Rússlandsferð 3: heimur, ég er þunnur.

Dagur 2 í Sánkti Pétursborg hefur verið tíðindalítill. Sú staðreynd er bein afleiðing af djammi gærkvöldsins.

Ég og gaur frá Seattle, sem ég kynntist á gistiheimilinu, fórum á bar rétt hjá hótelinu. Þar drukkum við heimalagaðan bjór og einhver vodka staup. Stelpurnar á barnum, sem voru afar glæsilegar, höfðu hins vegar meiri áhuga á sextugum bissnes köllum en okkur, og því gáfumst við fljótlega upp. Við héldum því á klúbb, sem heitir Griboedov. Sá staður er í gömlu sprengjubyrgi oní jörðinni. Alger snilld.

Ég og félagi minn drukkum nokkur vodka staup og vorum nokkuð hressir. Inná staðnum var líka heill haugur af fallegum stelpum. Vá hvað það er mikið af fallegum stelpum hérna (var ég búinn að minnast á það?). Mamma lifir í skelfingu (eftir að hafa lesið færsluna mína frá Moskvu) um að ég fari að koma heim með rússneska kærustu. Allavegana, ég kynntist fullt af skemmtilegu fólki, dansaði fullt og skemmti mér frábærlega.

Klúbburinn lokaði skyndilega klukkan 7 um morguninn og var ég þá búinn að tína Kananum, svo ég þurfti að taka taxa einn. Vandinn var bara sá að ég var ekki með eina rúblu á mér. Ég ætlaði því að labba heim en fattaði skyndilega að ég hafði ekki minnstu hugmynd um hvar ég væri staddur. Ég tók því taxa og sannfærði bílstjórann um að ég myndi borga honum eftir ferðina.


Í dag er ég búinn að rölta aðeins meira um borgina. Labbaði uppað Dvortsovaya Ploschad torginu og skoðaði Vetrarhöllina aðeins að utan (inní henni er núna partur af Hermitage safninu, sem ég ætla að skoða síðar). Höllin er ótrúlega glæsilegt mannvirk. Það er í raun alveg magnað hvað það er mikið af fallegum byggingum í þessari borg. Ég rölti svo aðeins um nágrenni hallarinnar og skoðaði sumar þeirra.


Annars þá kíkti ég bara á netið til að sjá úrslitin hjá Liverpool og Cubs. Bæði liðin unnu. Það gerir mig glaðan. Í raun svo glaðan að ég held að ég verði að fagna því að fara útað skemmta mér í kvöld.

Í kvöld er ég að spá í að fara á Par.spb klúbbinn. Ætla að sjá hvort ég sé nógu sætur til að komast þar inn, en að sögn þá velja dyraverðirnir þá, sem komast inn. Það verður fróðlegt.

(Skrifað í St. Pétursborg klukkan 20.40)

4 thoughts on “Rússlandsferð 3: heimur, ég er þunnur.”

  1. Þú ert bara ekki að trúa því hvað ég væri til í að vera með þér núna…ohhjæjaoseisei

  2. Ég krefst þess að færslum um falleg rússnesku kvenfólki fylgi myndir! Nú eða linkar á síður þeirra hjá buyawife.com :biggrin:

  3. Hey, Geir, enga svona Rússafordóma. 🙂 Þótt að það sé einhver hluti af konum, sem séu tilbúnar að flýja land bara til að hitta kalla á Vesturlöndum, þá er óþarfi að dæma þær allar af því.

    Flestar stelpurnar, sem maður sér hérna á klúbbum eiga sko nóg af pening sjálfar án þess að þurfa að selja sig. Kapítalisminn hefur séð til þess að allavegana sumar stelpur eru mjög vel stæðar. :biggrin2:

Comments are closed.