Indlandsferð 16: Paradís?

Andaman eyjur eru 1.000 kílómetra austan við meginland Indlands og maður þarf oft að minna sig á að maður er (formlega allavegana) enn staddur á inversku landi.

20110413-064032.jpg

Ég á strönd 7 á Havelock eyju.

Andaman og Nicobar eyjur (túristar fá ekki að koma á Nicobar) eru eyjaklasar sem innihalda hundruðir lítilla eyja. Hérna búa enn innfæddir ættbálkar, sem eru þó sumir í útrýmingarhættu og mikill meirihluti íbúanna kemur frá meginlandi Indlands, þar á meðal stór hópur, sem flúði uppskipti Bengal héraðs (í Indland og Austur-Pakistan/Bangladesh). Af 62 tegundum spendýra, sem búa á eyjunum eru 32 þeirra bara til hér.

Eyjurnar eru eins nálægt túristabæklinga-paradís og hægt er að komast. Ég skrifa þetta fyrir utan litla bungalow-ið okkar á eyjunni Havelock og 100 metra frá mér sé ég ströndina og Andaman hafið. Nánast allar eyjurnar (Havelock meðtalin) eru þaktar hitabeltisskógi frá hæstu punktum og alveg að hvítum ströndum. Strandirnar eru fullkomnar með algjörlega hvítum sandi og blágrænum sjó. Og jafnvel Havelock eyja er ótrúlega lítið þróuð þegar að kemur að túrisma. Hérna er ódýrt að vera – stutt frá okkar bungalow er hægt að leigja sér gistingu fyrir um 250 isk á nóttu og okkar bunglaow kostar undir 2.000 krónum á mann á dag (miklu dýrara en á meginlandinu, en fyrir svona paradís, helvíti ódýrt). Einu gallarnir, sem ég get fundið, er að hérna er erfitt að kaupa áfengi og að hitinn á nóttunni er svo mikill að það er smá erfitt að sofa í okkar ó-loftkælda húsi).

* * *

Og hérna eru líka rétt fyrir utan eyjuna stórkostleg kóralrif með mögnuðu dýralífi, sem býður uppá frábæra köfunarmöguleika.

Strönd númer 7, sem er hinummegin á eyjunni og við heimsóttum á laugardaginn, var í einhverju Time blaði valin besta strönd í Asíu og það er auðvelt að sjá af hverju. Hún er gríðarlega löng, með fullkomnum hvítum sandi, fallegum skógi í bakgrunni, 28 gráðu heitum sjó og nánast engu fólki. Við erum hérna utan mesta túristatímabilsins, en samt kom það mér á óvart hversu fáir eru hérna. Það hjálpar sennilega að til Port Blair eru bara bein flug frá Kolkata og Chennai og til að komast á Havelock eyju þarf að taka 3 tíma ferju frá Port Blair.

Við komum hingað til að njóta sólarinnar og kafa. Við höfum ekki gert svo mikið af því að njóta sólarinnar, því að asninn ég brann illa á bátnum í fyrstu köfuninni og hef því forðast sólina. En þess í stað höfum við kafað slatta og það hefur verið frábært.

Við ákváðum að bæta aðeins við köfunarnámið okkar sem að ég byrjaði á í Hondúras fyrir 6 árum og taka Advanced kúrsinn. Það gefur okkur m.a. leyfi til þess að kafa dýpra (30 metra í staðinn fyrir 18) og í myrkri. Til þess að fá það leyfi höfum við því farið í nokkuð sérstakar kafanir. Við höfum farið í djúpköfun og köfun þar sem við áttum að komast leiðar okkar með hjálp kompás. En hápunkturinn var án ef að kafa í fyrsta skipti í myrkri.

Hitinn hérna á kvöldin er gríðarlega mikill og því er það yndislegt að kafa hérna á kvöldin. Hitastigið í vatninu er það sama og að sjá hlutina með vasaljósi í algjöru myrkri er einfaldlega stórkostlegt. Við köfuðum 4 saman í hóp með lítil vasaljós og skoðuðum fiskana, sem að kunna betur við sig í myrkri. Þetta var mögnuð lífsreynsla og magnaðast af öllu var í lok köfunarinnar þegar við slökktum á öllum ljósunum (við héldum þá í línu úr bátnum) og á um 5 metra dýpi lékum við okkur að því að snerta svif, sem að lýstu í myrkrinu þegar við snertum þau. Það er einhver almagnaðasta sjón, sem ég hef séð því svifin eru útum allt og í hvert skipti sem maður hreyfði hendur eða fætur þá lýstust upp hundruðir svifa.

* * *

Það eru ekki nema nokkrir dagar eftir af þessari ferð og bara nokkrar kafanir hérna á Andaman eyjum eftir. Á miðvikudaginn byrjum við að þoka okkur nær Stokkhólmi.

Ég hef ekki farið á netið í fimm daga og því er ég að skrifa þetta blogg á símann minn og mun reyna að birta það þegar ég kemst nær netsambandi á ný.

Skrifað á Havelock eyju í Andaman eyjaklasanum á Indlandi klukkan 17.14 mánudaginn 11.apríl.