Indlandsferð eftirmáli 1: Praktískir hlutir

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Morgunbátsferð á Ganges í Varanasi

Hérna eru nokkrir hlutir, sem ég punktaði hjá mér í Indlandsferðinni og geta hugsanlega gagnast þeim, sem hafa áhuga á því að ferðast til Indlands.

Almennt um ferðalög á Indlandi

  • Maður getur ferðast nánast hvert sem er á Indlandi með lestum. Þær ferðast mun hraðar en rútur (þó ekki mjög hratt) og í þeim er þægilegt að ferðast. Ef valið stendur á milli rútu og lestar, þá er nánast alltaf best að velja lest.  Það er nánast ómögulegt að sofa í rútum þar sem lætin á indverskum vegum eru óbærileg allan sólarhringinn, vegna flutningabíla, sem keyra á 30km hraða og flauta allan tímann.
  • Allir túristar ferðast í loftkældu rýmunum. Þau hafa þá kosti að loftið er sæmilega stabílt, það er upphitað þegar það er of kalt á næturna og kælt á daginn. Langoftast ferðuðumst við með næturlestum í 3AC farrýminu (3 = 3 kojur). 2AC er aðeins betra (2 = 2 kojur) en munurinn skiptir ekki miklu máli. Í styttri daglestum er hægt að velja venjulegan AC class, þar sem maður er með sæti í staðinn fyrir koju.  Stór kostur við loftkælinguna er líka að þar eru lokaðir gluggar, sem þýðir að það kemur ekki jafn mikið hljóð frá lestarteinunum.  Ódýrari farrýmin eru með opnum gluggum og þar er fólki troðið í hundraðatali inní litla vagna.  Það er kannski hægt að þola það í styttri ferðum innan borga, en það er varla hægt að mæla með því fyrir ferðamenn, nema að þú ætlir að ferðast um Indland á 100 krónum á dag.  Þannig að ef þú ætlar að eiga sjens á því að sofa í lest þá ferðastu í loftkældum vagni.
  • Það er algjörlega nauðsynlegt að panta miða í lestar með fyrirvara. Það skiptir engu máli þótt að það sé low-season hvað varðar ferðamenn því að á nánast öllum leiðum eru Indverjar 90-99% farþeganna og þeir panta miða með löngum fyrirvara. Þetta þýðir smá skipulag, en ég myndi mæla með að panta miða í lestar helst viku fram í tímann og jafnvel lengra ef hægt er. Flest hótel panta miðar í lestar gegn vægu gjaldi (kannski 50-100 rúpíur). Ég mæli klárlega með að fólk nýti sér það. Það að bíða í miðasölu á indverskum lestastöðum er einfaldlega ömurlegt. Indverjar ryðjast í biðröðum og á lestarstöðvum taka þær ógurlegan tíma, auk þess sem að afgreiðslufólkið (jafnvel í ferðamannaröðunum) talar oft slæma ensku. Eina undantekningin á þessu er lestarstöðin í Delhi. Þar er verulega þægilegt að panta miða fyrir túrista.
  • Ansi mörg hótel bjóðast til að sækja þig á lestarstöðar.  Oft gegn smá gjaldi, sem er oftast lægra en það sem þú nærð að prútta þig niður á. Þetta tryggir það að þú kemst á réttan stað og þú kemst hjá því að prútta við indverska rickshaw bílstjóra um miðjan nótt. Sem er gott.

Hlutir, sem þarf að taka með

  • Nestisbox fyrir lengri lestarferðir – þú getur beðið veitingstaði um að útbúa mat fyrir lengri lestarferðir, en pakkningarnar þeirra eru alltaf drasl. Taktu með þér nestisbox, sem þú getur notað undir snyrtivörur eða eitthvað annað þegar það er ekki notað undir mat
  • Lítinn rafmagnsketil til að hita vatn. Við reynum að sjóða vatn og drekka það í stað þess að kaupa plastflöskur, sem eru viðbjóður og menga mikið – auk þess sem það þarf að keyra flöskuvatn langar leiðir.

    Ímyndaðu þér hvað þú drekkur mikið af plastflöskuvatni á svona ferðalögum. Örugglega 2 flöskur á dag eða meira. Á mánaðarferðalagi ertu því að kaupa þér 60 flöskur, sem eru kannski ekki endurunnar heldur enda í hafinu eða í einhverjum viðbjóðs ruslahaug útí vegkanti.  Nei, að sjóða sér vatn er klárlega málið. Þetta ætti fólk að gera í þeim löndum þar sem kranavatn er á mörkunum (þar sem innfæddir drekka það en túristar ekki) og líka á stöðum þar sem kranavatnið er slæmt (einsog á Indlandi).

    Þetta er frekar einfalt – þú hellir bara kranavatni í ketilinn, sýður vatnið í 2-10 mínútur og setur það á almennilega flösku (við vorum með Laken stálflöskur). Þegar að vatnið er orðið kalt þá bætirðu smá sítrónu eða límónu útí til að bæta bragðið. Þetta spara pening og bætir umhverfið. Ég nota líka ketilinn til að sjóða mér vatn fyrir Nescafé á hverjum morgni. Það sparar pening og kaffið sem maður kaupir á veitingastöðum er hvort eð er Nescafé (og þá mjöööög dauft blandað).

  • Vasahnífur og vasaljós. Nauðsynlegt á öllum bakpokaferðalögum.
  • Góð heyrnartól fyrir iPod-inn þinn, sem blokka út umhverfishljóð sæmilega vel. Já, og góða eyrnatappa og svefngrímu fyrir lestarferðir.
  • Það er ekki auðvelt að kaupa góðar snyrtivörur, góða sólarvörn eða dömubindi á Indlandi.  Taktu slíkt með.

Prútt og annað

Indverjar eru ein fátækasta þjóð heims.  Á Indlandi rekst maður á gríðarlegan fjölda fólks, sem getur ekki látið sig dreyma um þann lúxus sem við búum við í okkar samfélagi.  Stundum getur það verið erfitt að til dæmis ákveða hversu langt maður á að ganga í prútti við Indverja.

Mín grundvallarregla er að prútta nánast alltaf þegar ég veit að viðkomandi eru að gefa mér túristaverð.  Það er ágætt að spyrja til að mynda á hótelum hvað maður á að borga fyrir ferðir á milli staða innan borga.  Þá hefurðu indversku verðin og getur prúttað út frá því.  Oftast er maður að prútta við bílstjóra og þá fer það dálítið eftir hvert farartækið er hversu mikið maður prúttar.  Mjög oft ferðuðumst við til dæmis með hjóla-rickshaw.  Mennirnir sem keyra slík farartæki (eða draga þau í Kolkata) eru gríðarlega fátækir.  Það er auðveldlega hægt að prútta ferðir þeirra niður í 5-10 rúpíur, en þá verður maður að spyrja sig líka hvað maður eigi að fá útúr því.  Viltu virkilega að maður sé að hjóla með þig í gríðarlegri mengun fyrir 20 krónur fyrir klukkutíma ferð?

Auðvitað vill maður ekki að allir Indverjar sjái dollaramerki þegar þeir sjá útlendinga.  En það er oftast gott að prútta eitthvað smá, en nota aðeins skynsemina varðandi það hversu langt á að ganga.  Stundum er hægt að prútta langt niður, en gefa svo á eftir veglegt þjórfé.  Þá hefur maður allavegana prúttað og haldið heiðrinum, en maður er líka að hjálpa mönnum, sem eiga lítið annað en hjólið sem þeir eru á.

Ég mæli klárlega með því að fólk noti hjóla-rickshaw sem allra allra allra mest.  Þessi farartæki menga ekki neitt og með því að versla við þessa menn, þá er maður að hjálpa fólki sem á ekkert.

Kostnaður

Og hvað kostar þetta svo allt? 1 milljón, 2 milljónir, 5 milljónir?
Nei, svona ferðalag einsog við vorum á kostar mun minna en fólk heldur.

Mjög oft held ég þó að fólk sé verulega að ofmeta kostnaðinn við svona bakpokaferðalög til framandi staða og vanmeta kostnaðinn við sólarlandaferðirr til Spánar eða helgarferðir til London og Köben

Kostnaður við svona ferð má skipta í nokkra hluta

  1. Flugmiði á staðinn. Þetta er auðvitað mismunandi eftir því hvar fólk býr. Við vorum heppin að fá flugmiða frá Stokkhólmi til Mumbai fram og tilbaka fyrir 3.500 sænskar krónur – sirka 64.000 íslenskar
  2. Hótelkostnaður. Við gistum nánast allar nætur á mjög ódýrum hótelum. Ekki í lægsta klassa, en í svona lágum-mid-range klassa. Það þýðir að oftast borguðum við frá 600-1000 rúpíur fyrir hverja nótt. Hæst fórum við í 2000 rúpíur, en þá vorum við með sundlaug á hótelinu. Öll verð eru fyrir okkur tvö. Það er hægt að fara í mun ódýrari hótel – allt niður í nánast núll, en þá getur hreinlæti verið talsvert slæmt. Það ætti þó ekki að vera erfitt að finna fín hótel á í kringum 400-600 rúpíur fyrir tvo í flestum borgum Indlands, sem eru mjög fín og með loftkælingu í þeim borgum þar sem það þarf.
  3. Matur er kannski stærsti kostnaðarliðurinn, en það er mjög erfitt að dæma hver meðalkostnaðurinn er þar. Við borðum stundum 2 máltíðir á dag og stundum 3.Morgunmatur kostar oftast um 100-150 rúpíur á mann fyrir brauð, egg og safa (ég laga mitt eigið kaffi). Hádegistmatur kostar kannski 200 rúpíur og góður kvöldmatur með nóg af kjöti getur kostað kannski upp í 2-400 rúpíur. EF þú hins vegar sleppir því að borða kjöt þá geturðu klárlega lækkað þennan kostnað umtalsvert. Ef þú borðar bara grænmetisfæði og getur hugsað þér að borða hrísgrjón og chapati (brauð) og dal (baunir) þá geturðu auðveldlega komist af með undir 100 rúpíur fyrir hverja máltíð.

    Ef þú ert tilbúinn að fara í götumat getur verðið farið enn lægra. Í Kolkata borðuðum við nokkrum sinnum á götumatsstað hjá hótelinu og borguðum milli 20-40 rúpíur á manninn.  Til að fá prótein með matnum án þess að það kostaði of mikið þá keypti ég mér oft omelettu með réttinum, sem ég keypti.  Egg er sennilega ódýrasti prótein gjafinn á indverskum veitingastöðum. Kjötskammtar í karríréttum eru oftast mjög litlir.

  4. Ferðalög á milli staða. Oftast eru það lestar á milli staða. Næturlest á góðu farrými á milli tveggja borga, sem eru í talsverði fjarlægð (3-500 km) getur kostað uppí 1.100 rúpíur á manninn. Verðið lækkar eftir því sem vegalengdin styttist og rútur eru enn ódýrari.

    Innan borga tókum við mest hjóla-rickshaw eða mótor-rickshaw. Sá kostnaður ætti ekki að fara yfir 1-300 rúpíur á dag – fyrir 300 þá ertu næstum því komin með einkabílstjóra allan daginn.

  5. Aðgangur að túristastöðum. Við ferðumst allt sjálfstætt og erum því ekki að borga pening fyrir gæda eða slíkt (nema þegar við fengum okkur gæd inní einhverjum höllum. Stundum leigðum við okkur þó rickshaw fyrir allan daginn til að taka okkur á milli staða. Nánast alls staðar þurfa útlendingar að borga mun hærra aðgöngugjald en Indverjar. Algengt verð inní virki og slíkt er 200-300 á mann (Taj Mahal var dýrasti miðinn á 750).

Þegar þetta er tekið saman, þá er ekki galið að ætla að hefðbundinn dagur sé svona (á einstakling) á nokkuð þægilegu ferðalagi með góðum mat, þar sem ferðast er sæmilega hratt á milli staða.

Hótel: 350
Matur: 250
Ferðalög (lest á 2-3 daga fresti + rickshaw): 300
Aðgöngumiðar: 100
= 1.000 rúpíur á dag.
= 2.500 íslenskar krónur á dag

Fyrir einn mánuð þýðir það 75.000 krónur plús flugfar fyrir svona ferð og fyrir tveggja mánaða ferð erum við að tala um 150.000 + flugfar á mann. Ef fólk ber það saman við sólarlandaferðir til Spánar með öllum kostnaði eða verslunarferð til London, þá held ég að menn séu fljótir að komast uppí sömu upphæðir.

Auðvitað hafa ekki allir efni á þessu. En ég hef reynt að benda sem flestum á að ef fólk ferðast sjálfstætt, er tilbúið að búa á hótelum, sem teljast ekki lúxus og borða mat á venjulegum veitingastöðum, þá geta menn ferðast til mest framandi landa í heiminum fyrir minni pening en þeir myndu eyða á Benidorm. Allt sem þarf er góð ferðahandbók, smá sjálfstraust og vilja til að sjá heiminn. Ég get lofað fólki að það á eftir að fá mun meira útúr svona ferð en sólaralandaferð til Spánar.

Mæli ég með ferðalagi til Indlands?

Það verður að tækla í tveim hlutum.

  1. Ef þú hefur aldrei ferðast utan Evrópu, Bandaríkjanna eða annarra ríkra landa. Þá, nei. Indland er geðveiki og landið getur svo auðveldlega orðið fullkomlega yfirþyrmandi að óvanir ferðamenn eiga ekki eftir að geta höndlað það. Umferðin, mengunin og fátæktin er svo svakaleg að jafnvel nokkuð vanir ferðamenn einsog ég eiga stundum erfitt með að höndla það. Þannig að byrjaðu á einhverju auðveldara. Sjáðu Suð-Austur Asíu eða Suður-Ameríku. Svo Indland.
  2. Ef þú hefur ferðast utan ríku landanna og ert sæmilega vanur ferðamaður. ÞÁ JÁ! Eftir hverju ertu að bíða?  Indland er stórkostlegt. Frá Taj Mahal til Gullna Hofsins. Fólkið er yndislegt og maturinn (allavegana þangað til að þú færð í magann) er stórkostlegur. Fá lönd bjóða uppá annað eins magn af merkilegu fólki og merkilegum túristastöðum.

Indland er oft erfitt, en allir þessu stórkostlegu staðir bæta upp fyrir það svo um munar. Plús að eftir að maður kemur heim, þá man maður eftir Taj Mahal, en ekki endilega erfiðu lestarferðinni til að komast á staðinn.

Það er mjög ódýrt að ferðast á Indlandi og lestarnar gera ferðalögin þægileg. Þetta land verður fjölmennasta land heims eftir nokkur ár og ég leyfi mér að fullyrða að maður hefur ekki séð heiminn fyrr en maður hefur komið til Indlands.

Góða ferð!

7 thoughts on “Indlandsferð eftirmáli 1: Praktískir hlutir”

  1. Frábær samantekt – er mjög sammála um margt sem þú segir. Ég hef annars persónulega mjög góða reynslu af lestarvögnunum sem eru ekki loftkældir. En ég get líka sofið hvar sem er og í hvaða hávaða sem er… þannig að það er kannski ekki að marka mig 🙂

  2. hahaha… þó það væri lúðrasveit í svefnherberginu mínu þá myndi ég samt sem áður sofa sem fastast!

  3. Sæll Einar.

    Ég hef aldrei skrifað á þessari síðu en kíki stundum við til að lesa ferðasögurnar þínar sem mér finnst merkilega vel skrifaðar.

    Þetta er frábær samantekt á Indlandsferð fyrir ferðasjúklinga. En mætti ég spyrja þig hvort að ferðalög um suður Asíu eða suður Ameríku eru dýrari/ódýrari en ferðalög til Indlands. Erum við þá að tala um 100% dýrari eða 20%. Mig minnir nefnilega að þú hafir ferðast á báða þessa staði eftir að hafa njósnað um ferðasögurnar þínar 🙂

    B.kv

    En

  4. Sæll Einar

    Hef lesið mikið af því sem þú skrifar án þess að bæta miklu við – verð þó að leggja til við þá sem nýta sér þessi ráð þín að nota mestu snilldarleið í heimi til að panta lestarmiða, http://www.irctc.co.in, sem er síða þar sem hægt er að panta online alla lestarmiða (Það þarf að skrá sig en það er ekkert stórmál) og það eina sem þarf að gera eftir að um borð er komið er að veifa vegabréfinu sínu framan í lestarvörðinn.

    Þetta rúllar upp allri bið í biðröðum og óvissu á hótelum, afgreiðslan er instant. Ef maður lendir á biðlista getur maður svo fylgst með gangi mála á indianrail heimasíðunni, en ágætt er að hafa smá skilning á reserved/waitlisted kerfinu (Sjá hér: http://www.indiamike.com/india-articles/indian-railways-rac-and-indian-railways-waitlists/)

    Þetta svínvirkar sérstaklega fyrir þá sem vilja vera öruggir í fyrstu 1-2 lestarferðunum eftir að lent er.

  5. Takk, Loftur. Ég get ómögulega borið saman ferðalög til Suður-Ameríku og Indlands, þar sem það er svo langt síðan ég var í S-Ameríku. En á Lonelyplanet spjallborðinu er væntanlega fullt af fólki, sem getur svarað þessu.

    Og J, góð ábending. Ég notaði líka Cleartrip til þess að leita að lausum sætum (http://www.cleartrip.com/) en svo lét ég oftast hótelin sjá um að panta.

Comments are closed.