Spring Break

Ég er aðeins að ná mér eftir fríið. Þetta var alveg snilldar spring break.

Ég fór með flugi til Baton Rouge seinasta sunnudag. Þar var ég svo ásamt PR og Jónu heima hjá Genna og Söndru, sem búa í íbúð í Baton Rouge, nálægt skólanum þeirra, LSU. Við vorum í Baton Rouge í 4 daga. Borgin er nú ekkert til að hrópa húrra fyrir, þar sem það er ekki mikið líf fyrir utan háskólann. Við skoðuðum aðeins campusinn og svo miðbæinn, sem var alveg dauður.Við bættum þó upp fyrir þetta með heljarinnar djammi, öll kvöldin. Á miðvikudag leigðum við okkur bíl og náðum í Hildi. Á fimmtudeginum vorum við svo að rúnta með Genna um næsta nágrenni, Genni fór með okkur um túr um nálægan “trailer park”, sem var náttúrulega mjög fróðleg sjón.

Seinna um daginn tókum við svo rútu inní New Orleans.Borgin er alger hreinasta snilld. Hún er ólík öllu því, sem ég hef áður upplifað. Við gistum á hosteli á Canal stræti, sem var smá spöl frá Franska hlutanum, sem er aðalhverfið í New Orleans og eyddum við nær öllum tímanum okkar þar. Á daginn skoðuðum við hverfið, sem býr yfir gríðarlega skemmtilegum arkitektúr, ólíkur öllu, sem gerist í Bandaríkjunum. Á kvöldin var svo djammað alla nóttina á Bourbon Street, sem er sennilega frægasta djammgata í heimi. Gatan er ekkert slor. Öll kvöldin var gatan full af fólki og allir barir voru líka fullir. Ég hef aldrei séð annað eins framboð af áfengi. Það voru barir á svona fimm metra fresti og allir seldu ódýrt áfengi. Flestir voru að selja Hurricane, sem er stórhættulegur drykkur, sem er uppruninn í New Orleans, einhver blanda af Tequila, rommi, vodka og einhverjum ávöxtum.

Allir barir voru fullir af fólki alla nóttina og margir voru með “live” tónlist, þrátt fyrir að enginn hafi viljað spila Freebird, sem ég vildi ólmur heyra. Úti á götu var svo fullt af fólki að rölta á milli bara eða stelpur að sýna á sér brjóstin, þannig að það vara alltaf nóg að gerast. Veðrið var svo líka frábært, þannig að ég held að þessi ferð hafi verið eins góð og mögulegt er.