I'm coo-coo for Cocoa Puffs

Morgunblaðið á netinu fer oft í taugarnar á mér, sérstaklega þegar þeir eru að flytja fréttir um ekki neitt og þegar þeir eru að birta fréttatilkynningar, sem eru í raun og veru bara auglýsing fyrir ákveðin fyrirtæki eða vörur.

Gott dæmi um þetta er frétt, sem birtist í dag, Íslendingar eiga heimsmet í neyslu Cocoa Puffs. Þarna hefur greinilega einhver markaðsmaður hjá Nathan og Olsen fengið einhvejrar upplýsingar frá General Mills um það hve marga gáma þeir hafa keypt af Cocoa Puffs undanfarið. Þeir hafa svo sent tilkynningu á Moggann og Mogginn birtir tilkynninguna fyrirvaralaust, þrátt fyrir að þeir hafi nú bætt einhverju næringarfræðidóti við.

Kannski ættu öll fyrirtæki að apa þetta upp eftir Nathan og Olsen. Þá gæti til birst fréttir á mbl.is um það að Íslendingar eigi heimsmet í neyslu á Appollo lakkrís, skyri, Prince Polo, Chupa sleikjóum, SS pulsum og fleiru.

Það er allt í lagi fyrir fyritæki að birta svona upplýsingar á þeirra eigin vefsvæðum eða tilkynna viðskiptavinum sínum þetta. Hins vegar er þetta alls ekki frétt, sem á að vera á mbl.is.