Skotlandsferð

Það er furðulegt hversu mikið stuttar kveðjur eða samtöl í upphafi ferðar geta haft mikil áhrif á viðhorf manns til viðkomandi lands. Ég verð til að mynda alltaf fúll þegar tekið er á móti mér á Íslandi með því að tollarar skoði ALLTAF töskurnar mínar. Og það má segja að viðhorf mitt til El Salvador hafi verið markað að miklu leyti á skemmtilegasta tollara í heimi. Hann bað um að skoða töskurnar mínar, baðst velvirðingar á trufluninni og sagði svo: [Bienvenido a mi pais](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/05/23.32.43/) af innlifun. Hann kom mér strax í gott skap og þessi stutta kveðja gerði það að verkum að ég varð sjálfkrafa jákvæðari gagnvart Salvadorum. Þeim tókst að láta mig líða einsog ég væri velkominn til El Salvador, þess frábæra lands.

Í Skotlandi um síðustu helgi hafði ég bara staðið útá götu í rúmlega hálfa mínútu með kort í hendi þegar að Skotar komu upp að mér og spurðu hvort þeir gætu hjálpað. Það er merki um gott fólk og gerði það að verkum að ég varð miklu jákvæðari gagnvart Skotum en ég hefði sennilega verið fyrir.  Það eru alltaf þessir litlu hlutir sem skipta máli.

Ferðin til Skotlands var vel heppnuð. Ég eyddi 3 dögum í Edinborg og einum degi í Glasgow. Munurinn á þessum borgum er gríðarlegur. Sennilega er hann hvergi jafn augljós og þegar maður kemur útaf lestarstöðvum í þessum borgum. Í Glasgow kemur maður útí  húsasund þar sem maður sér ljótar byggingar í allar áttir. Í Edinborg kemur maður útá miðja götu þar sem við manni blasir Edinborgarkastali uppá hæðinni og aðalverslunargatan til hliðar. Það er varla hægt að byrja borgarferð með betra útsýni.

Ég náði að túristast einhvern slatta í Edinborg. Ég heimsótti vitanlega Edinborgarkastala, sem er helsta tákn Edinborgar. Hann situr uppá hæð í miðri borginni. Í kastalanum eru geymd konungsdjásn Skota og [Örlagasteinninn](http://en.wikipedia.org/wiki/Stone_of_Scone) auk þess sem þar eru nokkur söfn. Einnig er úr kastalanum frábært útsýni yfir Edinborg. Ég labbaði svo Royal Mile og skoðaði staði í kringum þá götu auk þess sem ég kíkti á skoska þinghúsið og einhver söfn.

En mestum tímanum eyddi ég inná kaffihúsum eða útá bekkjum lesandi bækur. Ég las nokkrar góðar bækur, sem ég ætla að fjalla um í sér færslu. Ég þurfti nefnilega bara að slappa af. Það hefur verið mikið að gera hjá mér í vinnunni (og margir spennandi hlutir sem ég get væntanlega talað um hérna á næstunni) þannig að það var fínt að slappa af. Fyrir mér þá er það frábært frí að geta slökkt á símanum, sest inná kaffihús með svart kaffi og lesið bækur.

Í Glasgow gerði ég ekki marga merkilega hluti. Verslaði einhvern slatta af fötum og labbaði um helstu staði í miðri borginni. Veðrið þar var líka leiðinlegra en í Edinborg og sennilega hefur það haft einhver áhrif. Ég tók nokkrar myndir og þær eru [hér](http://www.flickr.com/photos/einarorn/sets/72157601332575033/)

4 thoughts on “Skotlandsferð”

  1. Oh, hvað myndirnar frá Edinborg eru æðislegar! Þetta er algjörlega draumaborgin mín og ég get ekki beðið eftir að kíkja þangað í haust. 🙂 Líka skemmtilegt að heyra hvað Skotarnir eru almennilegir.

Comments are closed.