Jól

Þorláksmessa og ég er búinn að redda öllu jólastússinu.  Sit fyrir framan sjónvarpið, hálf afslappaður og horfi á Barca-Real Madrid.  Eini gallinn við þetta ástand er að ég sé ekki almennilegan mun á því að horfa á Real Madrid-Barcelona á Sýn og að horfa á myndbönd á Youtube.  Gæðin eru einfaldlega of lík.

Jólastússið hjá mér er reyndar afskaplega einfalt.  Ég eyði nokkuð miklum tíma í að skrifa jólakort og svo kaupi ég jólagjafir.  Þetta árið gef ég einhvejrar 50 jólagjafir, yfirgnæfandi meirihluti þeirra er til starfsmanna Serrano, en svo eru nokkrar til fjölskyldumeðlima.  Þar sem ég þarf hvorki að skreyta né baka (takk, mamma!) þá er jólaundirbúningurinn ekki flóknari en svo.

* * *

Er búinn að kíkja í bæinn bæði í gær og í fyrrakvöld.  Á Vegamót og Ólíver á föstudaginn og svo á B5 í gær.  Það var yndislegt að vakna báða dagana án hausverks, þar sem ég var afskaplega rólegur í því að drekka. Sem var mjög ólíkt því sem var í gangi um síðustu helgi.  Þá var ég í afmæli hjá Jensa vini mínum og  í bænum á föstudagskvöld og svo var ég með partí á laugardagskvöldið, sem endaði með ansi langri viðveru á skemmtistöðum bæjarins.

* * *

Vann í afgreiðslunni á Serrano á fimmtudaginn, sem var hressandi.  Hef alltaf þurft að vinna af illri nauðsyn á Serrano síðustu 5 jól, en núna var ástandið svo gott á staðnum að ég vann bara vegna þess að ég bauðst til þess.  Það kom mér eiginlega í ágætis jólaskap að standa þarna og afgreiða burritos í nokkra klukkutíma.

Á morgun keyrum við Emil svo saman út einhverja jólapakka, svo fer ég í kirkjugarðinn með fjölskyldunni og eyði svo kvöldinu heima hjá eldri systur minn.  Þrátt fyrir að ég komist kannski ekki í jólaskap fyrr en á aðfangadag, þá elska ég samt jólin þegar þau loksins koma.

En allavegana segi ég bara Gleðileg Jól, vona að allir sem lesa þessa síðu hafi það gott um jólin.  🙂

3 thoughts on “Jól”

  1. Gleðileg jól og farsælt komandi ár. Takk fyrir allt gamalt og gott!
    kv., Sandra og Genni

Comments are closed.