Páskafrí

Fyrir utan frábæra páska í fyrra hef ég eytt síðustu páskum á Íslandi að stóru leyti í vitleysu. Blanda af djammi, sjónvarpsglápi og almennri leti. En ég ætlaði að breyta til þessa páska og gerði þess vegna actually to-do lista fyrir páskafríið.

Skipulagshæfileikar mínir eru vissulega nær ótakmarkaðir. Svona lítur listinn út:

1. Taka til í íbúðinni minni. Þetta gerði ég í gær. Ég ákvað að breyta aðeins til og henti út helling af húsgögnum án þess að nokkuð kæmi í staðinn. Þess vegna lítur íbúðin mín hálf tómlega út akkúrat núna – einhvers konar minimalismi í gangi.

Ég tók líka til í geymslunni niðri og henti dóti, sem ég átti fyrir löngu að vera búinn að henda. Henti loksins gömlum Playmo leikföngum og öðru drasli. Einnig gamla bakpokanum mínum, sem hefur ferðast um alla Suður-Ameríku og hálfa Mið-Ameríku með mér. Það er alltaf pínku skrýtið að henda slíkum hlutum, sem eiga sér sögu.

2. Fara actually í líkamsrækt yfir páskana. Þetta verð ég að gera til þess að halda heilsunni. Málið er nefnilega að ég fæ nánast undantekningalaust hausverk ef ég fer ekki í ræktina á hverjum degi. Þetta hef ég staðið við fyrstu tvo dagana í fríinu. Í gær fór ég út að hlaupa og í morgun fór ég í Laugar. Ég hélt að ég yrði einn af fáum í ræktinni í morgun, en það var öðru nær. Það var fulltaf fólki í ræktinni og þar á meðal annaðhvort fallegasti vinkvennahópur á landinu eða þá hópur keppenda í einhverri fegurðarsamkeppni.

Ég hef undanfarnar vikur æft á morgnana, sem er að nánast öllu leyti frábært. Það skapar einhverja rútínu í mitt líf, sem er oft erfitt þar sem ég vinn sem framkvæmdastjóri í eigin fyrirtæki og þarf því í raun ekki að mæta neitt á ákveðnum tíma. Þess vegna er gott að hafa ræktina til að byrja daginn. Það er líka ágætt að vera búinn í ræktinni í upphafi dags, þar sem að þá þarf ég ekki að hugsa um hana það sem eftir lifir dagsins.

Eini gallinn er sá að það er ekkert voða mikið af sætum stelpum þarna í byrjun dags og sæta dökkhærða stelpan á beyglu/skyr/kaffi/prótín/whatever barnum niðri virðist ekki vera mætt svona snemma. Eða kannski er hún bara hætt.

3. Klára uppboðsmál. Þótt ótrúlegt megi virðast þá hef ég ekki enn klárað öll mál tengdu [uppboðinu í desember](https://www.eoe.is/uppbod/). Það er aðallega vegna þess að sumt fólk, sem keypti hluti á uppboðinu, hefur ekki enn sótt hlutina eða borgað fyrir þá, þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir mínar til að fá fólk til að gera eitthvað í málunum. En ég ætla allavegana að taka til þá hluti, sem ég get hugsanlega selt, taka saman upphæðir og koma peningunum til réttra málefna.

4. Skrifa bréf! Ég er búinn að vera fáránlega latur við að skrifa vinum mínum í útlöndum að undanförnu. Ég hef verið að fá slatta af bréfum að undanförnu, meira að segja frá fólki, sem ég hef ekki heyrt frá mjög lengi – en ég hef ekki skrifað tilbaka í marga mánuði.

Því ætla ég að breyta í fríinu og skrifa allavegana 10-15 email til vina í útlöndum.

Þannig lítur þetta út – ég hef enn 3,5 daga til að klára þetta – ætti ekki að vera neitt mál. Jú, svo þarf ég líka að horfa á fullt af sjónvarpi. Já, og spila xBox. Það er algjörlega nauðsynlegt. Já, og borða Mackintosh – og narta í íslenskt páskaegg, sem ég borða meira af skyldurækni heldur en vegna þess að mér finnist þau sérstaklega góð.

Já, og svo sá ég Science of Sleep í bíó í gær. Mér fannst hún vera algjör snilld. En ég held að stelpurnar tvær, sem löbbuðu útúr bíóinu eftir hálftíma hafi ekki verið okkur sammála.

En jæja, matarboð eftir korter.

Gleðilega páska! 🙂