Mið-Austurlandaferð 4: Guði sé lof fyrir Nescafé!

Ég er búinn að setja inn eitthvað af myndum inná Flickr síðuna mína frá Líbanon. Vandamálið er að ég tek flestar myndirnar á EOS vélina mína í RAW og get því ekki sett þær inná Flickr af net-kaffihúsum. Ég get því bara sett inn myndir sem ég tek með litlu vélinni minni. Vanalega er ég með litlu vélina í borgum og þá stóru á stærri túristastöðunum.

Ég í miðbæ Beirút

Á þessari mynd er ég nánast aleinn á aðaltorginu í miðbæ Beirút. Nokkrum dögum áður en svo allt varð vitlaust.

* * *

Ég veit varla hvernig ég á að lýsa óþverranum sem manni er boðið uppá undir merkjum kaffis hér í Sýrlandi. Þetta er einhver ógeðsleg leðja, sem að fólk blandar í með sirka 4 sykurmolum til þess að það verði drykkjarhæft. Í gær var ég fastur hérna í Hama, þar sem að ég nennti ekki að fara í sýnisferð um nágrennið í rigningu. Það sem ég fattaði ekki fyrirfram var að það var föstudagur (ég er lygilega fljótur að gleyma því hvaða vikudagur það er á ferðalögum) og því voru allar verslanir og flestir veitingastaðir lokaðir.

Þannig að ég hafði heilan dag til að eyða í bókalestur. Og með því þurfti ég kaffi. ÉG ÞURFTI KAFFI! Nauðsynlega! Eftir smá labb tókst mér að finna tvö kaffihús, sem voru opin en þau buðu bara uppá arabískt kaffi, en ekki Nescafé einsog margir staðir gera. Ég gerði því dauðaleit að búð sem að seldi Nescafé. Og það var ekki fyrr en um eftirmiðdaginn í gær að ég fann vin í eyðimörkinni sem að seldi Nescafé. Ég keypti krukku fagnandi, hljóp heim á hótel einsog illa haldinn fíkill og sauð vatn. Þvílík sæla. Ég hef aldrei á ævinni verið jafn feginn að drekka bolla af instant kaffi.

* * *

Hama er víst ein íhaldssamasta borgin í Sýrlandi. Það var hér sem að bræðralag múslima reyndi uppreisn árið 1982 gegn Assad fyrrverandi Sýrlands forseta. Assad réðst þá á borgina án misskunnar og nánast jafnaði hana við jörðu og talið er að herinn hafi drepið allt að 25.000 manns í borginni. Þegar maður ferðast út fyrir borgina verður klæðaburður kvenna til að mynda miklu frjálslegri en hérna í Hama. Þessi hernaður Assads gerði það líka að verkum að gamli bærinn er algjörlega farinn og því lítið merkilegt að sjá hér. Ég sat því útá svölum mestallan daginn og las tvær æðislegar bækur, annars vegar kláraði ég Abstinence Teacher eftir Tom Perrotta (sem er höfundur sem ég dýrka og dái) og svo byrjaði ég á The Corrections eftir Jonathan Franzen

Ég er búinn að eyða deginum í dag á rosalegum sight-seeing túr um nágrenni Hama. Ég byrjaði morgunin í Apamea, þar sem eru sennilega næst merkustu fornleifar Sýrlands (á eftir Palmyra sem ég fer til á morgun). Apamea eru aðallega rústir eftir rómverska borg, sem var uppá sitt besta í kringum árið 200. Einsog í Baalbek og Byblos þá var ég aleinn. Það er varla hægt að lýsa því hversu mikið betra það er að vera á svona stórkostlegum stöðum einn frekar en umkringdur túristum. Ímyndið ykkur bara að vera á Akrapolis í Aþenu á fallegum vordegi ein, alein. Allir sem hafa upplifað vinsælar fornminjar ættu að geta ímyndað sér hversu miklu ánægjulegri upplifunin er þegar að þú ert ekki umvafin túristahópum.

Leigubílstjórinn fór svo með mig til Mosyaf, þar sem ég borðaði fáránlega góða falafel samloku og skoðaði borgarvirkið þar. Og svo endaði ég daginn í Krac des Chevaliers kastalanum. Sá er sennilega merkasti Krossfarar-kastalinn í Mið-Austurlöndum. Ekki er talið að hinir hræðilegu Krossfarar hafi byggt kastalann, en þeir tóku hann yfir í kringum árið 1150 og gerðu hann að alvöru virki. Í dag eru rústirnar ótrúlega heillegar og ég eyddi næstum því tveim klukkutímum að skoða mig um alla króka og kima í kastalanum. Einsog flest annað þá er þessu sennilega betur lýst með myndum sem ég mun setja hingað inn eftir að ég kem heim.

* * *

Þannig að framundan er laugardagskvöld í Hama. Jibbí jei! Það verður væntanlega lítið fjör, enda engir barir hér í borg og lítið að gerast. Ég mun sennilega bara taka því rólega því ég er uppgefinn eftir daginn og á morgun er ég svo að fara í rútu til Palmyra klukkan hálf sjö um morguninn. Í Palmyra ætla ég að vera í tvo daga og svo fer ég til Damascus.

Skrifað í Hama, Sýrlandi klukkan 16.39

4 thoughts on “Mið-Austurlandaferð 4: Guði sé lof fyrir Nescafé!”

  1. Þú veist að þú þarft að bíða í svona 5 mín. áður en þú tekur fyrsta sopann, til að láta kaffið setjast…? Svo skaltu biðja um það “núss súkkar” til að það sé ekki alltof sætt.

    “Byggingin” sundurskotna á myndinni frá Beirút er hvorki meira né minna en gamla Holiday Inn hótelið, sem var frekar rétt óklárað en nýopnað minnir mig þegar borgarastríðið braust út. Gatan þar sem þú tekur myndina var á “grænu línunni” sem aðskildi Vestur- og Austur-Beirút og var víglínan á milli múslima og kristinna sveita. Tveimur götum neðar er svo HSBC bankinn þar sem bílalest Hariri var sprengt í loft upp.

  2. Aha, mig grunaði að þetta væri Holiday Inn hótelið, enda hafði ég lesið talsvert um það. Ég var hins vegar á hraðferð í leigubíl og gat ekki alveg áttað mig á því hvar ég var. Takk fyrir upplýsingarnar.

    Og ég hef reynt þetta með kaffið. Þetta er samt ógeðslegt. 🙂

Comments are closed.