Indlandsferð 17: Ferðalok

Hjá Taj Mahal

Hjá Taj Mahal

Þá er þessi Indlandsferð búin. Tveir mánuðir í þessu brjálaða og yndislega landi. Ég hefði alls ekki viljað hafa ferðina styttri því dagsrkáin var mjög þétt nánast allan tímann, en eftir tvo mánuði er maður líka búinn að fá sinn skammt af Indlandi.

Því Indland getur verið lygilega frústrerandi á tíðum. Það er ekki erfitt að verða ástfanginn af Indlandi og Indverjum, en það er ekki heldur erfitt að verða brjálaður útí landið og fólkið. Það er hluti af því sem gerir þetta land svo magnað.

Ég verð líka að játa að eftir að ég fékk magapestina hef ég átt einstaklega erfitt með að borða ekta indverskan mat. Ég ældi tandoori kjúklingi og eftir það langaði mig ekki í tandoori. Því var ég alveg einstaklega varkár í mataræði síðustu vikurnar og maturinn, sem hafði verið stórkostlegur í Rajastan, varð frekar óspennandi síðustu vikurnar – steikt hrísgrjón og slíkt.

* * *

Síðasta vikuna í ferðinni vorum við á Havelock eyju. Við kláruðum Advanced Open Water kúrsinn, sem gerir okkur kleift að kafa á fleiri stöðum í framtíðinni. Það er gott að hafa lokið því af því að kafanirnar í kúrsinum eru ekki alveg jafn skemmtilegar og þær kafanir þar sem maður hefur frelsi til að gera það sem maður vill gera. Auk næturköfunarinnar (sem var algjört highlight) þá tókum við síðasta daginn á námskeiðinu myndavélaköfun og svo köfun þar sem við áttum að greina fiska.

Síðasta daginn á Havelock vöknuðum við svo snemma og keyrðum yfir á hina yndislegu strönd 7 þar sem planið var að kafa með fílnum Rajan. Þessi fíll er nokkuð frægur eftir að hann lék í myndinni The Fall þar sem hann kafar (sjá ótrúlegt myndband á Youtube). Fíllinn, sem er orðinn rúmlega sextugur, kafar enn þann dag í dag með fólki. Við mættum því á ströndina ásamt 6 öðrum köfurum og vonuðumst til að hann myndi kafa með okkur. Við urðum þó fyrir vonbrigðum þar sem öldurnar voru það háar að greyið fíllinn þorði ekki útí. Þannig að við fengum bara aðeins að synda í vatninu meðan hann labbaði aðeins um. Sem var jú ótrúlega skemmtilegt þótt að það væri ekki jafn spennandi og köfun með honum.

Seinna um daginn tókum við svo ferju til Port Blair, sem er aðalborgin á Andaman eyjum og á fimmtudaginn tókum við þaðan fyrsta af fimm flugum á leið okkar til Stokkhólms. Port Blair => Chennai => Hyderabad => Mumbai => Zurich => Stokkhólmur.

Við komum svo hingað til Stokkhólms seinnipartinn á föstudaginn eftir 34 tíma ferðalag, sem var með því lengra, sem ég hef lagt í (á leiðinni svaf ég heila 3 tíma). Eftir heimkomuna höfum við notið Stokkhólms. Farið í CrossFit, borðað á Serrano og kíktum svo útá lífið með vinum í gær. Það er yndislegt að vera kominn aftur heim til þessarar frábæru borgar.

Frábært ferð og ég vona að þið hafið notið þess að lesa þessa ferðasögu. Ég mun á næstu dögum skrifa smá praktíska punkta um ferðalög til Indlands.

Skrifað á eyjunni Södermalm í Stokkhólmi klukkan 19.36

3 thoughts on “Indlandsferð 17: Ferðalok”

  1. Takk fyrir ferðasöguna! Las af áhuga alla pistlana, eins og venjulega 🙂 Ég kaupi svo ferðasögubók Einars þegar þú gefur hana út.

Comments are closed.