Kosningar, djamm og hettuklætt fólk

Ég verð að játa það að ég er ennþá svekktur yfir úrslitum kosninganna. Hef bara svo lítið álit á Sjálfstæðismönnum að ég efast stórlega um að þeir geri margt til að gera Reykjavík að skemmtilegri eða meira spennandi borg. Flestir, sem kusu xD búa í Grafarvoginum og eru eflaust sáttir við þá borgarmynd, sem þar er. Spurning hvort það sé einhvern tímann hægt að sætta viðhorf þeirra, sem búa í einbýli í úthverfum og okkar hinna, sem búum nær miðbænum. Kannski að við séum bara í minnihluta, sem viljum sjá þéttari og meira spennandi borg.

En kannski er ég bara of svartsýnn. Vona bara að þeir semji við VG, en ekki hina flokkana.

Fór með kærustunni á mótmælin á Austurvelli gegn virkjanastarfseminni. Skrifaði undir mótmælaskjal þar, þrátt fyrir að ég viti ekki nákvæmlega hverju það á að skila. Framsóknarflokkurinn er að þurrkast út, en samt mun sennilega enginn fatta að það gæti verið stóriðjustefnunni að kenna.

Var svo í grilli og horfði á kosningavökuna fram til 12. Fór í þetta umtalaða Kristalla partí, sem menn voru að keppast við [að](http://www.badabing.is/2006/05/kristall_til_soelu.html) [dissa](http://www.this.is/drgunni/gerast.html). Þegar við komum niður í Iðu sáum við að biðröðin var löng og engin hreyfing á henni. Þegar að einhver stelpa kom í röðina fyrir aftan mig og hrópaði yfir hópinn: “hvað er málið með þessa dyraverði, fatta þeir ekki að sumir fengu kristal, en aðrir ekki”, þá ákvaðum við að þetta væri ekki beint sá staður, sem við vildum vera á. Löbbuðum upp Laugaveginn og inná nokkra staði, en alls staðar var troðið. Löbbuðum því aftur niðrí bæ þar sem biðröðin hafði alltí einu horfin og því kíktum við inn. Drukkum nokkra vodka+orkudrykki í boði Kók (takk!). Horfðum á einhver bönd á efri hæðinni, þar á meðal [dr.mister & mr. handsome](http://profile.myspace.com/index.cfm?fuseaction=user.viewprofile&friendid=41026415), sem mér fannst fínt band. Enduðum svo ásamt fleira fólki á Vegamótum.

* * *

Fyrir þetta djamm hafði ég ekki farið á skemmtistaðadjamm í margar vikur. Var reyndar í steggjapartýi í síðustu viku, en það telst varla með. Var alveg óheyrilega slappur og þunnur í gær og held að ég sé ennþá að jafna mig.

* * *

Annars vil ég lýsa frati á þessa ríkisstjórn. Á meðan að það er ennþá fólk, sem þarf að safna saman dósum á götunni á meðan aðrir djamma, þá er eitthvað mikið að í þessu velferðarkerfi okkar. Við erum að breytast í fokking Bandaríkin. Fyrirsögnin á DV um að 10 ríkustu einstaklingarnir eigi 712 milljarða (þeir gætu tekið sig saman um að gefa hverjum einasta Íslending 2,3 milljónir) en samt er hettuklætt fólk að safna saman dósum á götunni. Ömurlegt ástand. Af hverju er aldrei skrifað um þetta fólk?

8 thoughts on “Kosningar, djamm og hettuklætt fólk”

 1. Það gerir þetta ekki allt í lagi. Það er greinilegt að fólkið skammast sín fyrir þessa iðju, annars væri það ekki í hettupeysum, með reimað fyrir andlitið. Það segir mér allavegana að fólk gerir þetta útaf neyð.

  Annars afsakar þetta ekki málið. Það er einsog að segja að það verði alltaf betlarar á meðan að fólk sé tilbúið að láta peninga af hendi. Vandamálið er ástand fólksins, en ekki skilagjaldið.

  Annars var ég alvarlega að benda þeirri manneskju, sem ég sá, á að koma heim til mín – því ég á helling af dósum útá svölum, sem ég er of latur til að fara með útá Sorpu.

 2. Ég fer með allar dósir og flöskur út í port reglulega, flokkað frá öðru rusli svo dósasafnari hverfisins þurfi ekki að kafa oní ruslatunnuna mína.

  Karlinn sem hirðir þetta oftast er gamall gaur sem segist vera að
  safna fé fyrir fatlaðan ungling. Ég kýs að véfengja ekki söguna
  hans.

 3. Ég hef alltaf séð þennan hóp sem samansafn af pensionistum og nýbúum. Hvort tveggja hópar fólks sem hefur oft á tíðum meiri sjálfsbjargarviðleitni en meðaljóninn.

  Mér finnst það hið besta mál að fólk sé að safna þessum “verðmætum” og efast ekki um að það getur haft ágætlega upp úr því. Það sem mér finnst óeðlilegra er að fólk skuli þurfast að skammast sín fyrir það. Fyrir mér væri það óeðlilegra að enginn nýtti þetta og verðmætin færu til spillis. Ég sé ekki að þetta sé á neinn hátt meira “niðurlægjandi” en að bera út Moggann á ókristilum tímum í hvaða veðri sem er, nú eða að vinna hjá Sorpu eða Hreinsunardeildinni.

  Þú ættir að vita betur, Einar hagfræðingur, og hana nú!! :biggrin2:

 4. Í gamla Íslandi í dag þegar Jón Ársæll var enn á svæðinu talaði hann nú við þetta hettuklædda fólk og það hafði það nú bara mjög gott.

  Flestir af þeim voru bara að drýgja tekjurnar, kölluðu þetta góða hreyfingu og ég veit ekki hvað og hvað.

  Það eru verðmæti í þessu og sumum finnst það bara minnsta mál að eltast við þau á meðan við hin hendum þessu frá okkur eða bíðum spennt eftir hverfisfélaginu að taka þetta drasl frá okkur.

 5. Einhvern veginn finnst mér þetta minna mig á sögurnar um hamingjusömu hórurnar. Að allt þetta fólk sé bara í heilsubótargöngu og noti þetta til að drýgja tekjurnar örlítið.

  Ég hefði haldið að hvatinn yrði að vera aðeins meiri til þess að fólk byrji að grafa í ruslafötum um miðjar nætur.

 6. Til eru fleiri hvatar en bara fátækt, ég held það sé það sem við erum að segja. Ég held þetta fólk hverfi ekki þó fátækt á Íslandi verði “útrýmd”.

  Það er ekki þar með sagt að mér sé sama um þetta fólk og
  sannfærður um að það hafi það ógeðslega gott. Enda læt ég það
  fá flöskurnar mínar og dósir eins og kom fram hér að ofan
  (frekar en að fara með í vinnuna og setja í safnið þar eða gefa
  unglingunum sem koma sníkjandi af og til) og ég set tómar dósir
  og flöskur viljandi ekki oní tunnu svo fólk þurfi ekki að kafa eftir
  því.

  En ég glotti samt við þegar ég sá dósasöfnunarmanneskju taka
  upp gemsann og hringja fyrir allmörgum árum, áður en gemsar
  voru bókstaflega allsstaðar.

 7. Og pointið hjá mér var aðallega að það er frekar sorglegt ef litið er niður á þessa yðju í samfélaginu, heldur en að hún sé stunduð.

  Það er heldur ekki einsog fólkið sé grafandi á ruslahaugunum eftir hvers kyns verðmætum eða jafnvel búi þar, líkt og milljónir manna um heiminn gera.

  Það að einhver sjái hag sinn í því að safna verðmætunum sem fulla góðærisliðið hendir frá sér er bara heilbrigt og sýnir virðingarverða sjálfsbjargarviðleitni. Fyrir utan að það er umhverfisvænt! Ef fólkið þarf að skammast sín fyrir það sýnir hinsvegar að eitthvað er að.

  Og eitthvað segir mér að ruslaföturnar niður í bæ séu aðallega fullar af flöskum og dósum á þeim tíma vikunnar sem þú varst að láta þetta fara fyrir brjóstið á þér.

Comments are closed.