Hvert stefnir Eyjan?

Ég verð að játa að ég átta mig ekki lengur á því hvernig blogg eru valin á Eyjuna.

Eyjan er ein af þeim síðum, sem ég les frekar mikið og þarna eru nokkur ágætis blogg einsog hjá félaga Andrési, Árna Snævarr, Agli Helga, Freedomfries og Margréti Hugrúnu. Það er augljóst að um leið og blogg fara inná Eyjuna þá aukast vinsældirnar umtalsvert, einsog Margrét Hugrún talaði meðal annars um í einhverju bloggi, sem ég nenni ekki að leita að.

Ég hélt að stefnan væri að hafa þarna gæðablogg – að safna saman fólki sem skrifar vel og oft. Það getur ekki hver sem er stofnað blogg á Eyjunni, heldur þarf maður væntanlega að sækja um slíkt.

Síðustu vikur hefur Eyjan þó breyst í ansi einkennilega framboðssíðu fyrir valda einstaklinga. Hver var til dæmis tilgangurinn með að bjóða Páli Magnússyni og Sigmundi Davíð að blogga á Eyjunni? Þeir hættu báðir að blogga nánast strax eftir formannskjör Framsóknar (annar hætti 15.jan, hinn 17.jan nema að þeir séu bara í pásu fram að prófkjöri). Páll bloggaði í um 5 vikur, Sigmundur í innan við viku!

Núna eru prófkjörin að byrja í flokkunum og þá allt í einu bætast inn á Eyjuna bloggsíður hjá tveimur stelpum, Bryndísi framsóknarstelpu og Erlu Óskar SUS-ara. Ég geri ráð fyrir að þær síður verði einsog síður framsóknarmannnanna í formannsslagnum – lítið nema létt auglýsing í aðdraganda kosninga. Þetta eru eflaust ágætar stelpur, en ég efast um að skyndilegur blogg áhugi þeirra tengist einhverju öðru en væntanlegu prófkjöri. Hverju bæta slík blogg við Eyjuna?

Að mínu mati ætti Eyjan að fókusera á nokkra góða bloggara en sleppa því að blanda sér í prófkjörin með því að bjóða til sín ákveðnum frambjóðendum. Eða ætla þeir að opna síðuna fyrir öllum, sem eru á leið í framboð? Þá held ég nú að lestur minn á þeirri síðu muni minnka all verulega.

* * *

Já, og svo legg ég til við frambjóðendur sem eru á svipuðum aldri og ég: Þið þurfið ekki að vera í dökkum jakkafötum með bindi á framboðsmyndinni. Það eru engin lög sem skipa til um það. Einsog andinn í þjóðfélaginu er þessa stundina, þá væri ég allavegana miklu frekar til í að kjósa einhvern sem væri aðeins afslappaðari í klæðaburði. En kannski er það bara ég.

* * *

(Og til að taka fram, þá vil ég ekki vera á Eyjunni og hafnaði m.a. samstarfi Liverpool bloggsins og síðunnar fyrir einhverjum mánuðum)

12 thoughts on “Hvert stefnir Eyjan?”

 1. Eru þau ekki bara að selja aðgang að síðunni og þal fylgja engri stefnu nema fá smá penge í vasann?

  Annars er ég sammála þér nema með blogg Egils Helga, set ekki samansem merki milli bloggsíðu sem er góð og bloggsíðu sem er uppfært oft.

 2. Sammála flestu hérna. Ég les Eyjunna hlægilega mikið (eins og mbl líka reyndar), og maður vafrar mikið þarna um þessi blogg sem Eyjan hefur tekið undir væng sinn.

  Flest eru fín en sumt er sorp, eins og þessi (Guðmundur Rúnar) Svansson, Helga Vala, og ég þoli ekki þessi Dröfn D-unit. Ekki misskilja, ég kvittaði ekki undir þennan lista um að bola henni burt og hún má alveg blogga fyrir mér. En af hverju er Eyjan að tengja sig við þessa síðu hennar? Hún á ekki heima á Eyjunni, fellur ekki í hópinn. I have the right to remain fabulous yall!

  Annars finnst mér Egill góður. Það er rétt hjá BFI að hann uppfæri oft, en engu síður er hann að fjalla um ótrúlega mikilvæg mál oft á tíðum, og útaf þeim fjölda af pósti sem hann fær þá er hann stundum að ljóstra afar miklvægum upplýsingum. Þannig að BFI má ekki blindast af því að hann uppfærir oft á dag því þarna leynast gullmolar í umræðu um málefni líðandi stundar.

  Að lokum þá hrósa ég þér EÖE fyrir að hafa hafnað samstarfi þínu og Kop.is við Eyjuna. Uppá síðkasti finnst manni jú eins og þeir séu bara að reyna að tengja sig við sem flestar síður uppá flettingarnar. Þannig geta þeir hækkað auglýsingaverð og eftirspurn eftir því að auglýsa verður meiri eftir því sem traffíkin eykst að sjálfsögðu. Kop.is hlýtur væntanlega að fá massífa umferð svo það er auðvelt að hverju þeir eru að leitast eftir.

 3. Þetta var ritað í flýti svo allar innsláttarvillur og skyndilegur skortur á orðum er afsakaður! Góða helgi!

 4. Ég var kannski ekki nægjanlega skýr varðandi Egil Helgason: Mér finnst síðan hans léleg.
  Talar um hluti sem hann hefur enga þekkingu á og en segir alltaf “Mér skilst”, “heyrst hefur”, til þess að geta gripið til þess þegar fólk treður ofan í hann.

  Ekki það að færslan þín snúist um Egil…

 5. Einar: ég hélt að það væru óskrifuð lög að maður ætti aldrei að viðurkenna að maður lesi Egil Helga…

 6. Þegar jafn mikil drulla er að koma uppá yfirborðið eftir hið gjörspillta góðæri, þá held ég að það sé eðlilegt að nota orðafar eins og “Mér skilst” eða “heyrst hefur”. Það er betra að grípa til slíks málfars heldur en að yppa öxlum og stinga öllum ábendingum ofan í skúffu. Því sumar af þessum ábendingum hafa svo reynst vera sannar, í öllu uppgjörinu sem á sér stað þessa dagana.

  Málið er að síðan hans Egils er að mörgu leyti svo mikill umræðuvettvangur og upplýsingaveita, og löngu orðin svo miklu meira en einhver síða fyrir persónulegar skoðanir Egils. Þess vegna finnst mér hann alveg eiga efni á því að nota málfar eins og “heyrst hefur”. Síðan hans er það mikilvæg í umræðunni, og allur þessi póstur, þessar massívu upplýsingar sem hann fær, eru oft það mikilvægar að þær verða að fá að komast uppá yfirborðið. Þess vegna afsaka ég þessa fríun Egils sem þú kvartar undan.

 7. Ég er innilega sammála þessu, ekki aðeins þessir kosningapésar sem hafa dúkkað upp heldur hafa alls kyns furðufuglar byrjað að blogga þarna undanfarið af óskiljanlegum ástæðum.
  DD Unit er náttúrulega kapítuli út af fyrir sig og gjörsamlega óskiljanlegt hvað hún er að gera þarna.

 8. Já, það er reyndar spurning hvort þeir séu einfaldlega að rukka frambjóðendur fyrir að fá að blogga. Það er hálf dapurlegt.

 9. ég er svo sammála BFI, svo margt af því sem egill er að copy-paste-a þarna inn er svo augljóslega rangt og það þarf oft ekki að hafa neitt voða mikið fyrir ða komast að því

  honum er bara skítsama, meðan efnið er nógu sjokkerandi og einhver er úthrópaður glæpamaður þá er hann til í að birta það og það er of mikið af fólki sem trúir honum í blindni

  hann er ötulasti kyndilberi “ég er að leita að glæpnum sem felldi bankana og ef hann finnst ekki þá er það bara sönnun á því hversu miklu glæpasamfélagi við lifum í” stefnunnar

  sem mér finnst í besta falli eyðileggjandi

 10. Merkilegt hvað Egill virðist hafa mikil áhrif á sumt fólk miðað við að maðurinn er algjörlega valdalaus …og er satt best að segja dálítill gasprari

  Helst að e-r sjálfstæðismenn stressi sig yfir þessu röfli í manninum …og þá væntanlega vegna þess að hann hefur hitt á veikan blett? :O)

  Annars er maður nú orðinn þreyttur á Agli og röfli í wanna-be-pólitíkusum…

 11. Eyjan stendur mér nokkuð nærri og ég get vitnað um þá kriteríu sem við höfðum í upphafi.

  Það sem lá til grundvallar vali á þeim sem upphaflega voru beðnir um að blogga þarna, var að þeir hefðu bloggað í einhvern tíma á öðrum vettvangi og þá um hluti sem líklegir væru til að vekja áhuga margra.

  Ég er sammála því að eintómar framboðssíður séu ekki að bæta flóruna á Eyjunni. En ég þykist vita að núverandi Eyju-stjórn þyki upphefð af því að fá stjórnmálamenn í hópinn.

  En sjálfum finnst mér fæstir þeirra sem eru í stjórnmálum (hverju nafni sem þau nefnast) blogga sérlega skemmtilega. Það er svo oft svo fyrirsjáanlegt hvað þar standi.

 12. Já, mig grunaði líka að þetta hefði verið stefnan í upphafi.

  En ég þykist vita að núverandi Eyju-stjórn þyki upphefð af því að fá stjórnmálamenn í hópinn.

  Það þykir mér afskaplega furðulegt.

  Þrátt fyrir mikinn áhuga á stjórnmáum, þá er ég ekki með einn einasta þingmann eða wannabe-þingmann á mínum RSS lista. Ég held að það sé varla tilviljun.

Comments are closed.