Suð-Austur Asíuferð 13: Punktar frá Laos

* Með því að vera kominn til Laos er ég búinn að afreka nokkuð, sem hefði fyrir um 20 árum þótt ansi merkilegt afrek. Það er, ég er núna búinn að heimsækja meirihluta allra kommúnistaríkja í heiminum: *Kúbu, Laos og Víetnam*. Ég á því bara tvö eftir: *Kína* og *Norður-Kóreu*.
* Síðan ég kom hingað til Laos hefur veðrið hérna í höfuðborginni Vientiane verið eins, 29 stiga hiti og glampandi sólskin. Ég á umtalsvert auðvelt með að venjast svona veðri.
* Laoskar stelpur eru ÆÐI
* Laoskum karlmönnum finnst EKKERT í þessum heimi jafnfyndið og að sjá mig sitja aftan á mótorhjóli, sem er stýrt af stelpum. Þetta hefur gerst oftar en einu sinni hérna í Vientiane og alltaf virðist þetta vekja jafn mikla kátínu. Það sem mér finnst æðislegt finnst þeim vera merki um skort minn á karlmennsku.
* Vientiane hlýtur að vera afslappaðasta höfuðborg í heimi. Að koma frá geðveikinni í Hanoi hingað til Vientiane er stórkostleg afslöppun. Ég fíla þessa borg…
* …sem gerir það að verkum að ég ætla að dveljast hérna framá sunnudag, sem er talsvert lengra en upphaflega var planað. Samblanda af næturlífi, skemmtilegu fólki á gistiheimilinu og fleiru gerir það að verkum að ég ætla ekki upp til Luang Prabang fyrr en á sunnudag.
* Af hverju í fokking ósköpunum eru Íslendingar byrjaðir að veiða hval aftur? Þegar ég er sammála bæði leiðara Morgunblaðsins og [Birni Inga](http://bingi.blog.is/blog/bingi/entry/46882/), þá er eitthvað verulega skrýtið í gangi. Þetta er svo slæm ákvörðun að það er ekki fyndið.
* Á flugvellinum í Vientiane þegar ég var að sækja bakpokann minn þá heyrði ég í kallkerfinu: “*Mr. Kristinsson, Kjartan*” Ég er 100% viss um að nafnið var Kristinsson og mér heyrðist fyrra nafnið vera Kjartan. Ef svo er, þá þykir mér það ansi mögnuð tilviljun að vera með öðrum Íslendingi á sama tíma á flugvelli í *Laos*.
* Gistiheimilið mitt heitir hvorki meira né minna en *Ministry of Education*. Á þeim ágæta stað er ansi skrautlegt samansafn af skemmtilegum karakterum. Einn þeirra hefur verið í Vientiane í þrjá mánuði án þess að hafa skoðað helsta túristastaðinn í borginni. Hann er ekki með vinnu hérna í Vientiane. Fróðir menn geta giskað á ástæður þessarar löngu dvalar.
* Eftir tvö kvöld í röð á stærsta næturklúbb Vientine þá veit ég núna hvernig frægum rokkstjörnum líður þegar þeir eru á næturklúbbum. Ég hélt að ég væri [ýmsu vanur](https://www.eoe.is/gamalt/2005/09/19/17.40.31) varðandi athygli frá kvenþjóðinni eftir ferðalög í Suður-Ameríku, en ekkert gat undirbúið mig undir Laos. Ekkert Það mun taka einhverjar vikur að ná sjálfstraustinu aftur niður á jörðina eftir þessa dvöl.

*Skrifað í Vientiane, Laos klukkan 15.09*