Gore og Bush

Ég var að horfa á kappræðurnar milli Gore og Bush. Þær voru í sjónvarpinu áðan og var stjórnað af hinum mikla snillingi, Jim Lehrer. Að mínu mati þá tók Gore Bush í nefið. En kannski á ég örlítið erfitt með að vera hlutlaus. Ég held þó að flestir myndu vera sammála um að Gore var mun öruggari og hann vissi meira um málefnin. Og afstaða hans til flestra málefna höfðar einfaldlega meira til mín.

Einnig var Al Gore ávallt með allar tölur á hreinu. Bush gat aldrei svarað fyrir sig og neitaði aldrei tölum Gore, heldur reyndi að vera fyndinn og sagði að Gore hefði fundið upp reiknivélina. Gore var með allt á hreinu, en Bush var alltaf í vörn.

Bush klúðraði svo endanlega öllu, þegar hann var kominn út í horn og byrjaði þá að ráðast á persónu Al Gore. Hann fór eitthvað að tala um Clinton og svo búddhista musterið. Al Gore leysti þetta á einfaldan hátt. Hann sagði einfaldlega að hann vildi ekki tala um persónur, heldur málefni. Nákvæmlega!

Apple hatur

Ég næ því ekki hvað gummijoh.net hefur svona voðalega mikið á móti Apple. Ég er nú Apple notandi og kann ágætlega við þetta fyrirtæki. Það er staðreynd að ef Apple hefði ekki verið til þá væri gummijoh ennþá að vesenast í DOS umhverfinu.

Annars hef ég ekkert sérstaklega mikið á móti Microsoft. Ég nota Microsoft Outlook og Explorer, einfaldlega af því að þau eru betri forrit en Eudora og Netscape. Hinsvegar er Windows 98 hrikalegur viðbjóður og kýs ég því frekar Mac OS9. Ég viðurkenni þó að Windows 2000 er betra, en ég á þó eftir að prófa Apple OSX, sem að sögn fróðra manna tekur Windows í nefið.

Zentra

Zentra klúbburinn var bara fínn. Mjög stór og með flottum bakgarði, sem var opinn, enda var veðrið frábært. Það kom mér þó á óvart hvað það var lítil biðröð fyrir utan, en staðurinn var flottur.

Kínahverfið

Við Hildur fórum í Kínahverfið, sem er í suðurhluta Chicago, í gær. Þetta er fínn staður, með fullt af vetingastöðum og búðum. Við versluðum eitthvað smá, keyptum okkur ginseng og te. Ég keypti einnig ginseng tyggjó, sem var frekar skrítið á bragðið.

Miðar

Ég var núna að kaupa miða á Richard Aschroft, fyrrum söngvara The Verve. Hann verður með tónleika á Double Door, 4. nóvember. Ég á reyndar ekki nýja diskinn með honum, en ég var mikill aðdáandi The Verve. Aschroft er nánast óþekktu hérna í Bandaríkjunum, þó að Bittersweet Symphony hafi slegið í gegn.