SUS-arinn ég?

Hmmm…. hvað í ósköpunum hef ég gert af mér til að verðskulda það að vera kallaður Sus-ari á þessari síðu?? (á lista yfir blogg vinstra megin)

Rosalega er komin mikil reiði í skrif Sverris Jakobssonar. Hann er svo reiður að hann fellur í þann fúla pytt að fara að uppnefna menn. Það er aldrei sniðugt.

Annars er bara eitt, sem fer dálítið í pirrurnar á mér þegar ég les síðuna hans, sem ég geri alloft. Það er að hann vísar nánast aldrei í greinarnar, sem hann er að mótmæla. Ég skil ekki almennilega af hverju hann gerir það ekki. Til dæmis í dag þá er hann að skjóta á einhverja hægrimenn, sem eru að verja viðbjóðinn Augusto Pinochet (ha ha!!, ég uppnefndi Pinochet, en hann á það líka skilið). Ég hefði nefnilega áhuga á að vita hvaða menn eru að verja gjörðir hans, eða gera lítið úr illvirkjum hans. Hvers konar rökræðuþrot eru menn komnir þegar þeir reyna að draga úr voðaverkum harðstjórans frá Chile. Mér dettur í hug að þetta sé eitthvað tengt því að einhver hafi verið að verja Bandaríkjamenn, en ég veit ekki (getur einhver bent mér á þessi skrif).

Jamm, það minnir mig á það. Það er alveg fáránleg einföldun að segja að bandaríska leyniþjónustan hafi komið Pinochet til valda. Og hananú!

6 thoughts on “SUS-arinn ég?”

 1. Einföldun, já, en samt ekki úr lausu lofti gripin. Sem betur fer átta flestir sig á því núna að þau afskipti voru ekki til góðs.

  Það er líklega betra að hafa broskarl með þegar maður er að deila við Mikael Torfason svo það sé ekki tekið of alvarlega. Að flestu leyti er ég mikill aðdáandi hans.

  En ég get alveg játað að þetta fíflatal okkar er frekar fíflalegt. 😉

  Ég var nú að pirra á mig á fleiri en einum en kannski er það fyrst og fremst Björn Bjarnason. Hann passar þó á því að kvarta ekki sjálfur yfir því að Pinochet hafi fengið vonda pressu en vísar samt í slík ummæli með velþóknun.

  Það er hálfþreytandi að geta ekki haft aðrar skoðanir á utanríkismálum en Björn án þess að vera sakaður um að vera handbendi Stalíns. Sumir yngri menn apa þetta svo eftir honum.

  Eða þetta tal um andameríkanisma. Hvað með Bandaríkjamenn sem mótmæla bandarískri utanríkisstefnu? Eru þeir and-ameríkanar?

  Svo er auðvitað til hinar öfgarnar, þegar maður er sakaður um að vera ekki nógu mikill andameríkani og vera jafnvel hræsnari fyrir að horfa á bandarískar kvikmyndir um leið og maður mótmælir bandarískri utanríkisstefnu.

  Að minni hyggju fer það ágætlega saman. Bandarísk menning á ekki að gjalda fyrir George W. Bush.

 2. Hahaha!

  Þú ert með hægrisinnaða síðu, sættu þig bara við það, það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar maður les skrif þín þessa dagana er “hægrimaður”. Þegar maður hugsar “hægrimaður” er “Sus-ari/Heimdellingur” skammt undan. Þannig er nú það.

  Síðan mín er víst í Samfylkingunni hef ég heyrt, þannig þakkaðu bara fyrir 😉

  Mér finnst það reyndar alltaf jafn merkilegt að þú skulir EKKI vera í SUS :tongue:

 3. Jamm, það má vel vera að skrif mín séu hægrisinnuð. Ég tel mig þó vera nokkuð langt frá því að vera í hópi með til dæmis Stefáni Einari og Sigurði Kára, sem eru á þessum sama lista 🙂

  Varðandi það sem Sverrir skrifar, þá er eitt í öllu þessu, sem mér finnst jaðra við and-ameríkanisma. Það er þegar menn virðast nánast eingöngu finna galla í utanríkisstefnu Bandaríkjanna. Stefna Bandaríkjamanna er gölluð einsog utanríkisstefnur allra annarra landa. Sumir friðarsinnar virðast hins vegar bara finna tilefni til að mótmæla þegar Bandaríkjamenn eiga í hlut. Það gæti, að mínu mati, flokkast undir and-ameríkanisma.

  Bandaríkin eru oft í ómögulegri stöðu, þar sem þess er ávallt krafist, til dæmis af Evrópuríkjum, að þeir geri eitthvað í öllum málum alls staðar í heiminum. Sama hvort þeir gera eitthvað eða ekkert, það verða alltaf einhverjir, sem munu hafa ástæðu til að mótmæla. Þetta er mun auðveldara fyrir t.d. Frakka, sem geta látið lítið fyrir sér fara í umdeildum málum en svo þegar vilji almennings í heiminum er skýr, þá allt í einu kemur riddarinn Chirac fram og lætur einsog hann sé rödd skynseminnar í heiminum (er þetta ekki sami Chirac og hóf að nýju tilraunir á kjarnavopnum?).

  Annars er ég sammála þessu hjá Sverri varðandi And-ameríkanisma. Menn mega ekki rugla saman fólki og menningu, við stefnu stjórnvalda. Jafnvel þótt að við búum í lýðræði, þá er ekki hægt að setja alla undir sama hatt og segja að menn hafi kosið þetta yfir sig. Þannig er ég viss um að Sverrir myndi ekki sætta sig við ef að hann yrði settur undir sama hatt og Davíð og Björn Bjarna varðandi afstöðuna til Íraks, bara útaf því að þeir þrír eru Íslendingar.

 4. Ég er að spá í skrifin hans Ágúst. Ég þykist greina glettni en…

  Af hverju finnst þér að EOE sé eyrnamerktur (brennimerktur) sus-ari af skrifum sínum.

  Frá mínum bæjardyrum er það a.m.k. ekki þannig. Ég sé hagfræðing skrifa um hagfræði, þjóðmál…. já og lífið… (ef lífið er ekki hagfræði og þjóðmál 😉 ).

  For the record…

  Mér finnst aldrei neitt merkilegt að þú skulir EKKI vera í SUS

 5. Á kaldastríðsárunum var alltaf sagt: Af hverju mótmælið þið ekki yfirgangi Sovétríkjanna? En það var að vísu yfirleitt gert líka.

  Undanfarin 10 ár hafa Bandaríkin haft sérstöðu vegna yfirburða sinna og því eðlilegt að skotin beinist einkum að þeim. Þrjú stríð á seinustu fjórum árum hlýtur nú líka að teljast vel yfir meðaltali, hjá hvaða þjóð sem er. Myndi fólk ekki hafa áhyggjur ef einhver önnur ríki væri alltaf að standa í stríðum? Er það ekki ástæðan fyrir því að utanríkisstefnu Bandaríkjanna er oftar mótmælt en t.d. utanríkisstefnu Belgíu eða Sviss? Annars vorum við í SHA að samþykkja harðorða ályktun gegn dönskum stjórnvöldum um daginn, sem enginn tók eftir vegna þess að þá hófst stríð í Írak.

  Afskipti Bandaríkjanna eru auðvitað ekki alltaf til ills. Inngrip þeirra í Suezdeiluna 1956 var tiltölulega vel heppnað. Ekki mótmæltu heldur margir þegar þeir endurreistu löglegan forseta Haiti 1994 (hvað svo sem segja má um frammistöðu þess manns síðar). Ansi oft má hins vegar segja hið gagnstæða, þar sem aflið er látið ráða en ekki skynsemin.

  Annars er ágætt að verða var að skoðanir “hægrimanna” á Íraksstríðinu eru skiptar. Þeir hafa til þessa verið heldur einlit hjörð og yfirleitt frekar skilyrðislaust með BNA. Sumir þeirra ætlast greinilega til þess að þetta haldi áfram endalaust (aftur vísa ég á Björn).

  En núna eru margir farnir að sjá að Bandaríkjaher er eins og hver önnur ríkisstofnun, sem þenst sjálfkrafa út og býr sér til ný verkefni þegar hann ætti að vera skorinn niður (t.d. á friðartímum). Á þessum nótum er hann núna gagnrýndur af mörgum amerískum friðarsinnum.

 6. Það fer auðvitað ekki saman að vera sæmilega heilbrigður á líkama og sál …og að vera SUSari

Comments are closed.