Punktablogg

Ég sit hérna uppí stofa inní stofu, fáránlega uppgefinn. Tími fyrir punktablogg.

* Ég er upptekinn af því að ég hef farið tvisvar í CrossFit á 20 tímum. Það var svívirðilega erfitt. Hendurnar á mér virka ekki alveg þar sem ég gerði ansi mikið af æfingum sem krefjast þess að maður hangi (upphýfingar og fleira skemmtilegt.)
* Veðrið úti er ekki skemmtilegt. Ég var að kvarta yfir snjónum í gær, en í nótt varð þetta enn verra því að það bættust við 20-30 cm af snjó. Auk þess er úti sirka 10 stiga frost. Ég er ekki beint æstur í að fara útúr húsi í svona veðri. CrossFitið í morgun hjálpaði líka ekki. Þetta var svo slæmt að í gær þá fór neðanjarðarlestin hérna í eitthvað rugl og ég þurfti að bíða í heilar 5 mínútur á Hötorget til að komast heim úr vinnu. Neðanjarðarlestakerfið hérna í Stokkhólmi er frábært og lestarnar eru ávallt á tíma, þannig að það heyrir til tíðinda þegar að þær ganga ekki á tíma.
* Ég á bestu kærustu í heimi einsog hefur komið fram áður. Hún bauð mér útað borða í gær á Roxy, stað sem liggur rétt hjá Nytorget hér á Södermalm. Það var mjög góður staður og ég borðaði nautasteik í fyrsta skipti í langan, langan tíma. Mikið rosalega getur það verið góður matur. Og mikið rosalega smakkast kaldur bjór vel á föstudegi rétt eftir CrossFit tíma og langa vinnuviku.
* Eftir mat fórum við á Shutter Island. Við vorum frekar ósammála um gæði þeirrar myndar. Mér fannst hún verulega góð, en Margrét var ekki hrifin. Það virtist vera í ágætis samræmi við þá umsögn sem hún fær hjá gagnrýnendum – menn einsog Roger Ebert fíla hana, en hún fær útreið í New York Times. Hún byrjar rosalega vel og fyrsti klukkutíminn er frábær – svo missir hún kannski aðeins flugið, en mér fannst hún góð. Ég mæli með henni þótt hún sé eflaust ekki fyrir alla.

Þetta er gott í bili.

One thought on “Punktablogg”

Comments are closed.