Lost og fleira

Fyrir þá, sem eru einsog ég og ná sér í nýjasta Lost þáttinn nokkrum klukkutímum eftir að hann er sýndur í Bandaríkjunum, þá er hérna [afar athyglisverð kenning um það hvernig að þættirnir fjalli í raun um tímaferðalög](http://timelooptheory.com/the_timeline.htm) (nota bene, ef þú ert ekki kominn að nýjasta þættinum þá mun þessi síða rústa öllu fyrir þér). Síðasti þáttur um Desmond ýtir stoðum undir þessa kenningu. Ég er búinn að lesa þetta síðasta klukkutímann og þetta er skemmtilegt lesefni fyrir Lost nörda á sunnudagsmorgni. (via [Fimoculous](http://www.fimoculous.com/))

* * *

Af hverju er ég vakandi og hress svona snemma á sunnudegi? Jú, ég fór heim af djamminu í gær klukkan tvö sérstaklega til að hafa orku til þess að fara á skíði í dag. En svo er bara brjálað hvassviðri í Bláfjöllum og því planið fyrir daginn farið útum gluggann. En fótboltagláp er svo sem ekki slæmur kostur.

Ég var á [málþingi hjá UJ](http://ujr.is/2008/03/01/94/) í gær sem var bæði virkilega fjölmennt og mjög skemmtilegt. Ég fylgdist með umræðum um ESB mál, en einnig voru innflytjendamál rædd í annarri málstofu. Fyrirlestrarnir um ESB voru góðir og sérstaklega flutti Aðalsteinn Leifsson, lektor í HR, frábært erindi um hið stóra hlutverk ESB.

Við Íslendingar gleymum því nefnilega oft að ESB snýst hvorki um sjávarútvegsmál né okkar eigið rassgat, heldur að skapa og útbreiða pólitískan stöðugleika, sem var í raun nánast óhugsandi fyrir 60 árum. Jón Þór Sturluson og Ágúst Ólafur komu svo inná aðeins praktískari málefni í sínum erindum um evruna og lýðræði innan ESB. Þessi fundur var ekki til að minnka sannfæringu mína um að það er hreinasta glapræði fyrir okkur Íslendinga að taka ekki upp aðildarviðræður við ESB strax.

Einnig kom Aðalsteinn og spyrjendur útí sal ágætlega inná það sem ég held að sé helsta ástæða fyrir því að fólk er á móti ESB. Ég tel sjálfur að fyrir því séu nokkrar ástæður. Fyrst er það að forystumenn Sjálfstæðisflokksins hafa verið á móti aðild. Um leið og þeir skipta um skoðun, þá held ég að flokkurinn muni breytast í allsherjar ESB flokk. Ég tel nefnilega að í Sjálfstæðisflokknum sé tiltölulega lítill hópur, sem er virkilega á móti aðild og hefur sá hópur sig afskaplega mikið í frammi. Svo held ég að meginþorrinn sé fólk einsog þeir Sjálfstæðismenn sem eru í kringum mig. Fólk, sem sér voðalega lítið mæla gegn aðild, en fylgir oftast flokkslínunni vegna þess að það treystir forystumönnum flokksins. Ég tel að ef að forystumenn íhaldsins byrjuðu að tala vel um ESB, þá myndi flokkurinn fljótt breytast. Og þá munu Moggabloggararnir sem froðufella yfir landráðamönnum einsog mér vakna upp sem lítill minnihlutahópur í stórum ESB flokki.

Önnur ástæðan, sem má varla tala um, er að mínu mati þjóðremba. Við teljum okkur vera betri en önnur lönd. Við teljum (einsog ég hef heyrt marga Sjálfstæðismenn halda fram) að við sem framleiðum örsmátt brot úr prósenti af öllum gæðum heimins getum einhvern veginn náð betri viðskiptasamningum við lönd utan ESB en ESB sjálft. Við teljum okkar kerfi vera betra, að við höfum náð einhvers konar fullkomnu ástandi með EES samningnum. Við teljum að íslenskir ostar séu þeir bestu og að íslensk kjúklingabú séu á einhvern hátt betri en dönsk og að ESB aðild muni á einhvern hátt leggja allt íslenskt í rúst. Og við viljum enga Spánverja veiðandi fiskinn okkar, þrátt fyrir að við stöndum sjálf í því að ryksuga miðin útaf ströndum Afríku.

Ég upplifi mig hins vegar að stóru leyti sem Evrópubúa. Ég held að dvöl mín í Bandaríkjunum hafi gert það að verkum. Eins mikið og ég elska Bandaríkin og Bandaríkjamenn, þá tel ég einfaldlega að þær hugsanir og gildi sem ríki í Evrópu séu svo miklu nær mínum eigin. Og mig langar að vera hluti af einhverju stærra. Mér finnst frábært að vera Íslendingur og það mun aldrei breytast. En mig langar líka að vera hluti af einhverju stærra. Einsog Aðalsteinn sagði, að geta fundið til meiri samkenndar við aðra Evrópubúa. Að ég eigi smá hluta í Alpafjöllunum og ströndunum á Spáni. Við erum Evrópubúar og við ættum að mínu mati að vinna eins náið með öðrum Evrópubúum og við getum. Besta leiðin til þess er að ganga í Evrópusambandið.

* * *

Eftir þingið fór ég svo í partí á 7-9-13 þar sem fulltaf skemmtilegu fólki var samankomið. Ég og einn vinur minn færðum okkur svo yfir á Vegamót þar sem við vorum til 2 með skemmtilegu fólki er ég ákvað að koma mér heim til að vera hress fyrir skíðaferðina sem ekkert varð úr. Ég átti fullt af fróðlegum samræðum um pólitík og líka um áhrif þessarar bloggsíðu á mitt einkalíf. Það samtal verðskuldar eiginlega sjálfstæða færslu sem fer væntanlega í hóp með þeim milljón færslum sem ég hef lofað að skrifa á þessari síðu.

* * *

Á morgun er ég á leið til Stokkhólms þar sem ég verð fram á föstudag. Mér tókst því ekki að klára ferðasöguna frá Liverpool ferðinni fyrir þá ferð. Ó jæja.

2 thoughts on “Lost og fleira”

  1. Hæ Einar og takk fyrir skemmtilegt kvöld í gær… þessi blessuðu trúnó virðarst vera fastur liður á dagskrá 😉
    Sjáumst

Comments are closed.