Skórinn minn er á brú í Indiana

Um síðustu helgi fórum við strákarnir í fótboltaliðinu í keppnsiferð til Ann Arbour, þar sem við kepptum við U of Michigan og fleiri skóla. Ég ætla ekki að tala um úrslitin, en þess má geta að nemendur í U of Michigan eru um 50.000 á móti um 7.000 í Northwestern.

Við fórum af stað klukkan 2 á laugardagsmorguninn. Klukkan 3, þegar við vorum rétt komnir út úr Chicago þurfti hins vegar einn í bílnum að pissa. Því stoppuðum við á einhverri brú rétt áður en við komum að verksmiðjuhelvítinu Gary Indiana. Ég var hálf sofandi og áttaði mig ekki á því fyrr en ég vaknaði um 6 leytið að þessi félagi minn hafði óvart sparkað öðrum strigaskónum mínum út úr bílnum. Liggur því þessi skór sennilega ennþá á þessari brú í Indiana.

Þetta varð einmitt til þess að ég fór í fyrsta skipti út að borða í takkaskóm.

Núna á eftir er ég að fara með þrem vinum mínum til Indiana. Við ætlum að heimsækja Purdue, þar sem (ameríska) fótboltaliðið okkar er að keppa. Ég veit ekki ennþá hvort ég eigi að stoppa og kíkja á brúna.