Tilviljanir

Fyrir einhverjum vikum var ég að tala við vin minn um stelpur. Hann var að segja mér frá því hvernig hann saknaði þess að vera skotinn í stelpu. Hann talaði um hvernig það væri það skemmtilegasta í heimi – að þekkja einhverja stelpu, sem maður væri skotinn í og gæti elst við – og að það versta í sínum kvennamálum væri einfaldlega sú staðreynd að hann hefði enga til að eltast við þessa dagana.

Ástæðan fyrir þessum ummælum hans var sú að ég var að segja frá eltingaleik mínum við eina stelpu. Ég hafði nefnilega verið pínu skotinn í stelpu alveg síðan í júlí. Stelpu, sem ég smám saman kynntist og varð skotnari í. Í margar vikur eltist ég við hana, beið eftir henni þegar hún var erlendis, og reyndi margoft að fá hana á stefnumót með mér.

Sem tókst jú á endanum, en á endanum gekk þetta ekki upp. Það er því dálítið furðulegt að hafa núna ekki lengur neinn til að eltast við.

* * *

Málið er að öll þessi sambandsmál virðast vera svo tilviljanakennd að ég get ekki gert að því að flokka stóran hluta af þeim undir hreinræktaða heppni eða óheppni. Sum samböndin mín virðast spretta uppúr engu. Einu sinni fattaði að ég var bálskotinn í bestu vinkonu minni.  Og eitt besta sambandið mitt spratt uppúr því að stelpa, sem les þessa bloggsíðu, vildi kynna mig fyrir vinkonu sinni. Og svo hafa sambönd byrjað á því að ég hafi bókstaflega rekist á stelpur á skemmtistöðum bæjarins.

Þetta virðist allt svo tilviljanakennt að stundum finnst manni einsog það sé vel mögulegt að hlutirnir muni aldrei ganga upp. Sum kvöld finnst mér allar leiðir standa opnar, önnur kvöld engar. Og þegar ég hitti réttu stelpurnar þá virðist það svo oft vera á vitlausum tíma, í vitlausu landi eða á vitlausu tímabili í þeirra eða mínu lífi. Þetta virðist allt svo tilviljanakennt.

Og það er eflaust ástæðan fyrir því að ég eyði svo miklum tíma í að hugsa um þessi mál. Ég veit að ef ég vinn ötullega í Serrano þá mun staðurinn batna og viðskiptin aukast. Og ég veit að ef ég held áfram að borða rétt og mæta í ræktina klukkan hálf sjö á morgnana, þá mun ég koma mér í það form sem ég vil. Það er einhver lógík í þessum málum.

En með stelpur, þá er lítið sem maður getur gert, nema hugsanlega að bíða eftir því að eitthvað gerist uppúr þurru. Jú, ég get eflaust gert mig að betri manni – og ég er alltaf að reyna það. Ég get reynt að líta betur út, ég get lært meira inná sjálfan mig, ég get lært að dansa, ég get lesið til að öðlast frekari þekkingu, ég get ferðast meira til að eiga fleiri sögur til að segja, ég get endalaust hugsað um það hvernig ég get verið betri maður…

En það er samt engin trygging fyrir því að maður finni réttu stelpuna. Kannski verður þetta bara endalaust samansafn af stuttum samböndum, sem skilja lítið eftir sig. Ég get verið eins góður einstaklingur og ég get, en það verður aldrei nein trygging fyrir því að finna réttu manneskjuna. Það vantar alltaf þetta tilviljanakennda – að einhver kynni mig fyrir nýrri stelpu, að ég sjái eitthvað sem ég sé ekki í dag, eða þá að ég rekist á einhverja stelpu, hvort sem það er á dansgólfinu á Ólíver eða á gistiheimili í einhverju ókunnugu landi. Fyrir svona skipulagðan einstakling einsog mig, þá er oft erfitt að sætta sig við það hversu lífið er tilviljanakennt.

Þetta er kannski ástæða þess að það er oft fátt um svör þegar fólk spyr mig af hverju í ósköpunum að strákur einsog ég sé ekki genginn út. Þegar ég fæ næst þessa spurningu (sem verður eflaust einhvern tímann í þessari viku), þá get ég allavegana vísað á þessa færslu. 🙂

13 thoughts on “Tilviljanir”

  1. Já eitt er víst að ekki er hægt að plana ástina, þessi x-factor sem kveikir neistann er órannsakanlegur – eða það vil ég að minnsta kosti halda 🙂 mun rómantískara.

    Oft er sagt að maður finni ekki ástina fyrr en maður hætti að leita, en getur það verið vegna þess að þá hættir maður að mæla fólk við jöfnuna sem maður hefur búið til í höfðinu á sér? hættir að plana og leyfir lífinu þess í stað að koma sér á óvart – lifir í núinu 🙂

    Ekki veit ég það, en þar sem þú ert enn undir fimmtugt þá geturðu huggað þig við þetta: http://gudrunarbirnu.blog.is/blog/gudrunarbirnu/entry/354205/

  2. Já, þessi regla er auðvitað mikil snilld. Annars skildi ég það alltaf þannig að reglan næði bara í aðra áttina. Það er niður í aldri fyrir karlmenn, en upp í aldri fyrir kvenmenn. 🙂

  3. Virkilega góð lesning og þetta meikar allt svo mikinn sens hjá þér.

    En þessi formúla ( ( aldur / 2 ) + 7 ) meikar ennþá meiri sens.

  4. Hahah, ég var einmitt að blogga um ekki svo ósvipaða hluti í sambandi við þessa formúlu ekki alls fyrir löngu.

    Skemmtileg bloggfærsla samt, fékk mann til að pæla.

  5. við erum búin að vera netkærustupar í amk 4 ár ! ég fann færslu frá 15. des 2003 þar sem ég kallaði þig netkærasta

    mér finnst það nokkuð vel af sér vikið hjá okkur. sérstaklega miðað við tilviljanir og aðstæður og allt þetta sem þú nefnir;)

  6. Já 🙂

    Kannski er þetta orðinn einhver kækur í rituðu máli hjá mér. Fattaði þetta ekki fyrr en ég las yfir kommentin mín hérna.

  7. skoo þú er náttla þegar búinn að finna þér eiginkonu..þannig næstu 10 árin getur þú bara verið að leika þér og þarft ekkert að spá í þessu..einfalt!..

Comments are closed.