Indlandsferð 10: Líkbrennsla við Ganges ána

20110324-054802.jpg

Ganges við sólarupprás

Það eru ekki margir ferðamenn, sem komast í gegnum langar Indlandsferðir án þess að fá í magann. Ég var orðinn nokkuð bjartsýnn á að ég myndi halda þetta út því flestir verða veikir á fyrstu 2-3 vikunum. Ég hafði í gær haldið út í 44 daga. En þá játaði maginn á mér ósigur og ég varð ansi hressilega veikur í nótt. Eftir læknisheimsókn á hótelið í morgun er ég þó aðeins skárri.

Á meðan að ég ligg hérna inná hótelherbergi (þægileg tilviljun að við erum akkúrat á nokkuð góðu hóteli núna) er Margrét í kvöldsiglingu um Ganges ána hérna í Varanasi.

* * *

Varanasi er mögnuð borg. Hún er ein elsta borg heims – hérna hefur verið búið samfellt í yfir 3200 ár – og hún er ekki fyrir viðkvæmai. Hérna er gríðareg umferð, mengun og læti og borgin er einstaklega litrík.

Hingað kemur fólk frá öllum hornum Indlands til að þvo af sér syndir sínar í Ganges ánni eða til að brenna þar látna ástvini.

Meðfram Ganges eru ótal “Ghats”, sem eru tröppur sem liggja oní ána. Þar mætir fólk á hverjum morgni til þess að þvo fötin sín, baða sig og til að drekka vatnið úr ánni. Vatnið í ánni er hryllingur, enda er í Ganges dælt iðnaðarúrgangi, sem veldur því að vatnið er hættulegt. Ég stóðst þó ekki freistinguna að dýfa aðeins hendinni í ána (þrátt fyrir mótmæli Margrétar) og innan við sólahring seinna var ég orðinn veikur, þótt að ég kenni nú frekar mat um veikindin frekar en snertingu við Ganges.

Við skoðuðum Ghat-in í tvö skipti. Fyrsta daginn löbbuðum við meðfram þeim helstu. Allt frá Assi Ghat upp til Manikarnika Ghat.

Hið síðastnefnda var án efa ein skrítnasta upplifun ævi minnar. Manikarnika er vinsælasta líkbrennslu-Ghat-ið. Þar eru við ána svona 10 bálkestir, þar sem að lík eru brennd. Fyrst eru líkin borin á börum að Ganges ánni og þeim dýft í ána í smá stund. Svo eru þau borin á einn af bálköstunum, yfir þau staflað slatta af eldivið og svo kveikt í. Eftir stutta stund brenna fötin af líkinu og eftir stendur það að maður horfir á 5-6 bálkesti með illa brunnum líkum í. Þetta var svo furðuleg reynsla að maður var í hálfgerðu sjokki. Hverju líki fylgja kannski 10-15 karlmenn, því konum er bannað að koma í líkbrennslurnar. Bæði vegna þess að einu sinni áttu þær til að kasta sér á eldinn með eiginmönnum sínum og svo er einnig bannað að gráta við líkbrennsluna, þar sem að þá komast sálirnar ekki á friðsælan hátt til himna, eða hvert sem þær vilja fara.

Allavegana, við stóðum hjá Manikarnika Ghat í um hálftíma og horfðum á líkin brenna, sem er eitthvað sem ég mun sennielga aldrei gleyma.

Í gærmorgun fórum við svo við sólarupprás í bátsferð um Ganges ána, sem var klárlega einn af hápunktum þessarar ferðar. Árabáturinn okkar fór rólega meðfram Ghat-unum og þar gátum við horft á fólk baða sig, gera morgunjóga og svo framvegis. Frábær upplifun og eitthvað sem maður sér hvergi annars staðar en í þessu magnaða landi.

* * *

Í gærkvöldi veiktist ég svo og deginum dag hef ég eytt hérna inná herbergi. Annað kvöld munum við svo taka lest til Siliguri og þaðan jeppa upp til Darjeeling, sem er í um 2.110 metra hæð. Það þýðir að hitastigið lækkar úr 37C í Varanasi í dag í 15C í Darjeeling. Við ætlum að vera í nokkra daga í Darjeeling og taka svo flug til Kolkata. Eftir einn dag í Kolkata fer ég þaðan í 4 daga til Bangladesh og svo munum við enda ferðina á viku á Andaman eyjum.

*Skrifað í Varanasi, Uttar Pradesh, Indlandi klukkan 19.20*