Serrano – Dagur 1

Jæja, okkur tókst að opna staðinn okkar í dag. Ég held að ég hafi sjaldan upplifað meira stress og vesen á einum degi.

Þetta byrjaði auðvitað á því að ég svaf yfir mig og var ekki kominn niður í Kringlu fyrr en kl. 8.30. Stuttu eftir að ég mætti kom maður frá Heilbrigðiseftirlitinu, sem var himinlifandi yfir eldhúsinu okkar og samþykkti reksturinn. Við stefndum upphaflega á að opna kl. 11 en það var fljótt ljóst að það myndi ekki takast. Það var vesen með rafmagnið, matseðillskiltin pössuðu ekki, eitt tækið var með bandarískri kló og svo tók miklu lengri tíma að elda matinn, heldur en við héldum.

Við ákváðum því að bíða aðeins róleg og settum okkur markmið að opna kl. 3. Þegar klukkan var rúmlega tvö ætlaði ég að testa búðarkassann en mér til skelfingar þá virkaði hann ekki. Hringdi strax í Kristján vin minn, sem kom undir eins en honum tókst ekki að laga vandamálið. Þannig að tíu mínútur í þrjú hringdi ég í Aco-Tæknival og bað um að senda mér mann eins fljótt og mögulegt væri. Rúmlega þrjú kom maður frá þeim og hann lagaði kassann. Við gátum því opnað hálf 4.

Til að byrja með klikkaði allt, sem gat klikkað. Neminn í peningakassanum bilaði og því læstist öll skiptimyntin inni. Því gátu fyrstu viðskiptavinir aðeins borgað með korti á meðan ég beið í biðröð í Íslandsbanka eftir nýrri skiptimynt. Það tókst þó og um hálf fimm var kassinn kominn í lag. Þá ákvað Emil að halda heim enda hafði hann vakað alla nóttina ásamt Borgþóri, sem var að setja upp rafmagsntæki.

Fyrstu tvo tímana gekk þetta heldur brösulega. Þannig að þeir viðskiptavinir, sem komu þá gætu verið eitthvað svekktir. Hins vegar þá lagaðist þetta fljótt og eftir 5.30 gekk þetta einsog í sögu og það var stöðug traffík. Reyndar var það svo í lok dags að við vorum búin með allan kjúkling og einhverjar tegundir af sósum.

Ég veit að ég sagði á þessari síðu að við ætluðum að opna klukkan 11, þannig að ég biðst velvirðingar hjá þeim lesendum, sem mættu svo snemma. Ef einhverjir eru fúlir, sendið mér póst.

Eins ef einhverjir hafa farið á staðinn og hafa einhverjar ábendingar, þá eru þær vel þegnar. Alla aðra hvet ég eindregið til að koma og prófa.

One thought on “Serrano – Dagur 1”

  1. Fall er fararheill? En til hamingju með opnunina, ég hlakka mikið til að seðja hungur mitt á Serrano við heimkomu. Gaman að lesa líka hvað gengið var innvínklað í herlegheitunum. Aftur, til hamingju :biggrin2:!

Comments are closed.