Suður-Asíuferð 1: Mumbai

Það er búið að vara mig svo oft við Mumbai og Indlandi að það kom mér eiginlega á óvart hversu ekki-hræðileg Mumbai er. Hérna er ekki heimsins versta umferð og þetta er ekki heimsins ljótasta borg og svo framvegis. Langt því frá.

Mumbai er auðvitað borg ótrúlegra andstæðna. Hér býr ríkasta fólkið á Indlandi í hverfum þar sem fasteignaverð er líkara New York en restinni af Indlandi. Hérna er Bollywood iðnaðurinn og Bollywood stjörnurnar búa hér og borða á fínum veitingastöðum og skemmta sér á næturklúbbum.

Og hérna eru líka stærstu fátækrahverfi í heimi. Yfir 55% allra íbúanna búa í fátækrahvefunum, svipuðum þeim og gerð voru fræg í Slumdog Millionaire. Það þýðir að yfir 10 milljón íbúa búa í hreysum án aðgangs að skólpi og rennandi vatni. Borgin sjálf er talin vera næst fjölmennasta borg í heimi með um 14 milljón íbúa, en á borgarsvæðinu öllu búa sennilega yfir 20 milljón manns.

* * *

Við Margrét komum hingað á þriðjudaginn eftir að hafa millilent í Zurich á leið okkar frá Stokkhólmi. Strax á flugvellinum byrjaði borgin að koma mér á óvart. Skipulagið þar var einsog best gerist, engir öskrandi leigubílstjórar, heldur allt skipulagt og enginn gat okrað á þreyttum ferðamönnum í nýju landi. Við gistum á sæmilegu hóteli í Colaba hverfinu, sem er í suðurhluta borgarinnar.

Mumbai var áður á nokkrum eyjum, sem hafa með árunum verið tengdar saman með landfyllingum gerðum að hluta til úr rusli. Colaba hverfið er syðst í borginni. Fyrir sunnan Colaba er svo Arabíuhafið, þannig að borgin getur bara vaxið í eina átt – norður. Colaba er túristahverfi og nokkuð vel stætt miðað við önnur hverfi Mumbai. Við höfum þó náð að skoða nokkrar hliðar á borginni síðustu daga.

Við eyddum fyrsta deginum í að skoða frægustu hlutina hérna í Colaba. Fyrst Gateway of India, minnismerki sem að Bretar reistu fyrir um 100 árum og þar við hliðiná Taj Mahal hótelið, sem var miðpunktur hryðjuverkaárásanna á Mumbai árið 2008. Einsog við var að búast voru göturnar í kringum hótelið að hluta til lokaðar og líktist aðkoman að mörgu leyti lúxuhótelum í Mið-Austurlöndum og Indónesíu. Hótelið er þó enn ótrúlega glæsilegt þarna við sjóinn.

Við Gateaway of India var nokkuð skemmtilegt að vera. Þetta er mikill samkomustaður Mumbai íbúa og þótt að flestir túristar fari þarna þá er hlutfall túrista svo lágt í borginni að við vorum þar mjög áberandi. Margrét leyfði æstum Indverjum að taka myndir af sér með þeim og sumum fannst meira að segja spennandi að fá mig með sér í fjölskyldualbúmin. Þetta var allt mjög skemmtilegt og móttökur Indverja frábærar.

Við skoðuðum svo Prince of Wales safnið, sem að heitir núna einhverju hindúsku nafni, sem ómötulegt er að muna eða bera fram. Hægri flokkurinn Shiv Shena hefur keppst við það að breyta öllum gömlum breskum nöfnum í hindúsk nöfn. Það skýrir hvers vegna borgin heitir núna Mumbai en ekki Bombay einsog hún gerði fyrir 1995. Þetta þýðir einnig til dæmis að “Prince of Wales safnið” (fínt nafn, auðvelt að muna) heitir núna “Chhatrapati Shivaji Maharaj Vastu Sangrahalaya”, sem ég get hvorki munað né borið fram.

Um kvöldið borðuðum við svo á Leopold’s Café, sem er nokkuð þekkt kaffihús hérna í Colaba hverfinu. Bæði er það þekkt sem aðalkaffihúsið í bókinni Shantaram og svo var Leopold’s líka einn þeirra staða, sem ráðist var á í árásunum 2008. Enn má sjá skotgöt á veggjunum og fyrir utan staðinn var brynvarður herbíll. Maturinn var góður, þótt að Rough Guide hafi sagt að hann væri bragðlítill og of dýr. Ef þetta var bragðlítill matur, þá þurfum við ekki að hafa áhyggjur af framhaldinu.

Í gær skoðuðum við aðal-lestarstöðina, sem er gömul og falleg bygging og keyptum rútumiða til Aurangabad, sem er næsta stopp.

Aðalmálið í gær var þó ferð í Dharavi fátækrahverfið í úthverfi Mumbai. Fyrst fannst mér það ekki hljóma neitt sérstaklega spennandi að fara í túr um fátækrahverfi. Ég sá fyrir mér túr þar sem við myndum gapa útúr loftkældri rútu á fólkið sem væri að betla í kringum mann og við myndum taka myndir af eymdinni. Ég hafði lesið um slíka túra í Rio de Janeiro og fannst þeir ekki spennandi. En nokkrir höfðu mælt með þessum túr og við létum af því verða. Túrinn er skipulagður af hjálparsamtökum í Dharavi hverfinu. Þar vinnur fólk sem þar býr og allur peningurinn, sem kemur inn, fer í að byggja skóla fyrir hverfið.

Dharavi hverfið er magnaður staður. Á um 2 ferkílómetra svæði býr og vinnur 1,1 milljón manns. Nánast allir eru þar með vinnu við að endurvinna rusl. Gríðaregt magn af plasti og öðru rusli er flutt í hverfið, þar er það sorterað, þurrkað og svo að lokum brætt í einingar, sem eru seldar. Við fengum að sjá alla vinnsluna og þetta var merkilegt. Í túrnum var bannað að taka myndir og fólkið hafði meiri áhuga á að vinna vinnuna sína en því að pæla í gestunum. Það voru helst litlu börnin, sem voru æst í að heilsa okkur. Dharavi hverfið var notað sem tökustaður í nokkrum atriðum í Slumdog Millionaire og þaðan komu nokkur af litlu börnunum, sem léku í myndinni. Við skoðuðum líka híbýli fólks, sem voru með ólíkindum lítil. Heilu fjölskyldurnar bjuggu í herbergjum, sem voru ekki mikið stærri en tveir fermetrar.

Í dag tékkuðum við okkur útaf hótelinu og skoðuðum svo Crawford markaðinn, gamla skrifstofu Gandhi og löbbuðum svo um Chattoway ströndina. Á eftir er það svo næturrúta til Aurangabad, þrátt fyrir að ég hafi fengið heillandi boð bæði um að koma á sýningu á Bollywood mynd í kvöld og frá öðrum aðila boð um að leika aukahlutverk í *tveimur* myndum á morgun. Frá Aurangabad ætlum við svo að skoða Ajanta og Ellora hellana.

*Skrifað í Mumbai, Indlandi klukkan 18:32.*

2 thoughts on “Suður-Asíuferð 1: Mumbai”

  1. Ég bara trúi ekki að þið hafið ekki skellt ykkur í aukahlutverkin 🙂 Njótið ferðarinnar.

Comments are closed.