Mið-Austurlandaferð 6: Íslam

Ég er búinn að vera í Damaskus í rúman sólahring og verð að segja að ég er alveg heillaður af þessari borg. Ég er eiginlega bara staddur á internet-kaffihúsi til að kæla mig aðeins niður, enda sólin sterk og veðrið gott. Hérna á netkaffihúsinu hljómar How am I supposed to live without you með Michael Bolton og ég er umkringdur Sýrlendingum, sem keðjureykja. Sannkallaðar kjör-aðstæður!

Ég kom hingað með rútu frá Aleppo í gær og er búinn að eyða deginum í dag í labb um gamla bæinn. Ég gisti á gistiheimili í kristna hverfi gamla bæjarins, rétt hjá Decumanus götu (Straight Street) þar sem að Páll Postuli á að hafa verið skírður eftir að hafa snúist til Kristni á veginum til Damaskus. Hið skemmtilega gistiheimili sem ég bý á er rekið af Palestínumanni, sem hefur búið í Ástralíu lengi en er nýfluttur til Damaskus.

* * *

Í dag skoðaði ég þriðju helgustu mosku múslima (á eftir Mekka og Medina), Umayyad moskuna í Damaskus. Sú bygging er einfaldlega stórkostleg, sannarlega með fallegri byggingum, sem ég hef séð á ævinni. Ég eyddi megninu af fyrri part dagsins inní moskunni. Í henni er m.a. bænasalur þar sem haus Hussein (barnabarns Múhameðs) er geymdur. Sá staður er helgur fyrir Shía múslima. Þegar ég kom þangað inn var þar stór hópur af grátandi fólki í miðjum bænum.

Ég verð að játa það að ég hef alltaf átt erfitt með að muna hvernig skiptin á milli súnní og sjía eru. Ég ákvað því eitt kvöldið að byrja að krota í stílabókina mína töflu til að hjálpa mér við að læra þetta í eitt skipti fyrir öll. Og deili henni hér með ykkur (með fyrirvara um villur, sem þið megið endilega leiðrétta, þar sem ég er enginn fræðimaður í þessum málefnum). Tel þarna til lönd þar sem hvor hópur er í meirihluta og karaktera (flestir miður góðir, enda fréttaflutningur af íslam sjaldnast góður) úr fréttum.

Sjía (15%) Súnní (85%)
Trúa Trúa því að eftir dauða Múhameðs hefði Ali, tengdasonur hans átt að taka við sem leiðtogi múslima (Imam). Viðurkenna ekki áhrif kosinna leiðtoga í íslam, en trúa þess í stað á röð af leiðtogum, sem þeir telja að hafi verið skipaðir af Múhameð eða Guði sjálfum. Trúa því líka að þessir leiðtogar geti ekki gert mistök þar sem þeir séu skipaðir af Guði. Imamarnir hafa því kennivald. Telja að rétt hafi verið að kjósa leiðtoga múslima (Imam) eftir dauða Múhameðs úr hópi hæfra manna (einsog var gert). Telja að leiðtogarnir þurfi að vinna sér inn stöðu sína og ef að þeir standi ekki undir væntingum sé hægt að svipta þá titlinum. Imamarnir hafa því ekki kennivald.
Orðið þýðir Stytting á Shia-t-Ali, eða “Flokkur Ali”. Sá sem fylgir hefðum Spámannsins
Lönd Íran, Írak (65% þjóðarinnar), Bahrain, Azerbaijan, Líbanon (stærsti trúarhópurinn, þó í minnihluta) Sádí Arabía, Palestínumenn, Tyrkland, Sýrland, Jórdanía, Afghanistan, Pakistan, Sameinuðu Arabísku Furstadæmin, Egyptaland, öll önnur múslimaríki sem ekki eru talin upp meðal Sjíalandanna.
Fólk Khomeini (Íran), Muqtada al-Sadr (Írak), Ali Al-Sistani (Írak), Ahmadinejad (Íran), Hassan Nasrallah (Líbanon) Rafik Hariri (Líbanon), Saddam Hussein (Írak), Osama Bin Laden (Sádí Arabía), Ayman Zawahiri (Egyptaland), Yasser Arafat (Palestína)
Samtök Hezbollah, Mahdi herinn Hamas, Al-Qaeda

Vonandi að þetta hjálpi einhverjum. Ég ætla að nota Damaskus sem bækistöð næstu daga, enda kann ég vel við mig á gistiheimilinu meðal skemmtilegs fólks. Ég er að spá í því að fara til Palmyra á morgun og hugsanlega til Golan hæða seinna í vikunni, með stoppum í Damaskus á milli. Þegar ég er búinn að skoða þá staði og allt sem ég ætla að sjá í Damaskus þá mun ég halda til Jórdaníu.

Skrifað í Damaskus klukkan 18.13