Suð-Austur Asíuferð 10: Feitir rassar og brennandi munkar

Ja hérna, ekki er ég fyrr búinn að setja fram þá kenningu að allar tölvurnar hérna í Hué hafi verið skildar eftir af bandaríska hernum í lok Víetnams-stríðsins, en að ég ramba inná þetta ljómandi fína netkaffihús, sem býður meira að segja uppá Windows XP í stað Windows 98, sem ég þurfti að notast við á síðasta kaffihúsi. Ég var í raun alveg við það að tapa geðheilsunni minni í morgun og hefði rokið út hefði sænska stelpan við hliðiná mér ekki verið svona æðislega sæt og skemmtileg þegar hún var að dásama það hvaða hægri menn væru orðnir ráðherrar í nýju ríkisstjórninni í Svíþjóð. Þessi tölva, sem ég er að nota núna er hins vegar svo æðisleg að ég er dauðhræddur um að eitthvað hræðilegt komi fyrir hana á meðan eg skrifa þetta. Þetta er eiginlega of gott til að vera satt!

Dagurinn í dag er búinn að vera dagur afslöppunar, enda hefur dagskráin undanfarna daga verið ansi þétt og dagskrá næstu daga verður það líka.


Ég kom hingað til Hué með lestinni frá Nha Trang í gærmorgun. Ég skráði mig inná hótel, skellti mér í sturtu og fór svo strax út. Ég fékk mér guide til að keyra mig á mótorhjóli um nágrenni borgarinnar, en þar eru nokkrir merkilegir hlutir. Við keyrðum meðfram Ilmvatnsánni og skoðuðum nokkur grafhýsi og búddista hof.

Hué var nefnilega einu sinni höfuðborg Víetnam þegar að landinu var stjórnað af Nguyen ættinni. Þess vegna er í sjálfri borginni mikið borgarvirki með höllum innaní og utanvið borgina eru svo grafhýsi dauðra konunga. Við byrjuðum á því að fara í virkt búddistahof, þar sem við fylgdumst með nokkrum munkum biðja hádegisbænirnar, síðan keyrðum við um sveitirnar og að grafhýsi Tu Duc, fjórða keisara Nguyen ættarinnar. Spennandi, ha? Grafhýsið er allavegana í alveg æðislegu umhverfi, umkringt síkjum og fallegum gróðri.

Síðasta stoppið var svo Thien Mu hofið, sem er eitt merkasta hofið í Víetnam. Þetta hof komst í alheimsfréttirnar árið 1963. Þá hafði stjórn Ngo Dinh Diem (sem var kaþólikki) staðið í nokkrum aðgerðum, sem takmörkuðu réttindi búddista í Suður-Víetnam. Þegar að þeim var bannað að halda uppá hátíðsdaga sinna, þá greip einn munkurinn, Thic Quang Duc til mótmælaaðgerða, sem vöktu mikla athygli. Hann keyrði á bílnum sínum (sem er til sýnis í Thien Mu hofinu) til Saigon þar sem hann settist niður á fjölfarinn gatnamót og kveikti í sér. Myndin var birt á forsíðum dagblaða um allan heim, en fólk af minni kynslóð þekkir myndina sennilega betur sem myndina utaná umslagi fyrstu plötu Rage against the Machine.

Þetta var flott ferð og gædinn minn var fínn, talsvert betri en sá síðasti, sem að leiðbeindi hópi ferðamanna um Cu Chi göngin. Sá var gjörsamlega heltekinn af því hversu útlendingar væru feitir, og þá sérstaklega hversu erlendar ferðastelpur væru með feita rassa. Endurtók hann þessi ummæli ansi oft fyrir framan hóp af útlendingum, sem innihélt m.a. allmargar stelpur með allfeita rassa. Tilgangurinn með þessu hjá honum var að benda sérstaklega á það hversu þröng Cu Chi göngin voru og hversu erfitt það væri fyrir útlendinga að komast í gegnum þau. Annar tilgangurinn var væntanlega að benda nærstöddum á það hversu grannar víetnamskar stelpur eru.

Og það er nefnilega nokkuð merkilegt, því ég hef ekki séð feita stelpu síðan ég kom hingað til Víetnam (fyrir utan útlenskar stelpur, auðvitað) . Ok, þetta eru kannski ýkjur. Ég hef eflaust séð einhverjar feitar stelpur, en hlutfall þeirra er svo fáránlega lágt að það er varla hægt að minnast á það. Ég myndi segja að svona 95% stelpnanna séu ekki grammi yfir kjörþyngd. Þetta er með hreinum ólíkindum. Kallar virðast eiga það til að hoppa aðeins yfir markið og grunar mig að það sé bjódrykkju um að kenna. En stelpurnar eru alveg ótrúlegar. Ég vil meina að þetta sé Pho að þakka, en Víetnamar borða Pho núðlusúpu í morgunmat. Ef að Vesturlandabúar myndu borða núðlusúpu með grænmeti í morgunmat í staðinn fyrir fokking Cocoa Puffs, þá væru offituvandamál ekki til staðar.

En þetta er svo sem ótengt efninu.


Í dag er semsagt afslöppunardagur, sem er ástæðan fyrir því að ég er í annað skiptið í dag á netkaffihúsi og að ég er að uppfæra þetta blogg annan daginn í röð. Ég svaf út til klukkan 10 (vá!!!), fór á netið og labbaði um hverfið. Endaði inná einhverjum bar, þar sem ég spilaði heillengi púl við víetnamska stelpu, sem ég kynntist þar. Fór svo og labbaði um borgarvirkið hérna í Hué og kíkti á markaðinn og lét innfædda öskra á eftir mér þær þrjár setningar, sem að allir hérna, sem vilja peningana mína, kunna: "Yo, money, yo" (betlarar), "Hey mistah, wanna buy something?" (sölufólk) og "hey, wanna moto/cyclo/marijuana?" (ökumenn).

Núna er planið að fara á morgun í smá ferð um "De-militarized zone", sem er/var herlausa svæðið í kringum fyrrum landamæri Suður- og Norður-Víetnam. Þar er fjöldinn allur af svæðum, sem tengjast Ameríkustríðinu. Um kvöldið er það svo enn ein 12+ tíma lestarferðin en ég á þá miða til Ha Noi, höfuðborgar Víetnam. Í Hanoi og nágrenni ætla ég að eyða um viku og meðal annars skoða Halong Bay. Þann 17. október á ég svo flugmiða frá Hanoi til Vientiane í Laos.

Skrifað í Hué, Víetnam klukkan 20.39

2 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 10: Feitir rassar og brennandi munkar”

 1. …og ekki má gleyma að nú er Cocoa Puffs aftur fáanlegt með sama gamla bragðinu!! Thank god!

  *Þetta komment er í boði General Mills

  hahahaha… fannst í alvöru einhver munur eða? freeeekar gamalt markaðstrikk… lame… en virkar.

  Annars myndi ég passa mig á þessum núðlusúpum, ég fæ ekki oft í magann en ég varð mjög slæm í eitt skiptið þar sem vatnið var líklegast ekki nógu vel soðið…

  Annars leiðinlegt að heyra að Shihanoukville hafi farið svona illa… hmm… :rolleyes:

 2. Jamm, ég er nú ekki svo mikill núðlusúpu-aðdáandi að ég hafi sérstakar áhyggjur af þeim.

  Varðandi Sihanoukville, þá er það almennt séð regla að það að vera veikur í rigningu í *strandbæ* er ekki ávísun á mikla skemmtun. 🙂

Comments are closed.