Indlandsferð 7: Höfuðborgin Delhi

Indland er sjöunda stærsta land í heimi (á eftir Rússlandi, Kanada, Kína, USA, Brasilíu og Ástralíu) og næst fjölmennasta land í heimi á eftir Kína. Í Kína búa núna 1,3 milljarðar en 1,2 á Indlandi. Talið er að Indland fari fram úr Kína á næstu árum þar sem fólksfjölgunin er miklu meiri á Indlandi en í Kína. Hin löndin, sem áður voru partur af Indlandi – Bangladess og Pakistan eru einnig bæði á meðal 8 fjölmennustu ríkjum veraldar (samanlagður mannfjöldi í þessum 3 löndum er 1,5 milljarður.

Þetta er MIKIÐ af fólki. Bara á Indlandi býr fleira fólk en í allri Afríku. Sama á við um Evrópu, Norður-Ameríku og Suður-Ameríku. Á Indlandi býr fleira fólk en í allri Ameríku frá Alaska til Tierra del Fuego. Við gætum bætt Eyjaálfu við alla Ameríku og samt byggi fleira fólk á Indlandi.

* * *

Landið er 11. stærsta hagkerfi heims, en það er samt minna en hagkerfi Kanada eða Ítalíu. Ef við tökum landsframleiðslu per einstakling þá er Indland í 137 sæti af öllum löndum heims. Það þýðir (fyrir mig) að ég hef bara komið til þriggja fátækari landa (Víetnam, Kambódíu og Laos). Lönd einsog Nígería, Jemen, Súdan og Bólivía eru með hærri landsframleiðslu per íbúa en Indland. Samt eru bara 12 lönd í heimi þar sem fleiri dollara milljónamæringar búa.

Þetta þýðir auðvitað að ójöfnuðurinn er gríðarlegur. Á hótelinu okkar í Delhi fáum við India Times, sem er uppfullt af lúxus fasteignaauglýsingum, en þegar við löbbum út og til vinstri, þá liggja fjölmörg börn og gamalmenni og sofa á götunni, á milli þess sem þau betla fyrir mat. Vandamál landsins eru gríðarleg og pólitík á Íslandi og í Svíþjóð virkar einsog barnaleikur þegar maður hugsar útí hverslags vandamál blasa við því fólki, sem vilja ráða yfir þessum gríðarlega mannfjölda. Í Mumbai sáum við atvinnuauglýsingar þar sem launin voru auglýst 4.000 rúpíur per mánuð. Ein nótt á Oberoi hótelinu í sömu borg kostar hins vegar 40.000 rúpíur. Þrátt fyrir þetta er Oberoi fullt og eflaust nóg af fólki að sækja um þessar vinnur. 64% þjóðarinnar kann að lesa (aðeins 53% kvenna).

80% Indverja eru Hindúar og 13,4% eru múslimar (2,3% kristnir og 1,9% síkar). Þegar að Indland var skipt upp í Indland og Pakistan fluttu margir múslimar til Pakistan og frá Pakistan margir Hindúar til Indlands, en þrátt fyrir það er Indland þriðja fjölmennasta múslimaríki heims (á eftir Indónesíu og Pakistan). Á Indlandi búa fleiri múslimar en í Tyrklandi og Íran samanlagt.

95% af öllum hindúum heimsins búa á Indlandi (í Pakistan eru í dag bara 2,5 milljónir hindúa, en öllu fleiri í Bangladess, áður Austur-Pakistan).

* * *

Við erum núna stödd í Delhi, höfuðborg Indlands. Delhi er 4. fjölmennasta borgarsvæði heims á eftir Tokíó, Jakarta og Mumbai á Indlandi. Hérna er talið að um 21 milljón manns búi, reyndar á talsvert stærra svæði en í Mumbai.

Við gistum á hóteli á svæði, sem er á mörkum Gömlu Delhi og Nýju Delhi. Gamla Delhi er reyndar alls ekki elsti hluti borgarinnar, heldur er nafnið notað yfir þann borgarhluta þar sem áður stóð höfuðborg Mughal veldisins frá 1600. Þar er Rauða Virkið til að mynda. Nýja Delhi er svo nafn notað yfir það svæði, sem að Bretar byggðu þegar að þeir fluttu höfuðborg Indlands frá Kalkutta til Delhi árið 1911. Gamla Delhi er full af litlum götum og mörkuðum og slíku, en hjarta Nýju Delhi eru breiðgötur og skrifstofur yfirvalda, með tilheyrandi breskum arkitektúr. Þar er allt skipulagt, hreint og fínt (ruslatunnur og allt), en í Gömlu Delhi eru hlutirnir líkari því sem við höfum átt að venjast í öðrum indverskum borgum.

* * *

Tíminn okkar í Delhi hefur ekki nýst neitt sérstaklega vel þar sem Margrét hefur verið veik allan tímann. Hún fór á spítala í gær, þar sem er vel hugsað um hana og hún er mun hressari í dag. Læknarnir vona að hún geti farið út á morgun og verði þá búin að losa sig við þessa matareitrun, sem hefur hrjáð hana síðustu vikuna.

Við náðum þó að skoða aðeins Nýju Delhi áður en Margrét var lögð inn. Við skoðuðum Þjóðminjasafnið og Rajpath, þar sem að bæði India Gate og skrifstofur forsetans eru. Eftir að Margrét var lögð inn hef ég haldið áfram að njóta smá vestrænna þæginda í Nýju Delhi. Ég hef borðað á McDonald’s og KFC (á KFC hef ég bara einu sinni borðað á síðan 2006 þegar ég fór á staðinn í Víetnam) og notið þess að fá smá frið frá indverskum mat. Þótt að hann sé stórkostlegur, þá fær maður smá leið á honum eftir 4 vikur. Og svo höfum við borðað Pizza Hut pizzur saman á spítalanum.

Margrét fær vonandi að fara út á morgun og þá munum við reyna að sjá meira af Gömlu Delhi. Síðan er planið að taka lest til Amritsar á þriðjudagsmorgun þar sem við ætlum að skoða Gullna Hofið.

*Skrifað í Delhi, Indlandi klukkan 19.15*

3 thoughts on “Indlandsferð 7: Höfuðborgin Delhi”

  1. Skilaðu batnaðakveðju til hennar Margrétar. Vonandi nær hún sér svo þið getið haldið áfram góðu ferðalagi og góðum skrifum fyrir snjóþreytta Íslendinga 🙂

Comments are closed.