Mexíkóflóaferð 4: Trinidad

Trinidad er sennilega með fallegri borgum sem ég hef komið til á öllum mínum ferðalögum. Í kringum 1850 fylltist þessi borg af frökkum, sem voru að flýja uppreisn á Haiti og þökk sé sykurökrum þá varð borgin rík og gullfallegar byggingar voru reistar í miðbænum sem standa enn í dag. Borgin er líka á heimsminjaskrá Unesco og vinsæl af ferðamönnum, þannig að húsin hafa verið fullkomlega varðveitt.

Gata í Trinidad
Gata í Trinidad

Hitinn hérna er gríðarlegur, svo að við höfum ekki endalaust þol til að labba um göturnar með tvö börn í burðarpoka eða vagni (sem erfitt er að draga á steinóttum götum) en það þarf ekki langan tíma til að meta fegurð borgarinnar. Við höfum verið hérna síðustu þrjá daga, skoðað borgina og notið lífsins á Ancón ströndinni, bestu strönd Kúbu við karabíska hafið, sem er stutta bílferð frá Trinidad.


Þetta er leigubíllinn sem keyrði okkur á Ancón ströndina í nágrenni Trinidad í gær.

Margrét í leigubílnum
Margrét í leigubílnum

Lada, árgerð 1980 og eitthvað myndi ég giska á. Ansi margir bílar hérna eru annaðhvort gamlir bandarískir bílar frá Batista tímanum eða Lödur, innfluttar á Sovéttímanum. Sumar þeirra eru lygilega vel farnar og hafa sennilega verið gerðar upp nokkrum sinnum (og ég verð að viðurkenna að mér finnst þessar Lödur dálítið flottar) en sumar Lödurnar eru gjörsamlega að hruni komnar en einhvern veginn þrauka þær ennþá. Einsog leigubíllinn í gær sem var með gati í gólfinu og gati á milli hurðar og sætis, sem leit út einsog bíllinn væri að liðast í sundur. En samt komst hann á áfangastað og tilbaka.

Ókosturinn við þessa gömlu og sjarmerandi bíla er samt að þeir eyða enn bensíni einsog það væri árið 1960. Kolsvart sót spýtist úr bílunum og loftið á götu á Kúbu með tveimur bílum er margfalt verra en loftið á hraðbraut á Flórída þar sem 50 bílar keyra framhjá þér á mínútu.

(Hér gefst ágætt tækifæri til að lýsa því enn yfir hversu fullkomlega galið viðskiptabann Bandaríkjanna á Kúbu er árið 2014. Þvílík endemsi vitleysa.)


Í Trinidad gistum við aftur í Casa Particular, sem er sér kúbverskt fyrirbrigði. Í raun býr maður í heimahúsi hjá fólki og er smá partur af fjölskyldunni. Í Trinidad vísaði herbergið okkar útað garði þar sem Jóhann getur leikið sér og meðlimir fjölskyldunnar eru dugleg við að passa hann og Björgu enda eru þau (líkt og flestir Kúbverjar) algjörlega trylltir í þessi litlu ljóshærðu og rauðhærðu börn okkar.

Þessi Casa Particular eru svo margfalt persónulegri en hótelherbergi og gera upplifunina á Kúbu enn betri. Á því Casa Particular sem við gistum núna borgum við um 30 dollara fyrir herbergi fyrir okkur 4. Lúxusinn er takmarkaður, en okkur líður vel hérna og Jóhann getur leikið um og maturinn er frábær. Það er nóg.

Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.
Ég og Jóhann slöppum af um kvöld á casa particular í Trinidad.

Ég sit hérna á ruggustól með bjór í hendi, horfi yfir garðinn og pikka þetta inn á tölvuna mína. Internet aðgangur á Kúbu er verulega takmarkaður. Í hverjum bæ eru einhver internet kaffihús, en tölvurnar eru margra ára gamlar og tengingin hæg, þannig að litlu er hægt að koma í verk. Wi-Fi er svo bara til staðar á fínustu hótelunum. Ég ákvað því að hvíla mig bara algjörlega á netinu í þessa 10 daga sem við erum á eyjunni. Fá hvíld frá vinnu, Twitter, Liverpool úrslitum, íslenskum stjórnmálum og öllu öðru sem maður fylgist með á netinu. Pikka þess í stað inn þessa ferðasögu á tölvuna mína og setja hana á netið þegar við komum aftur til Mexíkó.


Við gistum eina nótt í viðbót hérna í Trinidad, en tökum á morgun leigubíl til Santa Clara og þaðan áfram til Havana, þar sem við eigum flug eftir tvo daga til Cancun.

Skrifað í Trinidad, Kúbu 8.nóvember kl 16.43