Tölvan mín deyr

Síðustu 3 ár hef ég notað sömu fartölvuna, 15 tommu Macbook Pro (sjá mynd). Ég hef notað hana í vinnunni á hverjum einasta degi í marga klukkutíma og hún hefur reynst mér alveg fáránlega vel – hún hefur aldrei bilað (ég hef skipt um batterí í henni einu sinni) og eftir að ég setti upp Snow Leopard á henni og hreinsaði hana algjörlega í september þá hefur hún verið alveg fáránlega spræk. Helsti galli hennar var að rafhlaðan entist bara í um klukkutíma, sem er auðvitað fáránlega stutt.

Fyrir akkúrat viku var ég á leið heim úr vinnunni og hafði eftir smá áfengissmökkun þar tekið með mér flösku af margaríta mixi til að prófa betur heima (þetta var í alvöru vinnutengt). Það fór ekki betur en svo að mixflaskan opnaðist í töskunni og yfir tölvuna mína flæddi um líter af margarítu mixi. Ég hljóp heim og reyndi að þrífa hana, en það fór svo að ég gat ekki kveikt á henni aftur. Ég fór því með hana í viðgerð á mánudaginn í Apple búð nálægt skrifstofunni minni, en í dag fékk ég svo símtal um að tölvan væri beisiklí ónýt. Skjárinn er ónýtur, lyklaborðið, minnið og eitthvað fleira (einhver sænsk tækniorð sem ég skildi ekki alveg). Viðgerðin átti að kosta umtalsvert meira en ódýrasta fartölvan frá Apple kostar ný útúr búð. Gögnunum tókst þó að bjarga, enda var harði diskurinn í lagi.

Því er nú komið að því að kaupa nýja fartölvu í fyrsta sinn í þrjú ár. Ég er auðvitað búinn að vera forfallinn Apple nörd megnið af mínu lífi þannig að annað kemur ekki til greina. Ég þekki auðvitað allar tölvurnar frá þeim og hef verið að hugsa síðustu mánuði um að kannski væri kominn tími til að uppfæra tölvuna, aðallega vegna þess hve batteríin í nýju vélunum eru orðin góð.

Ég er nokkuð ákveðinn í að kaupa mér Macbook Pro – ekki Air. Ég nota tölvuna 99% bara í vinnunni og myndir og slíkt er á heimilistölvunni, þannig að ég hef svo sem ekki mikla þörf fyrir mikinn kraft – en ég bara er ekki að fíla að Macbook Air sé bara með 2gb af minni. Ég hef einnig verið að velta fyrir mér þeim möguleika að setja Flash drif í staðinn fyrir venjulegan harðan disk. Ég hef lesið nokkuð mikið um það og þeir sem hafa gert slíkt segja að það sé algjör bylting því að forrit hlaðist upp á sekúndubrotum. Þar sem þetta er bara vinnutölva og engar myndir eða tónlist á henni þá ætti mér að nægja 128gb (það er líka stærðin á disknum á ónýtu tölvunni og það var í fínu lagi – held að aðeins 50gb hafi verið full). Mér sýnist þó Apple selja sín SSD drif ansi dýrt. Ég sá strax Intel X25-M 160gb drif á um helmingi lægri upphæð en Apple selur sitt SSD drif. (ég mislas verðin hjá Apple – þau voru ekki svo slæm).

Núna er ég aðallega að velta því fyrir mér hvort ég eigi að kaupa tölvu 13″ eða 15″ skjá. Ég hef vanist að nota 15″, en sú tölva er stærri og þyngri (2,5kg vs 2) en 13″ vélin og þar sem ég er með tölvuna á mér mestallan daginn (og tek hana heim með mér) þá skiptir þyngdin máli. Kostur við stærri tölvuna er líka að hana er hægt að fá með möttum skjá, sem ég held að ég muni fíla betur (gamla tölvan var með möttum skjá).

8 thoughts on “Tölvan mín deyr”

  1. Sæll,
    Les stundum bloggið þitt. Rakst fyrst inn á það í gegnum kop.is.
    Ég legg nú ekki í vana minn að kommenta hjá fólki sem ég kannast ekki við.
    Ég var einmitt í þínum sporum fyrir tæpum 2 vikum. Macbook Pro tölvan mín til 3 ára gaf sig. Ég var einmitt að hugsa um að fara í 13″ tölvuna til að hafa hana léttari í vinnuna. Þegar á reyndi og ég var kominn með hana þá gat ég ekki sætt mig við það að hafa ekki stærri skjá. Maður heldur að þetta muni ekki miklu en þegar ég var að vinna í emailum og skjölum og fleiri gögnum á sama tíma þá skipta þessar 2 tommur máli.
    Ég fékk að skipta tölvunni út fyrir 15″ tölvuna og sé ég ekki eftir því. Mér finnst einnig 13″ tölvan pínu svona kvennleg. Mér fannst ég aldrei vera með Macbook Pro.

  2. Ef þú kemur til með að sitja við tölvuna allan daginn, þá mæli ég ekki með 13″.. Þetta segi ég sem 13″ eigandi sjálfur

  3. Ég á sömu vél og þú varst að kála og ég er sammála því að hún er/var stórfín. Vinnuvélin – sem ég er farinn að nota almennt – er nýja módelið af því sama (ss. 15″ pro unibody). Hér eru skoðanirnar mínar af skiptunum:

    Hjörin á skjánum er slöpp (http://www.fixthehinge.com). Ég er eiginlega alveg viss um að ég eigi eftir að taka úr mér framtennurnar á þessu einhvern daginn – það er alveg skerí þegar skjárinn kemur allt í einu fljúgandi á móti manni af því að maður er að færa sig til í sófanum.
    Nýji gloss skjárinn er vondur. Það er oft ekki hægt að vinna með ljós fyrir aftan sig. Ég er reyndar ekki frá því að þetta spari batteríið því að það þarf minna ljós til þess að sjá hvað maður er að gera (ég er á lægstu stillingu núna). Ég þykist vita (þú ert með twitter) að þú vinnir stundum á vélina á kaffihúsum og þessháttar og þá fer allt í einu að skipta þig máli að þú finnir sæti sem er ekki með glugga fyrir aftan þig. Ég mundi taka mattann skjá í dag (var ekki í boði þá).
    Ég er að lenda í þessum bögg: Hljóð-út rásin sendir út háværa smelli (http://discussions.apple.com/thread.jspa?threadID=1394839). Þettta getur verið pirrandi en er þó þolanlegt þegar ég er með headphones tengda beint í rásina. Hins vegar er þetta alveg hræðilegt þegar hljóðið er að fara í gegnum magnara. Ekki stórt atriði – en þetta er ekki svona á gömlu vélinni.
    ATH: Ef þú notar auka skjá þá þarftu að kaupa millistykki. Ekkert fylgir með lengur, ekki fjarstýring, ekki millistykki.
    Unibody hönnunin er fín og vélin er léttari og bara meira solid á margan hátt. Það góða sem ég hafði lesið í umsögnum stóðst frekar vel.
    Ég vandist trackpaddinum nánast strax og lyklaborðið er tvímælalaust betra.

    Að öllu öðru leiti er þetta mjög svipað experience og á gömlu vélinni minni/þinni. Ég reikna fastlega með því að ef þú tekur 15″ mattann skjá, hvort sem þú tekur SSD eða ekki, þá verðir þú kátur með vélina því að hún verður eins og sú gamla, nema betri. 🙂

  4. Ég lenti í svipuðum aðstæðum fyrir 2 mánuðum síðan. Átti MacBookPro 15″ með möttum skjá sem að eyðilagðist eftir rúmlega tveggja ára notkun, mjög svekkjandi.
    Ég nota tölvuna í hönnun, myndvinnslu og til almennra nota svo að ég var nokkuð viss um að ég gæti ekki farið niður í minni skjá. Vegna verðlags varð ég að sætta mig við 13″ MacBookPro með glansandi skjá. Ég var ekkert sérlega sátt við vélina fyrstu vikuna en í dag finnst mér hún frábær. Stærðin venst fljótt en ég myndi sennilega ekkert mæla með þessari vél við grafískan hönnuð (þar sem þau vilja flest vera með stóran skjá), en miðað við verðmuninn á 13″ og 15″ myndi ég frekar mæla með því að fá sér bara stóran skjá til að nota með minni týpunni.
    Ég fer mikið á kaffihús með tölvuna og ferðast mikið með hana á milli heimilis og vinnu og finn töluverðan mun á 13″ og 15″. Glansskjárinn fer ekkert í taugarnar á mér nema hvað hann verður skítugur (sem maður sér bara þegar það er slökkt á henni). Ég hef að vísu ekki prófað að vera með tölvuna úti í glampandi sólskini en mér skilst að það sé ekkert frábært:)

  5. Takk fyrir þetta öll. Ég hallast núna ansi mikið að 15″ með möttum skjá. Mér sýnist það vera málið. Ég held að mig muni ekki svo mikið um auka 400 grömmin í töskunni minni á hverjum degi.

    Og varðandi glossy þá er ég hvort eð er ekki að vinna ljósmyndir eða horfa á ljósmyndir/bíó í tölvunni þannig að það skiptir mig ekki svo miklu máli að allir litir séu 100%. Einnig þá er það rétt einsog Borgar segir að ég nota tölvuna talsvert mikið utan skrifstofunnar (og hugsa mér að gera það enn meira núna með almennilegu batterí) því ég fer með hana á fundi þar sem er oft erfitt ljós og finnst líka gaman að vinna á kaffihúsum.

    Svo er líka svo fallegt í miðbænum hjá skrifstofunni minni að ég sé það í hyllingum að ég muni geta unnið úti eitthvað næsta sumar. 🙂

    Og já, ætli ég kaupi ekki VGA millistykki – er það ekki öruggast í alla þessa mismunandi skjávarpa sem finnast á skrifstofum útum allt.

Comments are closed.