Indlandsferð 6: Indversk geðveiki

Lestarteinar á leiðinni til Pushkar

Ég áttaði mig á því þegar ég hugsaði aðeins útí það hvað ég hef skrifað héðan frá Indlandi að landið gæti virkað nokkuð eðlilegt ef fólk myndi bara miða út frá þessum ferðafærslum mínum. Virki hér og þar, konungshallir og góður matur. Það er allt satt og rétt og ég hef ekki viljandi verið að draga úr eða ýkja áhrif Indlands á okkur. En það er alveg í lagi að hitt komi llka fram:

Indland er fokking geðveikt.

* * *

Ég hef ferðast til yfir 50 landa, sum hver verulega fátæk og sum hver verulega skrítin. Þessi ferðalög draga eflaust úr þeim áhrifum, sem að ný lönd hafa á mig. Kirkjur eru ekki jafn magnaðar þegar maður hefur séð Péturskirkjuna, fossar ekki jafn stórkostlegir þegar maður hefur séð Iguazu fossa. Og ruslið, umferðin og geðveikin verður ekki jafn áberandi þegar maður hefur verið í Kambódíu, Kaíró, Mið-Ameríku, Sýrlandi og Indónesíu.

Sjokkið við að koma til Indlands fyrir mig er eflaust mun minna en fyrir þá, sem heimsækja þetta land fyrst landa utan Vesturlanda.

En Indland er samt geðveikt. Brjálað, skrítið, magnað, furðulegt, fátækt, ríkt, skítugt, fallegt og ljótt. Slagorðið, sem að ferðamannayfirvöld hafa valið fyrir Indland er “Incredible India”. Og það er jú rétt, Indland er ótrúlegt.

Stærstur hluti gærdagsins fór í 6 tíma leigubílaferð frá Ranthambore þjóðgarðinum hingað til Pushkar. Þessi ferð var ósköp svipuð hinum bílferðunum um indverska þjóðvegi. Hérna er maður aldrei lengi í sveit. Nánast alls staðar virðist vera einhver byggð. Meðfram þjóðvegunum nánast öllum eru einhverjir litlir bæjir, sem virðast oft ekki vera mikið meira en samansafn af litlum búðum. Vegirnir, sem við keyrðum á í dag voru einsog hinir vegirnir flestir – oftast bara ein akbraut í hvora áttina og fullir af götum.

Ég er vanur ýmsu þegar að kemur að umferð. Ég bjó heilt sumar í Mexíkóborg, ég hef farið yfir götur á milli hundruða vespa í Ho Chi Minh borg, ég hef farið yfir hringtorg í Istanbúl og Kaíró. Ég hef keyrt um á vespu í Pnom Penh og taxa í Jakarta. Ég hef pirrað mig á endalausu flauti í Hanoi. En ég held að ég halli ekki á neinn þegar ég segi að Indland býður uppá verstu umferðarmenningu, sem ég upplifað.

Umferðin hérna er hreinasta geðveiki. Á vegum einsog í dag er nákvæmlega ekkert tillit til þess í hvora átt umferðin á að vera á hvorri akrein (svo að það sé á hreinu, þá keyra Indverjar vinstra megin). Þjóðvegirnir eru fullir af eldgömlum Tata sendibílum, sem mega oftast bara keyra á 40km hraða á þjóðvegunum. Það veldur því að restin af umferðinni er ein risavaxin keppni um það hver getur tekið framúr flestum þeirra. Tata vöruflutningabílarnir hafa engin stefnuljós og það veit hvort eð er enginn hvernig á að nota þau, þannig að bílarnir sem taka fram úr þeim flauta stanslaust. Ef þú ætlar að taka fram úr Tata vörubíl þá skoðarðu hvort það er einhver að keyra á móti þér, þenur flautuna og tekur svo framúr. Ef að þú sérð að það kemur bíll á móti þér á sömu akrein og þú ert, þá blikkarðu ljósunum og vonar að sá bíll hægi á sér, svo þú endir ekki framan á honum. Þessu er magnað að fylgjast með, en ekkert sérstaklega gaman að upplifa í aftursæti bíls þegar að bara sætisbelti bílstjórans virka.

Í raun er skrítið að hugsa útí það hvaða kröfur Indverjar gera til annarra ökumanna. Að vissu leyti virðast þeir halda að aðrir ökumenn og gangandi vegfarendur séu sofandi hálfvitar, því þeir flauta stanslaust á mann þegar maður labbar í makindum sínum útá götu. En einnig virðast þeir treysta öllum hinum ótrúlega mikið. Nokkrum sinnum í dag ætlaði bílstjórinn okkar að taka fram úr vöruflutningabíl, sem að ákvað á sama tíma að skipta um akrein. Í flestum löndum hefði bílstjórinn okkar slakað á og beðið eftir því að trailerinn myndi klára það, en okkar bílstjóri byrjaði bara að flauta og gefa í í þeirri von um að trailerinn myndi sjá að sér og hætti við að skipta um akrein. Hvað eftir annað tók hann líka fram úr þegar það var augljóst að bílinn úr hinni áttinni, sem stefndi á okkur á 70km hraða þyrfti annaðhvort að hægja á sér eða enda með eitt stykki leigubíl framan á sér. Til að kóróna daginn keyrði bílstjórinn okkar svo yfir hund.

* * *

Lífið hérna á götum inní borgum Indlands er líka geðveikt. Þetta með kýrnar útá götu er ekki bara eitthvað, sem sést bara í heimildamyndum um Indland. Beljurnar eru útum allt, á hverri einustu götu hérna. Á öllum götum eða til hliðar við göturnar er gríðarlegt magn af rusli, mestallt matarpakkningar. Einhverjir virðast hirða verðmætustu pakkningarnar úr ruslahaugunum á götunum (plastflöskur til dæmi) og svo virðast dýrin – annaðhvort hundar, kýr eða *svín* borða allt, sem hægt er að borða af ruslahaugunum. En eftir stendur gríðarlegt magn af plastdrasli, sem enginn tekur upp (plastpakkningar, plástmál, sem Indverjar drekka te úr, pakkningar utanaf súkkulaði og svo framvegis). Vissulega er ég orðinn vanur því að sjá svona mikið rusl útá götu í ýmsum löndum, en það gerir hlutinn ekkert skemmtilegri.

Margrét í Rickshaw á markaðinum í Jaipur

Í flestum borgum og bæjum er líka ekkert sem heitir gangstéttar. Flestir búðaeigendur hugsa um fyrsta meterinn fyrir framan sína búð og hann tengist vanalega ekki metranum fyrir framan næstu búð. Þessi skortur á gangstéttum plús það að það litla, sem er til af gangstéttum er vanalega þakið parkeruðum mótorhjólum, veldur því að maður labbar eiginlega alltaf á götunni. Þar mæta manni svo hópar af karlmönnum á mótorhjólum, sem eru sannfærðir að eina leiðin til þess að ná athygli manns sé að flauta. BÍP BÍP BÍP! Jafnvel þótt að maður sé að labba beint á móti mótorhjólinu og horfi í augun á ökumanninn, þá flautar hann samt. Þetta getur gert mann hálf heyrnalausan og hálf geðveikan. Indverjar sýna þó ótrúlegt jafnaðargeð, enda væri allt vitlaust ef að fólk myndi láta flautið fara jafnmikið í taugarnar á sér og ég geri á stundum.

Því að einhvern veginn virkar Indland. Einhvern veginn getur allur þessi mannfjöldi komið sér í og úr vinnu án þess að verða geðveikt. Það kippir sér ekki upp við það þótt að mótorhjólamenn flauti á sig, eða að fólk inní loftkældum (og lokuðum) jeppum flauti á það. Það verður ekki pirrað þegar að allir þurfa að hópast inní lestarvagn á sama tíma, eða við annan troðning, sem er partur af daglegu lífi hérna í þessu ótrúlega fjölmenna landi. Nei, einhvern veginn eru Indverjar alltaf ótrúlega hressir.

Og vissulega glíma Indverjar við miklu stærri vandamál en ég rek mig á hérna – ég veit það vel. Matur og menntun er svo sannarlega mikilvægari málefni heldur en rusl á götum eða skortur á gangstéttum eða umferðarreglum.

* * *

Við Margrét eyddum síðustu tveim dögum við Ranthambore þjóðgarðinn. Þar fórum við í “safari” ferð, þar sem við keyrðum um í opnum jeppa í von um að sjá tígrisdýr, sem við aldrei sáum – því miður. En við sáum ótrúlega náttúrufegurð og antílópur og dádýr og páfugla, apa og aðrar magnaðar verur. Og við fengum smá frið frá bílaflauti þegar að við nutum indverskrar náttúru.

* * *

Við keyrðum svo hingað til Pushkar, þar sem við ætlum að eyða næstu dögum.

Í dag höfum við verið hérna á Indlandi í yfir þrjár vikur og við elskum Indland. Þrátt fyrir alla geðveikina og öll vandamálin eru Indverjar stórkostlegt fólk, maturinn er frábær og landið býður uppá magnaða ferðamannastaði. Ferðin okkar er ekki einu sinni hálfnuð og við erum sko langt í frá búin að fá nóg af þessu geðveika og ótrúlega landi.

*Skrifað í Pushkar, Rajasthan, Indlandi klukkan 10.15*

One thought on “Indlandsferð 6: Indversk geðveiki”

  1. Magnað, alltaf gaman að lesa ferðasögurnar þínar. Njótið ykkar í botn! 🙂

Comments are closed.