Hitabylgja

Hér í Stokkhólmi er heitt. Og hérna hefur fullt skemmtilegt gerst síðustu daga.

  • Við skrifuðum á föstudaginn undir samning um leigu fyrir Serrano stað númer tvö í Svíþjóð. Sá staður er í nýrri byggingu í Sundbyberg, sem er úthverfi Stokkhólms – þó talsvert nær miðbænum heldur en staðurinn í Vallingby. Þetta verður stór og flottur staður, sem við stefnum á að opna í síðasta lagi í janúar á næsta ári. Staðurinn er í nýrri skrifstofubyggingu, sem liggur við lestarstöðina sem er bæði neðanjarðarlestarstöð (T-Bana) og almenn lestarstöð (pendeltåg), þannig að þarna er líf og fjör.
  • Ég var að skipta um skrifstofu. Ég þurfti að leita í talsverðan tíma eftir að hafa misst skrifstofu rétt hjá Östermalmstorg. Ég er núna að leigja með öðru fyrirtæki á Drottninggatan, sem er í miðbæ Stokkhólms. Frábær staðsetning með fullt af skemmtilegum veitingastöðum og slíku í kring. Eini gallinn er að skrifstofan er svo heit þessa dagana að þar er varla líft eftir hádegi.

    Því þarf ég vanalega að koma heim tiltölulega snemma, skipta úr vinnugallanum yfir í stuttbuxur og klára vinnuna svo heima í eldhúsi þar sem hitinn er aðeins minni.

    Það er ágætt að hafa svona hita í útlöndum þegar maður er að ferðast, en þegar maður vill vera sæmilega klæddur í vinnunni útaf fundarhöldum og slíku þá getur þetta verið aðeins erfitt.

  • Hérna heima er íbúðin að komast í lag eftir að við vorum með iðnaðarmenn að klára nokkra hluti. Við fáum víst teppi á svefnherbergið á morgun og eftir það þá er þetta farið að líta helvíti vel út.
  • Margrét er svo í fríi um helgina. Það verður ábyggilega gaman.

Jæja – ég er orðinn sveittur á því að sitja fyrir framan tölvuna, ég ætla að drífa mig út að hlaupa.

5 thoughts on “Hitabylgja”

  1. Til hamingju með nýja húsnæðið og hitabylgjuna 🙂
    Man reyndar eftir því að hafa fundað með mönnum í Köben á sínum tíma sem mættu á fundina í stuttbuxum og stuttermabol…
    Owen til manutd……já það er verið að byggja upp stórveldi á Trafford ?????
    Kærleikskveðjur frá eyjunni fögru 🙂

  2. Takk kærlega. Ég er alltaf að reyna að heilla einhverja fasteignaeigendur á þessum fundum, þannig að ég held að stuttbuxurnar séu ekki alveg málið.

  3. … er engin loftkæling á nýju skrifstofunni???
    ég kem þá ekki í vinnuferðir á sumrin, það er staðfest 🙂

    já og Sigurjón, það er ekki VERIÐ að byggja upp stórveldi á Trafford, skv. titlafjölda þá ER stórveldi á Trafford. 😉

  4. Neibbs, engin loftkæling – en ég er að fara að kaupa viftu! Það er stórt skref.

    Og umhverfið í kringum skrifstofuna er nú talsvert skemmtilegra en við skrifstofuna heima, þannig að það er hægt að vinna undir berum himni. 🙂

Comments are closed.