Microsoft og smart tags

Nú hefur Microsoft ákveðið að taka út “smart tags” úr nýja Windows XP kerfinu sínu. Þetta finnst mér mjög athyglisvert og í raun aðdáunarvert hjá fyrirtækinu.Smart tags áttu að gera það að verkum að hægt var að breyta öllum vefsíðum, sem þú skoðar. Þannig að undir hverju orði verði sérstakur tengill yfir á ákveðnar Micrsoft síður. Þannig að til dæmis á minni síðu, þegar ég væri að fjalla um Northwestern, skólann minn, þá myndi koma tengill yfir á ákveðin svæði hjá Microsoft.

Einnig ef talað er um fyrirtæki myndi koma tengill yfir á MSN Money.Þetta var náttúrulega ekki gott mál, þar sem Microsoft gat breytt síðunum án leyfis frá höfundum. Reyndar gætu höfundar vefsíðna sett inn ákveðnar skipanir, sem myndu banna Microsoft að gera þetta, en líkur eru á að meirihluti hönnuða myndu ekki hafa vit á að gera það.Ég er nú ekki jafn hræddur við alræðistilburði Microsoft og margir aðrir, en þarna fannst mér fyrirtækið ganga full langt. Hugmyndin hjá fyrirtækinu er náttúrulega sú að fá sem flesta til að nota netþjónustu sína. Ég skil ekki alveg af hverju Microsoft notar svona aðferðir. Þeir hljóta að gera sér grein fyrir því að það verður allt vitlaust um leið og þeir nýta sér Windows kerfið til að reyna að auka umferð á sínar vefsíður. Þetta ætti í raun að vera óþarfi því að netþjónusturnar, sem Microsoft býður uppá eru alveg einstaklega vel gerðar og ættu þeir að geta aukið markaðshlutdeild sína með öðrum hætti.

Eftir að menn fóru að taka eftir “smart tags” í beta útgáfum af Windows XP kvörtuðu margir. Microsoft virðist hafa tekið tillit til þeirra kvartana. Það er án efa jákvætt fyrir fyrirtæki, sem hefur jafnmikil völd og Microsoft hefur. Þeir hefðu einfaldlega geta látið þessar kvartanir sem vind um eyru þjóta, en aldrei þessu vant ákváðu þeir að viðurkenna mistök sín.