Rómarferð 1: Vatíkanið og forna Róm

Þegar ég hef skrifað ferðasögur á þessari síðu þá hef ég vanalega gert það meðan á ferðalaginu stóð. Það er svo auðvelt að skrifa ferðablogg þegar maður er enn á staðnum og allar minningar eru ferskar. Það er erfiðara að gera það þegar maður kemur heim og frábær helgi í Róm virðist eiga lítið sameiginlegt með hversdagsleikanum í Stokkhólmi.

En Róm er svo stórkostleg borg að það væri synd að segja ekki eitthvað um ferðina. Ég og Margrét vorum þarna um miðjan ágúst í fjóra daga og ferðin var algjörlega frábær.

Fyrir það fyrsta er ágætt að minnast á tímasetninguna á ferðinni. Róm í ágúst getur nefnilega verið smá erfið. Flestir Rómarbúar velja þann mánuð til að fara í frí uppí sveit eða á ströndina og því eru ansi margir veitingastaðir, hótel og slíkt lokuð. Hitinn getur líka verið nánast óbærilegur ef að planið er að labba um borgina. En á móti ef maður er heppinn með veður (sem við vorum því hitinn varð aldrei svo óþægilegur nema síðasta daginn) þá er það vissulega þægilegra að labba um Róm þegar að aðeins færra fólk er á ferli, því þrátt fyrir að þetta væri “low-season” í borginni þá eru samt allir túristastaðir troðfullir af fólki.

* * *

Dögunum í Róm skiptum við á milli hverfa. Einn dagur fór í að skoða Vatíkanið, einn dagur í að skoða elsta hluta Rómar, einn dagur í Trastevere og miðbæ Rómar og síðasti hálfa deginum eyddum við svo á Villa Borghese.  Ég ætla því að skipta þessari ferðasögu uppí þá hluta.  Ég bæti svo við smá um matinn, enda var hann magnaður.

Vatíkanið

Jafnvel þótt maður sé trúlaus, þá er erfitt að hrífast ekki af stórfengleika Vatíkansins. Eftir mörg ár á ferðalögum þá hef ég smám saman orðið meira og meira þreyttur á því að heimsækja kirkjur. Kirkjur eru oftast fallegar og tengjast sögu borga sterkum böndum, en ég er nú þegar búinn að sjá Las Lajas í Kólumbíu, St. Basils í Moskvu, Sagrada Familia í Barcelona, St. Patricks í New York, Holy Sepulchre í Jerúsalem, Westminster í London, dómkirkjuna í Köln og Notre Dam í París. Þannig að kirkjur þurfa að vera verulega spennandi til þess að ég vilji eyða miklum tíma í að skoða þær.

Péturskirkjan í Róm er þó sannarlega þess virði. Við vorum mætt þangað snemma um morgun til þess að forðast mestu raðirnar og gátum því eytt talsverðum tíma í að skoða kirkjuna. Hún er stórkostleg. Allt frá Pieta eftir Michaelangelo til altaristjaldsins hans Bernini. Kirkjan er fyrir það fyrsta risavaxin og það er einstök upplifun að labba þarna um. Við skoðuðum alla ganga og listaverk í sjálfri kirkjunni og enduðum svo túrinn okkar á að labba uppá þak kirkjunnar, þar sem við blasir einstakt útsýni yfir Péturstorgið og stóran hluta Rómar.

Eftir kirkjuna skoðuðum við svo Vatíkansöfnin. Fyrir utan þau reyndist vera ansi löng biðröð og þar sem við nenntum varla að bíða í 2 tíma í steikjandi sólskini þá gleyptum við söluræðu ungrar stelpu, sem var að selja túra um söfnin. Með því að vera hluti af túr þá sluppum við nefnilega við biðröðina. Það eitt var sennilega evranna virði, því að túrinn sjálfur – með gamalli ítölsku konu sem túrgæd – endurnýjaði vantraust mitt á öllum skipulögðum túrum. Hún var hræðileg, babblaði á óskiljanlegri ensku og eftir að hafa farið yfir hluta safnsins með henni ákváðum við að stinga hana af.

Vatíkansöfnin eru í mörgum höllum Vatíkansins. Þar eru meðal annars stórkostleg verk eftir Raphael, Caravaggio, Da Vinci og fleiri. Svo endar túrin um söfnin í Sistínsku Kapellunni þar sem að stórkostlegar loftmyndir Michaelangelo eru.

Forna Róm

Áhrif Rómarveldis og umsvif voru ótrúleg. Á ferðalögum mínum að undanförnu hef ég séð talsverðan hluta af veldi þeirra, bæði í Egyptalandi og þó sérstaklega í Mið-Austurlandaferðinni minni á stöðum einsog Baalbek í Líbanon. Eftir að hafa séð þær rústir kemur það manni kannski smá á óvart að fornleifar í Róm skuli ekki vera enn magnaðri, en fyrir því eru þó ástæður.

Við Margrét eyddum góðum degi í elsta hluta Rómar. Við byrjuðum á því að labba frá miðbænum að fornu Róm, með smá stoppi við Trevi gosbrunninn þar sem við köstuðum klinki í von um að komast aftur til Rómar. Í fornu Róm byrjuðum við á því að skoða Forum og Palatino auk Capitoline safnsins.

Síðast var það svo frægasta bygging Rómar, Colosseo. Colosseo er auðvitað ein af þessum byggingum, sem maður hefur séð svo oft á myndum að maður kannast nánast við allt um leið og maður sér hana í fjarlægð. Við fórum inn og skoðuðum okkur þar um á áhorfendapöllunum og tókum myndir. Það er svo sem ekki miklu hægt að bæta við myndirnar, sem við tókum þar.

*Skrifað í Stokkhólmi*