Indlandsferð 15: Kolkata

Ég er kominn aftur til Kolkata á Indlandi eftir flug frá Bangladess.

Ég byrjaði á því á sunnudaginn að taka flug frá Khulna til Dhaka. Ég hafði pantað flugið með nokkrum fyrirvara, en komst að því nokkrum tímum fyrir brottför að því hafði verið aflýst. Starfsmenn flugfélagsins buðu mér því að panta með öðru flugfélagi, sem hét því ágæta nafni United Airways (BD) – þar sem að (BD) á greinilega að aðgreina félagið frá talsvert stærra flugfélagi í USA. Mér er ekkert alltof vel að fljúga með félögum, sem ég þekki ekki og leist ekkert sérstaklega vel á gamla skrúfuvél, sem átti að ferja okkur til Dhaka.

Vélin byrjaði að hristast allverulega í flugtaki, sem gerði mig pínu stressaðari og svo toppaði flugfreyjan allt með því að segja stuttu fyrir lendingu “Inshallah we will be landing shortly in Dhaka”. Ég vil auðvitað meina að lendingin hafi meira með hæfa flugmenn og viðhaldsfólk vélarinnar að gera heldur en Allah, en við komumst allavegana til Dhaka heil.

* * *

Síðasta sólarhringinn í Dhaka gerði ég lítið. Borðaði smá vestrænan skyndibita, eyddi slatta tíma í umferðarteppu til og frá flugvellinum og skoðaði svo safn um Frelsisstríð Bangladess. Á því safni farið yfir stríðið, sem byrjaði stuttu áður en að Bangladess lýsti yfir sjálfstæði frá Vestur-Pakistan. Safnið er áhrifamikið og lýsir ágætlega þeim ótrúlegu voðaverkum, sem að Pakistanar frömdu á þáverandi löndum sínum. Menntafólk og hindúar voru sérstaklega illa úti í því þjóðarmorði, sem Pakistanar frömdu í Bangladess þar sem talið er að yfir 3 milljónir saklausra borgara hafi á endanum verið drepnir.

Safnið sýnir ágætlega hversu ótrúlega vanhugsuð aðgerð skipting Indlands var í upphafi. Ég hef ekki farið til Pakistan, en þegar maður les um þær hörmungar, sem þessi skipting landsins hefur valdið, þá á maður erfitt með að hugsa ekki til þess hversu illa grunduð aðgerðin var í upphafi – sérstaklega þar sem hún varð að svo stóru leyti til útaf einum manni . Að fólk í gjörsamlega ólíkum landshlutum ættu að allt í einu að vera í sama landinu bara vegna trúarbragða. Að Kolkata væri allt í einu í öðru landi en Dhaka, þannig að stór hluti landbúnaðar Bangladess hafði ekki lengur aðgang að verksmiðjunum í Kolkata og þaðan að höfn. Og allar þær milljónir, sem dóu í flutningum. Fólk, sem þurfti að flytja sína fjölskyldu hundruðir kílómetra eingöngu vegna þess að það trúði á sitthvorn Guðinn. Allt í einu þurftu múslimar að flýja Indland þótt að fjölskyldur þeirra hafi búið þar í hundruðir ára. Plús það að eftir sitja múslimar, sem áður tilheyrðu einu landi, nú í þremur löndum og hafa lítil sem engin samskipti. Eftir sitja á Indlandi tugir milljóna múslima í minnihlutanum, sem að Jinnah óttaðist svo mikið.

* * *

Allavegana, Kolkata er líkt og Bangladess í huga manns tengd hörmungum. Bangladess þekkir maður útaf náttúruhamförum, sem hafa dunið yfir landinu, og Kolkata þekkir maður vegna fátæktarinnar, sem að Móðir Teresa varð þekkt fyrir að berjast við. (Sjá hérna ágætis umfjöllun Christopher Hitchens um Móðir Teresu).

Það fer auðvitað í taugarnar á Kolkata búum að borgin sé fyrst og fremst þekkt vegna fátæktar, því þeir vilja auðvitað meina að hún standi Delhi og Mumbai jafnfætis þegar að kemur að menntun, viðskiptum, menningu og öllu umhverfi borgarinnar.

Kolkata virkar á mig einsog Mumbai (fyrir utan hrikalegan hita og raka hérna). Hérna er fullt af fátæku fólki, en einnig fullt af ríku fólki. Hérna eru fallegar breskar byggingar einsog Victoria Memorial – þekktasta bygging Kolkata – og fullt af vestrænum skyndibita og verslunarmiðstöðvum. En borgin er líka full af indverskri geðveiki. Hérna er fólk útum allt, betlarar og sofandi fólk á öllum götum. Brjáluð umferð þar sem að fjörgamlir Ambassador leigubílar fylla allar götur. Endalaus flaut, endalaus læti, brjálaður hiti, raki og mengun.

Hótelið okkar virkaði vel á mig í upphafi – hreint, ágætis loftkæling og svo framvegis. Í morgun breyttist það smá þegar að ég heyrði skelfilegt öskur Margrétar þegar ég var í sturtu. Inní herbergið hafði þá komið lítil rotta. Eftir smá eltingaleik þá fór hún út aftur – undir hurðina á herberginu. Við tróðum handklæði þar undir, drifum okkur út og báðum starfsfólkið að skoða málið.

Við höfum tekið því frekar rólega í túrismanum hérna – skoðað blómamarkaðinn, aðalmarkaðinn, löbbuðum yfir hina mögnuðu Howrah brú og skoðuðum hið afar sjúskaða og niðurnídda India Museum, sem hefur án ef átt betri daga.

Kolkata er síðasta stórborgin, sem við sjáum í þessari Indlandsferð (fyrir utan millilendingu í Mumbai). Að mörgu leyti er ágætt að kveðja þennan part af Indlandi með Kolkata. Hún er gríðarlega indversk og það er erfitt að fara héðan án þess að borgin hafi áhrif á þig. Við Margrét erum þó sennilega orðin frekar dösuð eftir 7 vikur af indverskri geðveiki.

Skrifað í Kolkata, Vestur Bengal á Indlandi klukkan 19.00