Síðustu dagar + Egyptalandsferð

Þessir síðustu dagar í Stokkhólmi hafa verið frábærir. Ásgeir og Hulda vinir okkar voru hérna í heimsókn um síðustu helgi, sem var frábært. Við borðuðum fáránlega góðan mat, bæði heimalagaðan og á Kungsholmen og Pet Sounds Bar; við fórum á djammið, skoðuðum Stokkhólm í vorveðri, horfðum á Liverpool og ég og Ásgeir spiluðum Fifa. Algjörlega frábær helgi.

Núna er ég á skrifstofunni að klára vinnumál áður en ég fer í páskafrí á morgun. Seinni partinn eigum við Margrét flug frá Stokkhólmi til Amsterdam og svo þaðan til Kaíró. Þar munum við lenda um miðja nótt.

Planið er að vera í Kaíró í fjóra daga, skoða píramídana og borgina. Fara svo í tvo daga til Alexandríu og þaðan til Sharm El-Sheikh þar sem við ætlum að fara uppá Sinai fjall, kafa og njóta lífsins í sólinni. Stokkhólmur er reyndar talsvert meira heillandi núna í sól og vorveðri en borgin var í kuldanum í janúar þegar við pöntuðum ferðina – en ég er samt sem áður að farast úr spennu. Ég hef ekki verið svona spenntur fyrir ferðalagi lengi, þessi vetur hefur verið svo kaldur hérna.

Allavegana, ég mun reyna að blogga eitthvað úr ferðinni einsog vanalega.