Punktar um HM

Hérna eru nokkrir punktar í kjölfar HM.

 • Mínir menn töpuðu í úrslitaleiknum.  Ef ég hefði samt getað valið einhverja mynd í heiminum, þá hefði sennilega engin mynd geta glatt mig jafnmikið í kjölfar leiksins og þessi hér.  Fernando Torres með HM styttuna og Liverpool trefil?

  torresHM.jpg

 • Mér fannst Spánverjar leika hundleiðinlegan bolta á HM.  Þeir voru án efa með besta liðið og besta mannskapinn.  En að menn haldi því að þeir spili skemmtilegan bolta og að “knattspyrnan hafi unnið” er bara bull.  Ég horfði á flesta leiki Spánar og get ekki sagt að neinn þeirra hafi verið skemmtilegur.
 • Það að Spánn hafi tapað fyrir Sviss og svo unnið alla hina leikina með einu marki er glatað.
 • Fólk vælir ótæpilega yfir leik Hollendinga og hversu grófir þeir voru.  Ég er eflaust með litaðar skoðanir, en mér fannst þetta ekki vera jafn slæmt og margir vilja meina.  Vissulega eru Van Bommel og De Jong grófir leikmenn og hefðu geta fengið fleiri spjöld, en ég get ekki séð af hverju menn vilja dæma hollenska liðið svona hart.  Þeir unnu alla leiki í undankeppninni og uppað úrslitaleiknum.  Þeir voru vissulega heppnir með sjálfsmörk andstæðinganna, en yfir allt var ég nokkuð sáttur við mína menn.
 • Fernando Torres er minn uppáhalds knattspyrnumaður og það var slæmt að sjá hversu illa hann náði sér á strik í keppninni.  Þó er ágætt að benda á að samkvæmt tölfræði Fifa var mesti hraði, sem að Torres náði í keppninni sami hraði og Gareth Barry náði.  Það er klárt mál að meiðsli háðu honum.  Hann kórónaði svo óheppnina með að meiðast aftur í úrslitaleiknum.
 • Mér fannst þessi HM keppni ekki sérstaklega skemmtileg.  Ég heyrði einhvers staðar að þegar að Þýskaland komst yfir gegn Úrúgvæ hafi það verið í fyrsta skiptið í keppninni, sem að bæði liðin höfðu haft forystu í sama leiknum.  Það er hreint ótrúleg staðreynd.  Ég hafði frekar takmarkaðan áhuga á þessari keppni.  Kannski að þetta síðasta tímabil hjá Liverpool hafi minnkað áhuga minn á fótbolta aðeins.
 • En aðal vonbrigðin eru að Spánn hafi ekki spilað almennilega skemmtilega í neinum leik.  Það er með ólíkindum að lið, sem er að kjarna til sama lið og Barcelona skuli spila svona leiðinlegan fótbolta á meðan að Barca spilar svona skemmtilegan.  Ég veit að það vantar Messi í liðið, en samt.

6 thoughts on “Punktar um HM”

 1. Þetta með forystuna er ekki rétt… það gerðist líka í Holland – Brasilía. Annars sammála því að þessi keppni var heilt yfir frekar aum.

 2. Ekki sammála þér Einar með samanburðinn á landsliði Spánar og svo Barca. Í ansi mörgum leikjum Barca, sér í lagi í Evrópukeppninni þegar mikið er undir, þá spila þeir nákvæmlega eins. Endalausar sendingar manna á milli, stutt spil, en lítið bit í rauninni. Þetta var bara Barcelona út um eyrun. Munurinn þarna og á Spænsku deildinni að mun meira var um varnarsinnaðri lið og hver leikur nánast úrslitaleikur.

 3. Já, auðvitað Aggi. Ég heyrði þetta í Football Weekly. En allavegana, 2 leikir af 64 þar sem að bæði lið eru yfir er merki um hversu dauft þetta var.

  Og já, þetta gæti verið rétt hjá þér SSteinn. Munurinn er hinsvegar að á síðustu árum höfum við líka séð Barca spila frábærlega gegn stærri liðum, þannig að þeir geta það klárlega.

 4. Nigería – S. Kórea
  -Nígería skoraði, svo skoraði Kórea tvö áður en Nígería jafnaði

  Nígería – Grikkland
  -Nígería skoraði, svo skoraði Grikkland 2 og vann leikinn.

  Kamerún – Danmörk
  -Kamerún komst yfir áður en DK skoraði 2 og vann leikinn.

  osfrv…

  Er þetta virt fótboltarit sem þú ert að vitna í?

  Hvað knattspyrnufegurð varðar, þá toppaði Spánn í undanúrslitum. Klárlega þeirra besti og fallegasti leikur.

  Mér þótti líkt og SSteinn Spánn leika úrslitaleikinn mjög líkt t.d. Barca í úrslitum Meistaradeildarinnar fyrir ári. Og sami maður tryggði titilinn!

  Þótti þér mikið um knattspyrnufegurð hjá Hollandi í úrslitaleiknum?

 5. Ég held líka að það þurfi að vera ákveðinn stígandi í svona mótum. Mér þótti bæði Argentína og þýskaland toppa of snemma. Öfgakenndar hæðir og svo lægðir í tilfinningum hjá Argentínu. Þýskaland spilaði sína bestu leiki nokkrum dögum of snemma.

  Meðan það var stöðugur stígandi í leik Spánverja. Ég held að það megi segja það sama t.d. um Holland 88? Töpuðu í riðlakeppninni fyrir liðinu sem þeir unnu í úrslitum -já?

Comments are closed.