Suð-Austur Asíuferð 14: Come on, Beerlao, Beerlao!

(Þetta samtal átti sér stað á rútustöð í Vientiane, Laos. Einar Örn hefur setið inni í steikjandi heitri rútu í hálftíma, bíðandi eftir brottför. Fyrir utan gluggann birtist bílstjórinn)

>Einar Örn: Fyrirgefðu, en hvenær förum við af stað?
Laoskur bílstjóri: Klukkan tvö!
Einar Örn: En klukkan er korter yfir tvö!
Laoskur bílstjóri: Ó, ehm, þá förum við klukkan hálf þrjú!

(Rútan fór af stað tíu mínútur yfir þrjú)

Ég þekki allavegana eina stelpu, sem myndi gjörsamlega elska það afslappaða viðhorf sem Laos búar hafa til þess hvort eitthvað sé gert á réttum tíma, eða bara yfir höfuð.

Laosbúar eru með merkilega rólegir og það að koma hingað eftir að hafa verið í Hanoi og restinni af Víetnam er með ólíkindum afslappandi. Víetnamar eru nefnilega sölumenn og kapítalistar (það að ætla að reyna að breyta Víetnömum í kommúnista var afskaplega vanhugsað). Allir eru að reyna að ná sér í pening. Ef þú gengur í gegnum markað í Saigon þá er alls ekkert óeðlilegt að fólk rífi í þig og dragi þig bókstaflega að sölubásnum. Ef þú byrjar að prútta, þá endar það prútt annaðhvort með því að þú kaupir hlutinn, eða þá að þú verður með eitt stykki Víetnama hangandi á öxlinni á þér. Og á götum úti þá nota Víetnamar flautuna einsog að hún sé eitthvað töfratæki sem að spari bensín.

Ekki taka það sem svo að ég líti á þetta sem galla í Víetnömum eða sé að tala niður til þeirra, því ég hef *gríðarlega* mikið álit á víetnömsku þjóðinni. En þessar lýsingar eru bara til að setja þetta í samhengi við Laos.

Hérna í Laos eru menn nefnilega ekki enn búnir að fatta flautuna (Guði sé lof) og þeim er nokk sama hvort þú kaupir eða ekki. Ef þú byrjar að prútta og labbar í burtu þá snúa þeir sér bara að öðru og virðist vera nokk sama um viðskiptin. Fólk virðist labba hægar hérna og það er einhvern veginn bara allt miklu, miklu afslappaðara. Gamalt máltæki segir að Víetnamar rækti hrísgrjón á meðan að Laosbúar horfi á þau vaxa.

Laos á líka þann ótrúlega óheppilega heiður að vera *mest sprengda land í heimi*. Það er, miðað við höfðatölu þá hefur hvergi verið varpað jafnmiklu af sprengjuefni og á Laos.

Eftir Genfar-ráðstefnuna þá var sæst á að Laos yrði hlutlaust land í Víetnamstríðinu. Þrátt fyrir það þá héldu Norður-Víetnamar áfram að vera í Laos og var m.a. hluti af Ho Chi Minh slóðinni á laosku landsvæði.

Því byrjuðu Bandaríkjamenn að þjálfa laoskar sveitir til að berjast á móti Víetnömum innan Laos og fengu þær til þess ótrúlegan stuðning úr lofti frá bandarískum flugvélum. Tölfræðin er ótrúleg. Bandaríkjamenn flugu 580.944 flugferðir yfir laoskt landsvæði. Sprengjumagnið sem var dælt yfir Laos jafngildir því að Bandaríkjamenn hafi varpað sem svarar **einum flugvélafarmi af sprengjum á átta mínútna fresti, 24 daga á sólarhring í níu ár!!** Á eitt land, þar sem núna búa 6 milljónir manns!

Þetta jafngildir því að Bandaríkjamenn hafi varpað yfir **500 kílóum af sprengjuefni á hvern einasta mann, konu og barn í Laos**. Og ekki síður merkilegt er að Bandaríkjamenn viðurkenndu aldrei að þeir stæðu í hernaði í Laos og því var þetta stríð seinna kallað “secret war”. Það er ótrúlegt að lesa um þetta. Á hverju ári deyja enn tugir Laosbúa (mest börn) útaf ósprungnum sprengjum Bandaríkjamanna, sem eru útum allt í Austur-Laos.

Allavegana, í Vientiane skoðaði ég Þjóðminasafn Laos, sem hét áður Byltingarsafnið. Það safn er ennþá í talsverðum byltingarstíl, þar sem mjög er einblítt á baráttu Pathet Lao fyrir völdum, en kommúnistar komust til valda hérna árið 1975. Í Vientiane skoðaði ég líka [Pha That Luang (sjá mynd)](http://www.flickr.com/photos/einarorn/274460967/), sem er eitt helsta merki Laos.

Það er varla að ég þori að tala um djamm á þessari síðu. Ég hef gert það í tveimur pistlum af 14 og samt fæ ég email frá mömmu, þar sem hún heldur því fram að ég sé “alltaf” á djamminu. Þannig að ég ætla að sleppa frekari djammsögum frá Vientiane, sem mun um leið gera það að verkum að ferðasagan frá Vientiane verður ekki ýkja spennandi.

Ég er núna staddur í Vang Vieng, sem er nokkurn veginn mitt á milli Vientiane og Luang Prabang. Þetta er pínkulítill bær, umvafinn gríðarlega fallegum fjöllum sem eru full af hellum. Í gegnum bæinn rennur einnig á, sem er aðalaðdráttarafl bæjarins. Hérna eru nefnilega reknar leigur, sem leigja út gamlar blöðrur úr traktorsdekkum. Túristar eru svo keyrðir 4 kílómetra norður af bænum uppað ánni, þar sem blöðrurnar eru svo notaðar til að fljóta með túrista niður ána. Ég gerði þetta í gær og þetta var svo æðislegt að ég ákvað að lengja dvöl mína hérna um einn dag.

Beisiklí þá liggur maður bara á blöðrunni í 30 stiga hita og sól á fallegri á með fjallasýn til allra hliða og flýtur rólega niður ána. Svo á svona hálftíma fresti siglir maður framá bar, þar sem maður getur keypt sér Beerlao og leikið sér að stökkva útí ána úr alls kyns rólum og tækjum. Ég gæti svarið það að ég gæti gert þetta á hverjum degi í heila viku – en því miður hef ég ekki nægan tíma til þess. Ég fer þó í eina ferð niður ána eftir rúman klukkutíma!

Á morgun fer ég til Luang Prabang, þar sem ég ætla að vera í nokkra daga og svo er planið að koma mér niður til Bangkok til að undirbúa heimferð.

*Skrifað í Vang Vieng, Laos klukkan 11.13*

4 thoughts on “Suð-Austur Asíuferð 14: Come on, Beerlao, Beerlao!”

  1. miiiig laaaaaangar til Laaaos! Elska þetta land! 🙂 Var síðast í Vang Vieng um jólin, það var frekar spes að fljóta niður ána þarna á jóladag! 🙂

  2. Ohhhh vá hvað mig langar aftur til Laos þegar ég les þetta 🙂 Ég er sannfærð um að Beerlao sé besti bjór í heimi hann var allavega drukkinn óspart á meðan dvölinni stóð 🙂

  3. hæ… þekki þig ekkert en það er rosa gaman að lesa um ævintýrin þín, góð skemmtun í rólega lífinu á Bifröst:) takk…

  4. Oddný, takk kærlega 🙂

    Cilla og Pálína, gaman að þetta veki upp góðar minningar. Sammála með Beerlao, það er afbragðsbjór, ekki að maður eigi marga aðra valkosti hérna. Veit samt ekki alveg hvort ég vildi vera á blöðrunni á jóladag, en flesta aðra daga ársins hljómar það vel 🙂

Comments are closed.