum voru skemmtiatriði og tívolí ásamt einhverri kraftakeppni. Veðrið var svo frábært að það að vera úti var eiginlega nóg. Hitt skipti ekki jafn miklu máli. Um kvöldið fór ég svo uppí bústað til vinar míns, þar sem ég borðaði kvöldmat og hitti svo allt fólkið. Fórum í bæinn, drukkum og spjölluðum. Kíktum svo í partý og því næst á skemmtistaðina báða. Fíluðum þá ekki alveg nógu vel, þannig að við enduðum kvöldið hjá tjöldunum okkar. Eftir sund og mat keyrðum við svo í bæinn í dag.

Semsagt, virkilega góð helgi. Ég hafði ekki farið í ferð útúr bænum síðan um síðustu verslunarmannahelgi og sú ferð var ferlega róleg, ólík þessari. Ég þurfti á þessu að halda.