Helgin í Chicago

Helgin hérna í Chicago er búin að vera frábær. Ég sit núna inná Melrose diner-num, sem er við hliðiná íbúðinni hans Dan hérna í Lake View hverfinu, og bíð eftir uppáhaldsmorgunmatnu mínum, french toast. Hverfið sem Dan býr í er akkúrat einsog ég vil hafa hverfi. Full af búðum og kaffihúsum og af lífi. Það er alltaf fulltaf fólki útá götu og inná kaffihúsunum hérna í kring. Svona á þetta að vera. Og ekki skemmir þetta yndislega veður sem hefur verið hérna í Chicago síðustu daga.

Á föstudagskvöldið kíktum við aðeins útá lífið. Borðuðum fyrst á mið-austurlenskum veitingastað með Dan, kærustu hans og vinkonu hennar og kíktum svo á einhverja 2-3 bari. Dan var eitthvað hálf slappur þannig að við entumst ekki mjög lengi.

Á laugardaginn ákváðum ég og Dan svo að kíkja uppí Wrigleyville til að kíkja á það hvort við fengjum ekki miða á Cubs leikinn þann daginn. Við áttum vissulega miða á sunnudagsleikinn líka, en ég vildi sjá eins marga leiki og ég gat þannig að ég ákvað að splæsa á miða líka á laugardaginn. Við fengjum því frábæra miða rétt fyrir aftan fyrstu höfn, þar sem við sátum í sólinni og drukkum bjór. Leikurinn fór reyndar ferlega illa, en það breytir ekki öllu.

Um kvöldið fórum við svo á heljarinnar djamm. Byrjuðum heima hjá kærustu Dan í grillpartíi þar sem nokkrir vinir okkar voru samankomnir. Svo um miðnætti fórum við á Crobar næturklúbbinn, sem mér fannst dálítið fyndið þar sem þetta er sami næturklúbburinn og við Hildur fórum nokkrum sinnum saman á þegar við bjuggum hérna í Chicago. Þótt ótrúlegt megi virðast þá eru 5 ár núna síðan ég flutti heim frá Chicago. Stundum er það hreinlega asnalegt hvað tíminn líður hratt.

En allavegana, djammið var frábært og entist ansi lengi og því var þynnkan í gær næstum því óbærileg. Við fórum þó fjögur saman á annan Cubs leik (ég, Dan, kærasta hans og bróðir hennar) á Wrigley Field. Í þetta skiptið sáum við þó glæsilegan sigur. Eftir það fórum við á hverfahátíð þar sem við borðuðum pizzur og horfðum á útitónleika. Gærkvöldinu eyddum við Dan svo heima, þar sem við létum restina af þynnkunni renna útúr kerfinu með því að spila NBA Live.

Í dag er það svo Taste of Chicago, sem er snilldarhátíð í Grant Park þar sem tugir veitingastaða setja upp bása í garðinum og bjóða uppá sína bestu rétti. Á morgun er það svo flug til Washington DC.

Skrifað í Chicago, Illinois klukkan 11.40

One thought on “Helgin í Chicago”

  1. Mikið svakalega væri ég til í að vera laumufarþegi í töskunni þinni.

    Sérstaklega á Taste of Chicago…. maður fær vatn í muninn :p

Comments are closed.