Indónesíuferð 2: Java

Síðustu dagar hafa einkennst af miklum og löngum rútuferðum, þar sem sú síðasta myndi sóma sér með verstu Mið-Ameríku-rútuferðunum. Á nokkrum dögum höfum við farið landleiðina yfir næstum því alla Jövu. Ef maður dæmir eingöngu af stærð eyjunnar þá er það ekki mikið afrek – frá Jakarta til Ubud á Bali eru ekki nema um 1.000 kílómetrar. En vegalengdir segja ekki alla söguna.

Ég skrifaði síðast frá Yogyakarta, sem er á miðri Jövu. Þangað vorum við nýkomin frá Jakarta þegar ég bloggaði síðast. Fyrsta daginn tókum við því frekar rólega, löbbuðum aðeins um miðbæ Yogyakarta, skoðuðum markaði og létum áreita okkur af götusölum. Við kíktum svo aðeins á hallir, sem voru byggðir af súltánum sem að réðu þessum hluta Jövu í kringum árið 1800. Um kvöldið fengum við svo smá forsmekk af umferðarmenningu Jövu þegar við tókum stutta rútuferð frá Yogyakarta til Borobudur, smábæjar sem tekur nafn sitt af mögnuðum rústum búddahofs í nágrenninu. Þar gistum við á ótrúlega vel staðsettu hóteli sem er örstutt frá hofinu. Við gátum því það kvöld borðað kvöldmat með hofið í bakgrunni.

Borobodur er risavaxið búdda minnismerki, sem var byggt um 800 þegar að búddismi var enn aðaltrúarbrögðin á jövu (núna er það íslam). Vegna staðsetningar getur hótelið sem við vorum á boðið uppá að hleypa fólki að minnismerkinu um 4 leytið um morgun til að sjá þar sólarupprás. Við Margrét vorum því mætt á efstu hæð Borobudur rétt fyrir klukkan 5 og sáum þar sólarupprásina. Líkt og í Angkor Wat hérna um árið var þó þessi sólarupprás í skýjuðu veðri og áhrifin ekki þau sömu. Líkt og Angkor Wat er Borobudur magnaður staður. Minnismerkið samanstendur af 9 hæðum, sem geyma annaðhvort höggmyndir af fæðingu Búdda og fleiri atburðum, eða bjöllulaga styttur, sem innihalda litlar búdda styttur. Myndir lýsa þessu talsvert betur, en þetta er magnaður staður.

Frá Borobudur tókum við svo bíl til Prambanan, sem er samansafn af gríðarlega fallegum Hindúa-hofum, sem voru byggð á svipuðum tíma og Borobudur. Þessi Hindúa-hof hafa verið sett saman úr algjörum rústum, sem svo urðu fyrir miklum skemmdum í jarðskjálftanum á Jövu árið 2006. Í dag eru merki um skjálftan enn greinileg og enn unnið að endurbyggingu hofanna. Þau eru þó ótrúlega falleg og tignarleg. Við fórum með guide um svæðið og hann sýndi okkur flest hofin og útskýrðu fyrir okkur ólíka þýðingu þeirra. Að því loknu fórum við svo aftur til Yogyakarta.

* * *

Daginn eftir tókum við svo rútu til Probolinggo. Á þeirri löngu leið fengum við að kynnast “þjóðvega”-menningunni á Jövu. Beisiklí þá virðast engir almennilegir þjóðvegir eða hraðbrautir vera til staðar á Jövu. Allar þær leiðir sem við keyrðum voru á vegum þar sem aðeins voru tvær akreinar og nánast allar leiðir virtust liggja í gegnum bæji. Miðað við hið ótrúlega magn af fólki sem býr á Jövu þá er nánast með ólíkindum að ekki skuli vera til stærri vegir. Allan tímann sem við keyrðum voru á veginum gríðarlegt magn af gömlum vörubílum, sem flytja vörur á milli bæja á 50 kílómetra hraða. Í stöðugri baráttu við þá eru svo venjulegir bílar og rútur, sem að keppast við að taka framúr sem flestum vörubílum á sem skemmstum tíma. Á leiðinni til Probolinggo vorum við í míní-rútu, sem var keyrð af manni, sem virtist ekki hræðast það hið minnsta að vera á öfugri akrein á 100 kílómetra hraða með vörubíl sér við hlið og annan á leiðinni á móti sér. Tvisvar eða þrisvar þurftum við að biðja bílstjórann um að slaka á, svo að við kæmumst á leiðarenda á lífi.

Við vorum komin tin Probolinggo eftir sólsetur og þaðan tókum við svo aðra míní-rútu uppá fjöll og enduðum í Cemoro Lawang, litlu þorpi í mikilli hæð. Þegar við komum á leiðarenda (eftir svakalega rútuferð á örmjóum vegum í miðju fjalli) þá var hitinn úti kominn niður í 5-6 gráður, sem á Indónesískan mælikvarða er einsog 30 stiga frost. Við fengum herbergi á Cemoro Indah, verulega skrautlegu hótelio, sem að Margrét gaf fljótlega titilinn ógeðslegasti staður í heimi.

Í annað skipti á þremur dögum vorum við svo vöknuð klukkan 4 um morgun, fórum uppí 40 ára gamlan Toyota LandCruiser, sem keyrði okkur í niðamyrkri uppá útsýnispunkt. Þar horfðum við svo á ótrúlega magnaða sólarupprás yfir austur-hluta Jövu og þá sérstaklega Gunung Bromo eldfjallinu, sem er partur af fjallagarði þar. Eftir frábæran klukkutíma þar uppi (þar sem við leigðum okkur bæði þykkar úlpur til að lifa kuldann af), þá keyrði jeppinn okkur uppað sjálfu fjallinu, þar sem við gátum labbað uppá það og skoðað oní gíginn.

Frá Bromo byrjuðum við svo ferð okkar hingað til Bali, þar sem við sitjum núna inná netkaffihúsi í Ubud. Tíminn er búinn og ég á enn eftir að panta hótel og flugfar á netinu, þannig að ég læt þetta duga í bili.

*Skrifað í Ubud á eyjunni Bali í Indónesíu klukkan 17.50*

One thought on “Indónesíuferð 2: Java”

Comments are closed.