Mið-Austurlandaferð 12: Jeríkó

Ég er núna kominn til Jeríkó og þar sem ég er inná svo æðislegu hóteli með svona frábæra tölvu þá ákvað ég að henda inn stuttri færslu, þrátt fyrir að ég hafi skrifað líka í gær.

Um sex leytið í dag eftir að haf eytt deginum á ferð um Vesturbakkann og þegar ég sat úti í 35 stiga hita, í blautum (af svita) bol og hugsaði um kostina tvo sem ég átti – annars vegar að gista á hóteli sem bauð ekki einu sinni uppá viftu – og hins vegar að gista á glæsihóteli með loftkælingu og sundlaug (fyrri talsvert meiri pening) – þá ákvað ég að ég ætti inni smá þægindi og skellti mér á dýrari kostinn. Gat því stungið mér til sunds í hitanum hérna rétt hjá Dauða Hafinu í elstu borg heims, en talið er að hér hafi verið byggð í yfir 10.000 ár.

* * *

Ég byrjaði daginn á því að fara útá rútustöð og taka þaðan rútu frá Jerúsalem til Betlehem, sem tilheyrir Vesturbakkanum. Í Betlehem, einsog manni hefur verið kennt í jólalögum frá því að maður var lítið barn, fæddist Jesús. Þrjú hundruð árum síðar kom Helena, móðir Konstantínusar keisara og lét byggja Fæðingarkirkjuna á þeim stað sem talið er að Jesús hafi fæðst. Þá kirkju heimsótti ég í dag. Þar kemur maður inní sal þar sem liggja niður tröppur að helli þar sem er stjarna, sem markar þann stað sem fæðingin á að hafa átt sér stað. Þar var í dag endalaus straumur af túristum, sem snertu stjörnuna á meðan ég reyndi að taka myndir.

Við hliðina er svo Kirkja heilagrar Katrínar, þar sem ár hvert er haldin jólamessa, sem er sjónvarpað til flestra landa í heimi.

Eftir að hafa látið palestínskan homma hanga á mér einsog plástur í um klukkutíma á meðan ég skoðaði miðbæinn og markaðinn, ákvað ég svo að ég hefði séð nóg af Betlehem og tók því leigubíl til Jeríkó.

Eftir að hafa eytt dágóðum tíma í að spjalla við gamla kalla við tré Zaccheus-ar, þá tók ég kláf uppá Fjall Freistingarinnar, þar sem Djöfullinn á að hafa freistað Jesú. Hvort sem það gerðist í raun, þá breytir það því ekki að þar er gríðarlega gott útsýni yfir Jeríkó og Dauða Hafið.

* * *

Ég hef átt nokkur skemmtileg samtöl um trú við ferðalanga og innfædda á þessu ferðalagi mínu. Allar þessar ferðir á Biblíuslóðir hafa fengið mig til að hugsa ansi mikið um trúmál og ég kannski skrifa lauslega um það síðar.  Á þeim stöðum sem ég hef verið síðustu daga er gríðarlega mikið af Kristnum pílagrímum á ferð, flestir frá Bandaríkjunum. Margir hverjir styðja þeir Ísraels-ríki algjörlega gagnrýnislaust (ég sá í dag bandaríska konu með hatt merktan Ísraels-her!) og ansi margir trúa þeir því að Gyðingar eigi rétt á öllu landi Ísraels og Palestínu – og að um það verði ekki deilt – því það sé vilji Guðs. Þessu trúa einnig margir landnemanna, sem búa í landtökubyggðum Gyðinga á Vesturbakkanum. Þegar að fólk trúir einhverju vegna þess að það sé vilji Guðs þá verður oft erfitt að eiga við það samræður.

* * *

Ég endaði svo daginn á því að skoða rústir í Jeríkó, sem eru taldar vera allt að 7.000 ára gamlar.  Í kvöld ætla ég að njóta lífsins á góðu hóteli.  Á morgun ætla ég til Nablus og þaðan til Ramallah.

Skrifað í Jeríkó, Palestínu klukkan 19.44

5 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 12: Jeríkó”

  1. Já, ég eiginlega ákvað að sleppa Masada. Ég er búinn að vera í þrjú skipti við Dauða Hafið og held að ég nenni ekki þangað aftur í þessari ferð. Sá litli tími sem ég hef hér í Ísrael og Palestínu (útaf því að ég eyddi meiri tíma en ég ætlaði í Sýrlandi) gerir það að verkum að ég verð að velja og hafna í þessari ferð.

Comments are closed.