Indlandsferð 11: Punktar um Indland og Indverja

20110327-024646.jpg

Síki á hjóla-rickshaw á markaði í Amritsar

Eftir 14 klukkutíma lestarferð frá Varanasi til Siliguri og 3 klukkutíma jeppaferð (þar sem við fórum úr nokkrum metrum yfir sjávarmáli uppí 2.100 metra) hingað til Darjeeling þá er einsog við séum komin til annars lands.

Því Darjeeling á auðvitað miklu meira sameiginlegt með Nepal, Sikkim og Bhútan heldur en nokkurn tímann Indlandi. Darjeeling var tekið yfir af bretum af Sikkim í kringum 1860 (og Sikkim var svo síðar innlimað í Indland árið 1975). Fólkið hérna líkist ekki Indverjum neitt, hérna eru flestallir búddistar og venjurnar og andrúmsloftið allt annað en á öðrum stöðum á Indlandi. Flestir eru af nepölskum ættum. Hérna í Darjeeling hefur í mörg ár verið sjálsfstæðishreyfing, sem vill stofna landið Gurkhaland, en kraftur hennar hefur dofnað á síðustu árum.

Það er slatti af hlutum, sem ég hef ætlað að koma inní blogg en ekki gert. Því er þetta ágætis tími fyrir smá punktablogg.

 • Indverjar hafa þann skrýtna ávana að vagga höfðinu til hliðar. Þetta getur þýtt að þeir séu að samþykja það sem þú segir, nokkurs konar þakklæti og einnig að þeir séu óvissir. Það tók okkur góðan tíma að skilja hvernig þeir nota þessa hreyfingu, en við erum orðin sæmilega góð í að skilja hana núna.
 • Indverskar biðraðir eru magnaðar. Við höfum aðallega lent í biðröðum á lestarstöðum. Þær eru eiginlega smá einsog biðraðirnar voru á Vegamótum þegar að ég heimsótti þann stað þrisvar í viku. Fyrir það fyrsta, þá færðu ekkert pláss í biðröðinni. Um leið og það er kominn einhver fyrir aftan þig, þá er sá einstaklingur kominn aaaaalveg uppað þér. Karlmaður í einni biðröðinni hallaði hökunni sinni á öxlina á mér og þótti það greinilega þægilegt.

  Röðin breiðist svo oft út í margar áttir – ekki bara beint aftur. Dálítið einsog þegar maður var alveg við það að komast inná Vegamót. Þá birtist allt í einu einhver hópur af fólki, sem taldi sig hafa brýnara erindi inn á staðinn og vildi fá að komast inn á undan manni. Þannig er þetta í indverskum biðröðum – þegar maður kemst uppað glugganum á lestarstöðinni þá mæta allt í einu 3-4 einstaklingar sitthvorum megin við mann, sem vilja komast að og skilja ekkert í mér að ég hafi eitthvað við því að segja. Ég reyni að segja sjálfum mér að ég hafi engan rétt á því að vera með einhvern sænskan biðraðar-fasisma á Indlandi, en það gerir hlutina ekki mikið auðveldari.

 • Tengt þessu, þá hafa Indverjar ekki sama skilning og við á persónulegu rými. Sennilega vegna þess að Indverjar eru 1,3 milljarðar en við Norðurlandabúar erum 30 milljónir. Indverjar eru einfaldlega vanir því að vera í mannþröng. Það er alls staðar þröngt. Þess vegna koma þeir rosalega nálægt manni þegar þeir tala við mann og standa upp við mann í biðröðum eða bara útá götu.
 • Indverskir karlmenn klæða sig nánast allir á vestrænan máta. Indverskar konur klæða sig hins vegar á mun hefðbundnari hátt. Langflestar klæðast þær litríkum sari. Aðeins þær, sem líta út fyrir að vera mest efnaðar, sér maður í einhverju öðru en saari.
 • Maður sér almennt séð ekkert alltof mikið af indversku kvenfólki útá götu á Indlandi. Karlar eru útum allt. Í lestum, á lestarstöðvum, í búðum, á mörkuðum, útá götum, í bílum og svo framvegis. Sennilega eru það ekki ýkjur að um 70% fólks, sem maður rekst á séu karlmenn. Þetta er furðulegt. Konurnar eyða einfaldlega mun stærri hluta af sínum degi inná heimilinu.
 • Indverjar eru upp til hópa með alvarlegan heyrnarskaða. Ég nenni ekki að Google-a rannsóknir um þetta, en byggt á mínum óformlegu rannsóknum þá hlýtur þetta að vera staðreynd. Fyrir það fyrsta eru gríðarleg læti alls staðar (fyrir utan hérna í fjallasælunni í Himalaya fjöllum). Þetta er verst útá götum, þar sem flautin í bílum eru að gera mig klikkaðan. Flautin eru stanslaus og þar sem við erum oftast gangandi eða í opnum rickshaw bílum, þá heyrum við flautin einstaklega vel. Það líða ekki 20 sekúndur án þess að maður heyri flaut í innan við 10 metra fjarlægð. Þetta einfaldlega hlýtur að skaða heyrn Indverja.

  Indverjar tala líka alveg fáránlega hátt við hvorn annan. Í gsm síma nánast öskra þeir og þegar að það er meira en svona 30-50cm á milli fólks þá tala þeir það hátt að á þá yrði sussað í nánast öllum öðrum löndum heims. Í lestunum hérna virðist bara vera samkomulag um að þegja á milli miðnættis og sirka 4 um morgun. Eftir það byrja fólk að spjalla, þótt að helmingurinn í lestinni sofi. Þrátt fyrir að fólk sé að spjalla við sessunaut sinn í svefnrými lestar þá talar fólk samt álíka hátt og við myndum gera inná skemmtistað.

Ég læt þetta duga í bili. Á morgun ætlum við í göngu um nágrenni Darjeeling og á þriðjudagsmorgun ætlum við að sjá sólarupprás hjá Tiger Hill, þar sem við gerum okkur veika von um að veðrið verði nógu gott til að sjá þriðja hæðsta fjall í heimi, Kanchenjunga.

*Skrifað í Darjeeling, Vestur Bengal, Indlandi klukkan 14.40*

2 thoughts on “Indlandsferð 11: Punktar um Indland og Indverja”

 1. Gaman að fá að fylgjast með ferðalaginu ykkar!

  Í sambandi við mannfjöldann þá mundi ég eftir mjög fyndnu atriði sem indverskur skólafélagi minn sagði mér frá þegar við vorum saman í skóla í Uppsala. Þegar hún kom fyrst til Uppsala hélt hún að það hlyti að vera einhver meiriháttar hátíð í Stokkhólmi þar sem allir Uppsalabúar hlytu að vera á, þar sem að hennar mati voru göturnar í Uppsala algjörlega mannlausar miðað við það sem hún var vön frá Indlandi…

Comments are closed.