Verslunarmannahelgi

Ég er alltaf í hálfgerðum vandræðum með að skrifa á þessa síðu þegar ég er kominn til Íslands. Það er allt öðruvísi að tala um það, sem maður er að gera, þegar allir, sem ég tala um, geta lesið og skilið það sem er skrifað á síðunni.

Allavegana, þá fór ég um helgina með nokkrum vinum í Skaftafell og var það mjög skemmtileg ferð. Ég tók ekki þátt í vali á staðsetningu en Skaftafell varð víst fyrir valinu vegna þess að veðrið átti að vera best þar. Og eftir að ég sá myndir frá Vestmannaeyjum þá verð ég bara að hrósa stelpunum fyrir gott val. Veðrið var nefnilega bara mjög gott alla helgina. Það rigndi í nokkrar mínútur á meðan við vorum að tjalda en eftir það var frábært veður, logn, sæmilega hlýtt og engin rigning. Reyndar hafa veðurstaðlar mínir farið hríðlækkandi, enda taldi ég fyrir einni viku frábært veður vera sól, 30 stiga hita og logn.

Ég var í bíl með Borgþór og Björk og vorum við komin í Skaftafell um níu leytið og settum niður tjöld, grilluðum og drukkum nokkra bjóra. Þótt ótrúlegt megi virðast þá vorum við alveg látin í friði af landvörðum og öðrum gestum á svæðinu, þrátt fyrir að flestir gestir hafi verið útlendingar og fjölskyldufólk.

Á laugardag fór ég svo með Björk, Borgþóri, Önnu og Gústa í smá túristapakka. Við byrjuðum á því að labba uppað Svartafossi og svo keyrðum við að Jökulsárlóni, sem er án efa einn af fallegustu stöðunum á þessari eyju.

Um kvöldið kom svo fleira fólk: Tinna, Davíð, Jóna og PR. Auk þess höfðu Emil og Ella komið með okkur daginn áður en þau voru þó ekki með í túristapakkanum. Við strákarnir spiluðum þá fótbolta við einhverja litla stráka og gekk það bara ágætlega fyrir utan það að Borgþór rotaði næstum einn strákinn.

Eftir boltann var svo grillað og svo sátum við og drukkum og spjölluðum eitthvað fram eftir nóttu. Fórum reyndar í smá ferð að brennunni en mestallt kvöldið sátum við fyrir framan tjöldin okkar. Á meðan að drykkju stóð bættist svo misskemmtilegt fólk í hópinn en það var svo sem alltílagi.

Í gær sátum við á spjalli eitthvað fram eftir degi en ákváðum loks að drífa okkur í bæinn enda virtist veðrið eitthvað vera að versna.

Ég tók fulltaf myndum og ætla að setja eitthvað af þeim inn hér á síðuna þegar ég get.