Út

Jæja, ég er víst á leiðinni útá flugvöll eftir um hálftíma.

Síðustu dagarnir hérna heima hafa verið rosalega skemmtilegir.  Hámarkið á stressinu var í gær þegar að ég var búinn að bóka 5 fundi um daginn og var auk þess á þeytingi um allan bæ.  Svo kom upp vandamál tengt stóru verkefni, sem ég er að vinna í, sem leystist um það leyti er ég var mættur í opnunarboð á “Af Lífi og Sál”, sem er nýr veitingastaður sem að fyrrverandi yfirkokkurinn á Serrano var að stofna.

Ég var svo mættur ásamt góðum vinum á Victor þar sem ég horfði á Liverpool-Chelsea.  Sá leikur var auðvitað tilfinningalegur rússíbani einsog allir Evrópuleikir með Liverpool.  Liðið datt út en ég held að menn geti verið sáttir við ansi margt, sérstaklega þar sem liðið skoraði flest mörk allra liða í keppninni og ég leyfi mér að fullyrða að ekkert lið bauð uppá jafnmarga skemmtilega leiki í þessari keppni og Liverpool.

Strax eftir leikinn mætti ég svo á árshátíð Serrano, sem var haldin á B5.  Þar var rosalega gaman og ég endaði svo á einhverju stuttu pöbbarölti.  Ég átti eftir að pakka, þannig að ég tók þessu rólega til þess að ég gæti vaknað snemma í morgun.  Sem ég og gerði og núna er bakpokinn minn tilbúinn fram á gangi og ég bíð bara eftir því að vinur minn komi og sæki mig.

Ég á svo flug til London og þaðan til Beirút í Líbanon.  Ef að allt gengur að óskum ætti ég að skrifa næstu færslu frá Beirút.  Ég ætla að reyna að uppfæra þessa síðu nokkuð reglulega og svo líka Twitter síðuna mína, sem ég get uppfært úr símanum.  Þær færslur koma svo auðvitað líka hér vinstra megin á þessari síðu.

One thought on “Út”

Comments are closed.