Hvalkjöt á diskinn minn (hóst)

Ég get hreinlega ekki lengur verið með línurit sem efstu færslu á þessari bloggsíðu. Verð bara að skrifa…um eitthvað.

Allavegana…

Á miðvikudaginn var ég með útlendinga í mat á Humarhúsinu. Það er ekki frásögu færandi nema fyrir eina staðreynd. Á matseðli Humarhússins er nefnilega boðið uppá hvalkjöt í forrétt (ásamt hrossakjöti – “namminamm” ). Ég hvatti útlendingana til að prófa án teljandi árangurs. Þegar þau svo spurðu mig nánar útí hvalkjötið, þá komst ég að því að ég hafði sjálfur aldrei prófað hval.

Ég hef hins vegar verið undir stanslausum áróðri íslenskra yfirvalda og hvalveiðiáhugamanna nær allt mitt líf. Sá áróður gengur útá tvennt: 1) Hvalkjöt bragðast yndislega, hreinlega einsog besta nautasteik (þetta með nautasteikina hef ég heyrt svona 100 sinnum) – og 2) Hvalkjöt er brjálæðsilega vinsælt og selst alltaf upp í verslunum um leið og það er til.

Ég vissi að seinni punkturinn væri tómt þvaður, en var ekki viss um þann fyrri.

Ég ákvað að prófa matinn. Hvalkjötið kom á borðið að japönskum stíl, hrátt, borið fram með soja sósu og wasabi. Það er skemmst frá því að segja að kjötið var *viðbjóður*. Ekki alveg jafnviðbjóðslegt og [skata](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/23/14.39.38) (sem fólk hafði líka logið að mér að væri yndisleg á bragðið), en samt verulega vont.

*(Ég tek það fram að þetta vonda bragð var svo sannarlega ekki matreiðslumönnum á Humarhúsinu að kenna, enda maturinn þar (með þessari einu undantekningu) algjörlega frábær. Einnig var þjónustan frábær, því um leið og þjónninn sá að ég borðaði ekki kjötið, þá bauð hún mér uppá fulla endurgreiðslu.)*

Hvalkjöt er ekki nálægt því að bragðast einsog “besta nautakjöt” einsog spunameistararnir hafa haldið fram. Já, það lítur svipað út, en bragðið er ekki nálægt því. Ég er hreinlega hættur að taka fólk trúanlega þegar það talar um að þjóðlegur íslenskur matur sé góður. Ég hef því ákveðið að prófa ekki restina af þessu þjóðlega gumsi, sem menn halda fram að sé einsog sælgæti á bragðið. Þetta á því við um hákarl, hrútspunga og allt þetta jukk, sem ég hef ekki prófað síðan að ég bragðlaukarnir mínir þróuðust frá því að þykja sandur góður á bragðið.

p.s. Bendi líka á [þessa grein í Grapevine](http://www.grapevine.is/Undirflokkar.aspx?id=1063), sem fjallar að hluta til um jákvæðar hvalaveiðgreinar á vísi.is

8 thoughts on “Hvalkjöt á diskinn minn (hóst)”

  1. Ég hef einu sinni smakkað hrátt hrefnukjöt með sojasósu og wasabi, held það hafi verið fyrir tveimur árum og það var frábært. Held að ef ég ætti að líkja því við eitthvað væri það einmitt úrvals nautakjöt.

    En maður hefur svosem fengið misgott nautakjöt í gegnum árin, það sama hlýtur að gilda um hvalkjöt.

    Ekki skil ég svo þessa vísun í Grapevine, blað sem varla getur talist marktækt eftir útreiðina í Fréttablaðinu í dag. Pistill Grapevine er afar dæmigerður fyrir þá móðursýki sem ríkir á þeim bæ. Þorsteinn Pálsson var sjávarútvegsráðherra og studdi hvalveiðar (en ekki hvað?), því er frétt á vísi beint frá honum komin!

    Andstæða við hrefnuveiðar er eitthvað það allra vitlausasta sem náttúruverndarsinnar hafa fundið upp á síðustu áratugi. Skiptir þar engu máli hvort kjötið er vont eða ritstjórinn fyrrum sjávarútvegsráðherra.

  2. Ég held að það þurfi meira en eitthvað rifrildi milli Baltasars og Bart Cameron til að blaðið geti ekki lengur talist “marktækt”.

    Það, sem mér fannst athyglisvert við greinina var að þar er bent á þennan bjánalega hvalveiðiáróður, sem dynur oft á okkur (þrátt fyrir að tenginin svona fljótt við Þorstein sé afar hæpin, svo ekki sé meira sagt). Hversu oft höfum við ekki heyrt að hvalkjöt seljist svo æðislega vel, byggt á einhverjum sögum utanúr bæ? Þessar “fréttir” eru gerðar til þess að sýna fram á að það sé einhver eftirspurn eftir hvalkjöti til í dag. Sem er bara ekki rétt. Annars myndum við veiða fleiri hvali og kjötið væri ekki selt á 300 krónur kílóið einsog dæmi eru um.

    Það má vel vera að þér finnist andstsæðan við hrefnuveiðar vera kjaftæði. Staðreyndin er samt sú að ef ekki hefði verið fyrir þetta hvalveiðibann, þá værum við sennilega komin langleiðina með að drepa endanlega út hvali.

  3. > Ég held að það þurfi meira en eitthvað rifrildi milli Baltasars og Bart Cameron til að blaðið geti ekki lengur talist “marktækt”.

    Uh, þetta snýst ekki um rifrildi. Þetta snýst um að þeir senda Fréttablaðinu tölvupóst þar sem þeir halda ákveðnum hlutum fram. Neita svo efni tölvupóstsins og draga að lokum þá frétt til baka.

    En nei, það er rétt, það þarf meira. T.d. mynd þar sem DV er líkt við nasista fyrir að hafa birt Múhameðsmyndirnar. Væntanlega get ég tekið þann stimpil til mín líka þar sem ég styð þá birtingu.

    Ég hef afar reglulega heyrt og séð fréttir af því að illa gangi að selja hvalkjöt, held þeir hafi verið miklu algengari en hinar. Hvalkjöt er svo eins og annað kjöt, bitarnir eru misgóðir. Þeir bestu fara fyrst, hinir seljast illa.

    > Staðreyndin er samt sú að ef ekki hefði verið fyrir þetta hvalveiðibann, þá værum við sennilega komin langleiðina með að drepa endanlega út hvali.

    Er þetta staðreynd? Þurfti að banna veiðar á öllum hvölum vegna þess að einhverjar tegundir voru eða eru í útrýmingarhættu? Þurfti að banna gæsaveiðar til að vernda rjúpuna?

    Hrefnur eru ein tegund hvala. Það var vafalaust rétt á sínum tíma að takmarka hvalveiðar en í dag eru engin góð rök gegn því að nýta hrefnustofninn. Ekki einu sinni þó þér finnist kjötið vont 🙂

  4. Þetta er auðvitað bara rangt hjá þér, hvalkjöt er gott, hákarl er góður, skata er góð og restin af þjóðarréttunum líka. Held að þú sért bara illa upp alinn 🙂

    en auðvitað er smekkur manna misjafn

  5. Ég borðað hvalkjöt með wasabi og soya og það var frábært og grillað hrefnukjöt er eins nálægt nautakjöti og hægt er eiginlega.

    Þetta með að hvalkjöt seljist alltaf strax er gömul mýta. Það var þannig hér einu sinni en í dag er þetta bara kjaftæði.

    Gerðu mér þann greiða Einar í sumar þegar að sól skín í heiði að grilla hrefnukjöt með bjór í hendi. Það er MJÖG GOTT.

  6. Ég tek það fram að þetta vonda bragð var svo sannarlega ekki matreiðslumönnum á Humarhúsinu að kenna, …

    Hvalkjöt er mjög brothætt hráefni: Vont hvalkjöt er klár dómadags viðbjóður. Gott hvalkjöt er hreinasta himnasæla. Ég hef reynt hvort tveggja.
    Kannski er ekki við matreiðslumennina að sakast. En hitt má vera að þetta tiltekna dýr hafi ekki verið unnið sem skyldi af þeim sem veiddu það. Eða ekki geymt við bestu skilyrði á leið til þeirra á Humarhúsinu.

  7. >”Uh, þetta snýst ekki um rifrildi. Þetta snýst um að þeir senda Fréttablaðinu tölvupóst þar sem þeir halda ákveðnum hlutum fram. Neita svo efni tölvupóstsins og draga að lokum þá frétt til baka.

    >En nei, það er rétt, það þarf meira. T.d. mynd þar sem DV er líkt við nasista fyrir að hafa birt Múhameðsmyndirnar. Væntanlega get ég tekið þann stimpil til mín líka þar sem ég styð þá birtingu.”

    Þú myndir kannski að sjá þessi:
    http://www.grapevine.is/news.aspx?nType=exile&id=1330

    og þessi:
    http://www.grapevine.is/news.aspx?id=1331

    Takk!

  8. Hvalkjöt, nýveidd hrefna er yndisleg á bragðið og sérstaklega hrá með sojasósu. Frábært bragð og verður að vera snöggsteikt eins og túnfiskur. 🙂

    Varðandi hvalveiðar þá má vera að við höfum veitt ríflega af henni á sýnum tíma en þýðir það að það má aldrei veiða hval aftur?

    Eins og allt annað þá erum við að raska jafnvæginu með því að veiða fisk sem er að berjast við hval um fæðu en veiðum ekki hval svo þarf ekki að grisja smá þar líka til að allt haldi sér eftir þeirri línu eins og við viljum hafa það?

Comments are closed.