Tres Locos

Ég fór á Tres Locos í gær. Það er ekki góður veitingastaður. Í fyrsta lagi þurftum við að bíða í 50 mínútur eftir matnum. Maturinn var ekkert spes. Svo þegar við vorum enn að borða byrjuðu starfsmennirnir að taka saman hin borðin og henda þeim út á götu. Svo opnuðu þeir hurðina uppá gátt, svo við vorum að frjósa úr kulda. Æji, ég er nú ekki mikið fyrir að kvarta svona, en mikið ofboðslega var þetta nú slappt.

Þjálfari

Þjálfarinn í háskólaliðini mínu í körfubolta er hættur. Hann tók að sér starf, sem aðstoðarþjálfari New York Knicks. Ætli þetta sé ekki bara ágætt fyrir skólann minn, þar sem körfuboltaliðið gat ekki neitt á síðasta tímabili.

Dauft

Það virðist ekki vera mikið að gerast á netinu í dag, enda veðrið frábært. Ég er núna í matarhléi, er aðeins að reyna að vinna í dag. Seinna í dag fer ég svo auðvitað á landsleikinn. Það verður stuð.

Photoshop ofnæmi

Ég er búinn að fá svokallað Photoshop ofnæmi. Það felst í því að í hver skipti, sem ég sé Photoshop augað stara á mig á stikunni þá fæ ég hroll. Þegar ég verð stór ætla ég að finna upp tæki, sem gerir músina óþarfa.

Stórkostlegt

Stórkostlegt, ég er kominn með íslenska dagsetningu á bloggið mitt. Ég þakka Gunna fyrir hjálpina.

Ég var að lesa grein á Jakobi Nielsen, þar sem hann talar um póstlista. Ég veit fátt leiðinlegra en þegar maður fær einhvert fjöldaemail, sem maður getur ekki afskráð sig af. T.d. er einhver netverslun, sem sendir mér reglulega póst. Neðst á hverju bréfi eru leiðbeiningar um það hvernig maður skuli skrá sig af listanum. Maður þarf að fara á ákveðna síðu, stimpla þar inn notendanafn og lykilorð (sem ég er löngu búinn að gleyma) og svo að afskrá sig. Arrgghhhh!!! Ég er dæmdur til að fá póst frá þessu fyrirtæki þangað til að það fer á hausinn.

Stefán P.

Á föstudag fékk ég bréf frá Stefáni Pálssyni, einum af ristjórum Múrsins. Þar setti hann fram nokkra athyglisverða punkta um grein mína um Arnþór Helgason. Stefán segir að Arnþór hafi verið einna virkastur í að mótmæla atburðunum, sem gerðust á Torgi hins Himneska friðar. Ég trúi þessu vel, en mér fannst Arnþór samt sem áður vera fullmikið að verja atburðina. Þeir eru t.a.m. alls ekki sambærilegir þeim dauðarefsingum, sem George Bush hefur neitað að fresta.

Ég held þó að Arnþór hafi verið settur í dálítið einkennilega stöðu, þegar hann er fenginn til að vera sem nokkurs konar mótvægi við skoðanir Björgvins í Kastljósi. Ég er á því að, hefði verið settur á móti Arnþóri maður, sem væri fylgjandi stjórninni í Kína, þá hefði Arnþór mótmælt atburðinum harkalega. Ég tel að Arnþór hafi einfaldlega ekki getað verið sammála ungum Heimdellingi. Ég skil hann upp að vissu marki.

Ég hef oft staðið mig að því að mótmæla mönnum einsog Pinochet en verja svo menn einsog Castro. Þetta er auðvitað rangt og ég er hættur því. Ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki hægt að réttlæta manndráp eða pyntingar, sama hvað landið er yndislegt, eða hugsjón hæstráðenda mikilfengleg.

Athyglisvert

Athyglisvert að á Smashing Pumpkins heimasíðunni þá endar tónleikaferðalag þeirra um Evrópu þann 4. nóvember. Hvergi er minnst á tónleika á Íslandi, sem einhverjir segja að eigi að vera 9.nóvember. Hverjum á fólk að trúa?