Jæja, hvað á ég *svo* að gera?

Þetta er skrítin helgi.

Í fyrsta skipti í margar, margar vikur er nákvæmlega ekkert skipulagt hjá mér yfir heila helgi. Ég þarf svo sem ekkert að vinna, vinir eru flestir að gera eitthvað annað og því varð það úr að ég hafði nákvæmlega ekkert planað þessa helgi.

Því eyddi ég gærkvöldinu hérna heima, horfandi á sjónvarpið. Horfði meðal annars á nýja kvöldþáttinn á Sirkus, sem er sæmilegur. Ég vil ekki vera neikvæðari nema eftir nokkra þætti. Það væri fáránlegt að dæma þáttinn algjörlega út frá fyrstu tilraun. Þetta getur alveg orðið gott.


Í morgun saf ég svo út en dreif mig síðan inní World Class. Kannski er það vonda veðrið, en World Class var fullt af sætum stelpum á réttum aldri. Ég, sem er þarna alltaf í hádeginu, er ekki vanur slíku. Allavegana, lyfti og hljóp svo 7 kílómetra. Eldri systir mín hljóp maraþon hlaup um daginn og við þær fréttir fannst mér að ég þyrfti að fara að hlaupa meira, svo þetta er skref í áttina.

Fór svo uppá Serrano og hélt áfram að prófa mig áfram með nýja rétti á staðnum. Það er allt að koma.


Og þá er ég búinn. Búinn að fara í líkamsrækt og uppá Serrano, þannig að samviskubitið getur ekki mögulega nagað mig þessa helgi. Því hef ég næstu 36 tímana gjörsamlega óplanaða. Það er eiginlega alveg skuggalegt að hugsa til þess. Veðrið er ömurlegt, þannig að ég fer ekki út. Horfi auðvitað á [baráttuna um Chi-town klukkan átta](http://chicago.cubs.mlb.com/NASApp/mlb/news/article.jsp?ymd=20050624&content_id=1102522&vkey=news_chc&fext=.jsp&c_id=chc) en veit ekki um annað. Ætli ég kveiki ekki bara á Xbox tölvunni minni í fyrsta skipti í tvo mánuði.

Eða kannski ætti ég að gera eitthvað aðeins menningarlegra. Ég veit ekki. Það er alltof erfitt að eiga svona mikinn lausan tíma.

2 thoughts on “Jæja, hvað á ég *svo* að gera?”

 1. About A Boy.

  Þú átt ekki að hugsa um þetta sem 36 tíma. Þú átt að skipta tímanum niður í “einingar.” Til dæmis:

  bað – hálf eining (30 mín)
  Xbox – ein og hálf eining (90 mín)
  kvöldmatur – ein eining (60 mín)
  Strauja :tongue: – hálf eining (30 mín)

  Þarna eru strax komnir 3 og 1/2 klukkutímar í fjóra skemmtilega hluti. Þannig að ef þú skipuleggur þetta eftir einingum, gætirðu á endanum gert margt smátt sem er hvert um sig rosa skemmtilegt yfir þessa helgi.

  Svo gætirðu líka bara gert eins og ég, og soooooofið (sef aldrei nema á sunnudögum, og þá eru 14klst lágmarkið) …

 2. Jamm, skemmtileg nálgun. Var alveg búinn að gleyma þessu snilldaratriði úr About a Boy. Í raun ætti maður algjörlega að lifa eftir þessu 🙂

Comments are closed.