Næstsíðasta laugardagskvöld fyrir jól

Fyrir 364 dögum skrifaði ég [eftirfarandi](https://www.eoe.is/gamalt/2005/12/17/23.44.37/):

>Hvað gerir ungur piparsveinn á laugardagskvöldi?

>Jú, í mínu tilfelli þá hef ég eytt síðustu 5 klukkutímunum inní eldhúsi á Serrano, skerandi kjúkling og búandi til sósur. Það var hressandi

>Einhvern veginn varð þetta síðasta laugardagksvöld fyrir jól ekki alveg einsog ég hafði gert mér vonir um. Það var svo sem blanda af nokkrum atburðum. Dagurinn í dag var sá stærsti í sögu Serrano. Við höfum aldrei selt jafnmikið og bættum fyrra met, sem sett var 22.desember í fyrra, um rúmlega 10%.

Núna er klukkan að verða 11 á laugardagskvöldi og ég sit inní stofu, algjörlega uppgefinn og hlusta á Ghostface Killah og reyni að slappa af. Ég eyddi einmitt þessu næstsíðasta laugardagskvöldi fyrir jól uppá Serrano.

Og viti menn, dagurinn í dag var stærsti dagur í sögu staðarins. Við bættum fyrra met um 16% og þrátt fyrir það að núna sé á Stjörnutorgi miklu meiri samkeppni (Sbarro í stað Bagel House). Vann frá 15-23, sem var ágætt.

Ég er ekki kominn í jólaskapið og ekki byrjaður að pæla í jólunum. Langar ekki í neitt sérstakt í jólagjöf, en mig hlakkar þó til að velja nokkrar jólagjafir. Því yngri sem þiggjendurnir eru, því skemmtilegra er valið. Svo á ég eftir að skrifa jólakort. Þau verða fleiri en í fyrra, sem er gaman.

Ég á oft á tíðum erfitt með að vera í afgreiðslunni á Serrano. Ég á mestan heiðurinn af þeim réttum sem við bjóðum uppá og því verð ég alltaf hálf svekktur þegar fólk er að breyta útaf þeim réttum sem við bjuggum til. Auðvitað er það ekkert nema sjálfsagt, en það er alltaf eitthvað innra með mér sem kippist við þegar að fólk vill sleppa svörtum baunum (sem eru æðislegar) eða breytir frá því að kaupa þá sósu sem ég lagði til að yrði notuð á viðkomandi burrito.

Ég las einhvern tímann vefsíðu þar sem mun betri kokkar en ég svekktu sig yfir fólki, sem kom á fínu veitingastaðina þeirra – pantaði flotta rétti, sem þeir höfðu eytt árum í að fullkomna, og bað svo um salt og pipar eða soja sósu eða tómatsósu og setti yfir réttinn. Það þótti kokkunum ekki gaman.

Alls ekki misskilja mig. Mér finnst þetta í góðu lagi hjá okkar viðskiptavinum og vissulega er það kosturinn við Serrano að það er hægt að breyta hlutunum og að sumum fólki finnst aðrar sósur betri en mér. En mér finnst þetta samt alltaf pínu erfitt. Stelpurnar, sem vinna með mér, geta hlegið af því hversu nærri mér ég tek þetta. 🙂

En núna ætla ég að sofa út á morgun og svo reyna að kíkja út og kaupa jólagjafir.

Á leiðinni heim úr Kringlunni hlustaði á á einhverja útvarpsstöð þar sem að DJ-inn spilaði fyrst *Suspicious Minds* með Elvis Presley og svo *Gone Daddy Gone* með Violent Femmes. Ég söng svo hátt í bílnum mínum að það var sennilega nær öskrum en söng.

4 thoughts on “Næstsíðasta laugardagskvöld fyrir jól”

  1. humm já svartar baunir eru e-h sem ég hef ekki þorað að prófa á Serrano en ætli maður verði ekki að gera það næst 🙂
    og til hamingju með metið, frábært!

  2. Já, endilega. Þær eru mjög bragðgóðar (miklu, miklu betri en pinto baunirnar sem miklu fleira fólk treystir sér til að prófa) og ótrúlega hollar.

    Þær passa kannski ekki með öllu, en t.d. í bbq burrito-inum þá eru þær algjört æði. Trefjaríkar, prótínríkar og bragðgóðar. 🙂

  3. Svartar baunir eru frábærar. Ekki einu sinni hægt að bera þær saman við pinto. Verð alltaf fyrir vonbrigðum með að það er varla hægt að fá þær nema ósoðnar á Íslandi. Það er að segja í eigin eldamennsku.

  4. Álfheiður, ertu með einhverjar hugmyndir um það hvernig við getum komið íslendingum á bragðið? Þeir horfa bara á baunirnar og þora ekki að taka af skarið. Stundum hef ég verið að spá í að setja upp miða sem stendur á: “Svörtu baunirnar eru _í alvöru_ mjög góðar!” 🙂

Comments are closed.