Landakort

Í gesta/tölvu/lærdóms herberginu okkar hérna á Götgötunni er ég búinn að hengja upp heimskort og byrjaður að setja pinna fyrir þá staði, sem ég hef komið á (bláir pinnar fyrir mig, rauðir fyrir Margréti).

Ég hef lengi ætlað að framkvæma þessa hugmynd. Ég man alltaf eftir atriði úr The Mask (þessari frá 1985) þar sem að aðalkarakterinn hafði merkt inná Bandaríkjakort þá staði sem honum langaði til að heimsækja. Fyrir nokkrum árum fékk ég þá flugu í höfuðið að ég yrði að setja upp svona kort með þeim stöðum, sem ég hef komið á.

Þannig að ein af fáum kröfum mínum varðandi innréttingar hérna í íbúðinni var sú að setja í eitt herbergið upp svona kort. Ég pantaði það fyrir einhverjum vikum frá Bandaríkjunum og lét setja það á mjúkan bakgrunn hérna í Stokkhólmi og núna er það loksins komið upp.

Kortið er risastórt (sennilega um tveir metrar á lengd) og það er magnað að sjá hversu gríðarlega stóran hluta heimsins maður hefur aldrei komið nálægt. Ég hef heimsótt mjög stóran hluta Ameríku (flestallt merkilegt í Bandaríkjunum og alveg niður til Buenos Aires í Argentínu – en þó lítið fyrir sunnan og norðan þá staði). Og svo hef ég heimsótt stóran hluta Evrópu. En utan þess hef ég ekkert komið til Afríku, langstærsta hluta Asíu, Eyjaálfu og allra litlu eyjanna í Kyrrahafi. Það er nóg eftir að sjá.

7 thoughts on “Landakort”

 1. Ég sá myndina og ætlaði að kommenta í þeim eina tilgangi að spyrja hvort Margrét hefði ekkert ferðast á Íslandi. Gott að sjá að hún svaraði þeirri spurningu strax.

  Það verður samt að viðurkennast að Ísland er frekar fátæklegt hjá ykkur … (hey, ég er að reyna að finna yfirburði mína einhvers staðar) 🙂

 2. Ég hef einmitt líka verið með þessa hugmynd í maganum í einhvern tíma en kom mér aldrei í að gera þetta (auk þess sem mitt kort væri talsvert fátæklegra en þitt!). Hver er annars kríterían hjá ykkur? Sjálfur ætlaði ég að miða við staði sem ég hefði gist eina eða fleiri nætur á…

 3. Þetta finnst mér verulega skemmtileg hugmynd. Svo skemmtileg reyndar að ég ætla að stela henni án nokkurs samviskubits.

  Takk fyrir mig.

 4. Kristján, þetta eru einu staðirnir á Íslandi sem eru á þessu heimskorti. Rvík, Akureyri, Ísafjörður og Seyðisfjörður. Ég hef komið á þá alla.

  Almenna reglan í þessu, Aggi, var að ég set pinna á þá staði sem eru merktir á kortinu. Kortið er heimskort og því eru þar bara stærri borgir og allra stærstu túristastaðir (Grand Canyon, Angkor, os.frv.). Aðalreglan hjá var bara að ég verð að hafa gert eitthvað í borginni. Ég hef t.d. keyrt í gegnum Nashville, en merkti hana ekki inná þar sem ég hef ekkert gert þar.

  Ég hef þó t.d. komið til Seyðisfjarðar og séð flest það sem hægt er að sjá – en ekki gist þar. Sama má segja t.d. um Uppsala, sem ég hef komið til en ekki gist.

  Og Tobbi, þér er velkomið að stela hugmyndinni.

 5. Já, ekkert mál. Þetta keypti ég hjá randmcnally.com.

  Þetta kort heitir Michelin Wall Map 905: World Political (laminated). Kostaði 20 dollara.

  Svo lét ég setja það á bakgrunn hérna í Stokkhólmi.

Comments are closed.