Mið-Ameríkuferð 8: Tikal

Síðustu dagar eru búnir að vera aðeins viðburðarríkari en vikan þar á undan. Ég slappaði af 4 daga í Livingston, á meðan að Anja heimsótti veika vinkonu sína í Hondúras.

Um leið og hún kom til Livingston, fórum við í bátsferð upp á að Izabal vatni og bæjarins Rio Dulce. Nokkuð skemmtileg ferð með fallegu landslagi alls staðar í kring. Þegar við komum til Rio Dulce fórum við svo strax í smá gönguferð um vatnið og kíktum m.a. á San Felipe kastalann, sem er virki sem Spánverjar byggðu til varnar árásum sjóræningja. Svo sem ekki sérlega merkilegt.

Anyhow, næsta dag fórum við í dagsferð uppað fossi, þar sem við gátum synt í ágætlega fallegu umhverfi. Seinna um daginn tókum við svo chicken bus til Flores.

Ég nenni varla að fara mörgum orðum um þá rútuferð, né rútuferðina til Belize, þar sem ég vil ekki láta einsog að hryllilegar rútuferðir séu hápunktur Mið-Ameríku, sem er auðvitað langt frá sannleikanum…

*EN…*

Þessi rútuferð náði þó hámarki í vitleysunni. Fyrir það fyrsta, þá var lifandi hæna fyrir aftan mig. Á þakinu voru svín, en þau voru sem betur fer uppá þaki, en ekki inní rútunni. Ég er orðinn vanur því að um 100 sölumenn komin inní rútuna og reyni að selja manni allt frá steiktum bönunum til vítamína. En í rútunni í gær kom hins vegar… **Prestur!** Hann vippaði sér upp, stillti sér upp við hliðiná mér og byrjaði að predika. Og þetta stóð yfir í rúmar 45 mínútur. Hann predikaði og predikaði, hélt á Biblíunni og hrópaði yfir alla rútuna. Algjör snilld.

Flores er ekki merkilegur bær og flestir, sem eru þar eru þar aðeins í stuttu stoppi áður en haldið er til merkustu Maya rústanna, borgarinnar [Tikal](http://en.wikipedia.org/wiki/Tikal).

Tikal var helsta borg Mayanna. Byrjað var að byggja þar í kringum árið 400 og Mayar bjuggu í borginni til ársins 900 þegar að veldi Mayanna fór skyndilega að hrynja (hugsanlega vegna hungursneyðar eða of-fjölgunnar). Á helstu áhrifatímum Tikal, þá er talið að um 200.000 manns hafi búið í borginni, en þeir síðustu yfirgáfu borgina um 950 og í um 1000 ár var borgin týnd og grafin undir skógi, sem þakti öll musterin og píramídana.

Allavegana, við heimsóttum Tikal rústirnar á fimmtudaginn. Vorum mætt um 6 leytið og vorum því fyrsta fólkið inná svæðið ásamt tveim ítölum. Fyrsta klukkutímann höfðum við því aðaltorgið alveg útaf fyrir okkur. Tikal í dag samanstendur af um hundruðum bygginga, en aðeins hluti af þeim hefur verið grafin unan skógi. Merkust eru um 10 risastór musteri, sem hafa verið grafin undan skóginum að hluta til eða alveg. Aðaltorgið er alveg bert af skógi, en til að fara til hinna musteranna þarf að fara í gegnum þéttan skóg (Tikal er hluti af sama skóglendi og er notað til að taka upp nýjustu seríuna af Survivor).

Rústirnar eru gríðarlega áhrifamiklar og við eyddum um 8 klukkutímum í að klífa upp og niður píramídana. Rústirnar jafnast ekki á við Tetiouhuacan eða Machu Picchu, en eru engu að síður merkasti parturinn á þessari ferð minni um Mið-Ameríku.

Frá Flores í Gvatemala héldum við svo í gær í átt til Belize. Tókum rútu að landamærunum, svo aðra rútu að höfuðborginni Belize City og þaðan bát hingað útá [Caye Culker](http://www.gocayecaulker.com/). Planið er að slappa hér af í nokkra daga og kafa í [Bláu Holunni frægu](http://www.ambergriscaye.com/pages/town/greatbluehole.html). Auk þess ætlum við að heimsækja [Lamanai](http://en.wikipedia.org/wiki/Lamanai) rústirnar. Eftir það fer ég svo til Bandaríkjanna í tvo daga og svo heim.

p.s. Er það eðlilegt fyrir mig, hamingjusaman á eyju í Karabíska hafinu, með frábærri stelpu, í sól, 35 stiga hita og með tæran sjóinn um 50 metra frá mér, en…

**…Samt sem áður…**

… Verð ég brjálaður yfir því að Liverpool skuli hafa gert [jafntefli](https://www.eoe.is/liverpool/gamalt/2005/09/24/14.11.58) við Birmingham í dag. Mér nokk sama um allt, sem er að gerast í heiminum…. nema um gengi Liverpool. Þetta helvítis lið hefur alltof mikil áhrif á mig.

*Skrifað á Caye Caulker, Belize klukkan 12:56*

5 thoughts on “Mið-Ameríkuferð 8: Tikal”

  1. Djöfull lítur þetta vel út!!! Og þessi bláa hola, þvílíkt fyrirbæri. Þessi ferðasaga þín er að smita mig allverulega með þeirri bakteríu um að fara til þessa heimshluta. Andskotinn Einar. Andskotinn.

    kv, tobs

  2. Já, þú ert brjálaður. Mjög.

    Og mér finnst einmitt frásagnir þínar af rútuferðum vera besti hluti þessara ferðafærslna, hlakka alltaf til að lesa um næstu rútuferð…

  3. Ég verð nú að hrósa þér.. ekki út af Liverpool heldur vegna þess að þú er mjög svo skemmtilegur penni. Gaman að lesa um ferðina hjá þér. Þakka bara fyrir mig. Nonni

  4. Já, rosa gaman ad lesa bloggid thitt, hafdi aldrei heyrt af thessari “bláu holu” ádur, thú aettir ad gefa út ferdabok eftir alla thessar ferdasoegur thinar…

Comments are closed.