Mið-Austurlandaferð 7: Damaskus

Fram til þessa í ferðinni hef ég farið nokkuð hratt yfir. Ég fór yfir helstu staðina í Líbanon á viku og fyrsta vikan á Sýrlandi var líka nokkuð þétt skipuð. Það er því mjög gott að hafa slakað aðeins á hraðanum hérna í Damaskus.

Ég hef rosalega gaman af því að vera á fullu alla daga, sjá nýja staði og gera nýja og spenanndi hluti. En svo er líka gaman að ílengjast aðeins í borgum. Vera nógu lengi til að rata á helstu staðina, eignast uppáhalds veitingastaði og svo framvegis. Bæði er Damaskus ótrúlega heillandi borg og svo hef ég líka verið rosalega heppinn með gistiheimilið sem ég er á. Þar hef ég kynnst ótrúlega skemmtilegu fólki, sem ég hef drukkið, borðað, labbað og ferðast með síðustu daga.

Ég er búinn að eyða þrem dögum á rólegu labbi um borgina. Ég kynntist á gistiheimilinu tveim bandarískum stelpum, sem ég hef verið með síðustu daga. Fimmtudeginum eyddum við á labbi um borgina, skoðuðum Umayyad í annað skipti, löbbuðum um markaðina og urðum villt í gömlu borginni. Um kvöldið fórum við með leigubíl uppá Quassioun fjallið, þar sem er alveg frábært útsýni yfir Damaskus og horfðum þar á sólsetrið. Borðuðm svo frábæran mat og reyktum Nargileh á veitingastað með fleira fólki af gistiheimilinu.

* * *

Í gær fórum við svo þrjú til Palmyra rústanna, sem eru sennilega merkustu fornleifar Sýrlands. Palmyra er borg, sem var byggð á vin í eyðimörkinni um 200 km frá Damaskus. Talið er að þar hafi fólk búið frá því fyrir um 4.000 árum, en hápunktur borgarinnar var undir stjórn Zenobia, sem stjórnaði Palestínu, Sýrlandi og hluta Egyptalands frá Palmyra í kringum árið 200.

Í dag eru í Palmyra rústir hofa og aðalgötunnar, sem var umkringd súlum. Við skoðuðum rústirnar í nokkura klukkutíma og eyddum svo restinni af deginum inná kaffihúsi, bíðandi eftir rútu til Damaskus – sem ætlaði aldrei að koma, spjallandi um fulltaf skemmtilegum hlutum.

Ég ætlaði svo bara að taka því rólega inná gistiheimili í gærkvöldi. Fékk mér falafel og settist niður til að klára The Corrections. En þá kom Carl, nýsjálenskur rithöfundur, heim með fulltaf léttvíni – svo við sátum að drykkju frameftir kvöldi með fólki, sem kom inná gistiheimilið eftir því sem á leið á kvöldið.

Í dag er ég svo búinn að taka því frekar rólega. Heimsótti Umayyad í þriðja skiptið, enda fæ ég varla nóg af þeirri stórkostlegu byggingu. Reyndi að heimsækja minnismerki um baráttuna um Golan hæðir án árangurs og labbaði svo meira um borgina. Á morgun ætla ég svo að gera aðra tilraun til þess að fá ferðaleyfi til Golan hæða og svo á mánudaginn er planið að fara með rútu til Amman í Jórdaníu.

Skrifað í Damaskus, Sýrlandi klukkan 17.30

One thought on “Mið-Austurlandaferð 7: Damaskus”

Comments are closed.