Warszawa


*Auðvitað* eru Pólverjar fínir. Þrír dagar eru nú ekki langur tími til að kynnast þjóð, en það er allavegana byrjun. Fyrir það fyrsta eru allir Pólverjar Pólverjar. Það er, það eru allir eins, allir af sama stofni, allir hvítir. Ekki það að Pólverjar hafi eitthvað á móti innflytjendum, þetta bara er svona. Það var ekki fyrr en á þriðja degi sem ég sá svartan mann og ég sá aldrei neinn frá Asíu eða Mið-Austurlöndum. Dálítið magnað aðeins 300 kílómetra frá Þýskalandi.

Því miður eru stelpurnar ekki jafn huggulegar og í Rússlandi. Þær eiga þó það inni að mér finnst svo yndislega krúttulegt að heyra stelpur tala slavnesk tungumál. Finnst það næstum því jafnflott og að heyra argentískar stelpur tala spænsku. Ég held að ég yrði miklu fyrr hrifnari af stelpu ef hún talaði við mig á rússnesku eða pólsku frekar en einhverju öðru tungumáli.

En allavegana, fyrir utan vinnu gat ég skoðað smá hluta af Varsjá, bæði í leigubíl og gangandi. Ég keypti mér Lonely Planet bók um Pólland og las um sögu þessa lands á leiðinni. Ég er ákveðinn að koma aftur til Póllands og fara þá niður til Kraká og skoða þá borg sem og Auschwitz.

Varsjá ber þess á ýmsan hátt merki hversu illa borgin varð úti í Seinni Heimsstyrjöldinni. Aðeins 50% íbúanna lifðu af Heimsstyrjöldina og aðeins 15% bygginganna stóðu þegar að Nasistarnir höfðu lokið sér af. Ég hafði engin tækifæri til að fara þar sem Gettó-ið var áður og sjá minnismerki um hetjulega baráttu Gyðinga og Pólverja, en ég er harðákveðinn í að gera það næst þegar ég kem til Varsjár. Það er svo ótrúlegt hvað þessi þjóð hefur mátt þola í gegnum tíðina enda hafa fáar þjóðir verið jafn einstaklega óheppnar með nágranna.

Sú staðreynd að svona fáar byggingar lifðu styrjöldina af veldur því að borgin er ansi lituð af arkitektúr áranna eftir Heimsstyrjöldina og eru byggingarnar þá undir áhrifum frá Sovétríkjunum og þeim arkitektúr sem þar var vinsæll. Til að mynda er hæsta byggingin, Palace of Culteres nánast alveg einsog systurnar sjö, sem Stalín lét byggja í Moskvu. Palace of Cultures var jú gjöf Sovétmanna til Pólverja og voru nokkuð skýr skilaboð um það hver stóri bróðir væri, því lengi vel var bannað að byggja hærri byggingar í Varsjá.

Gamli miðbærinn hefur að hluta til verið endurreistur einsog hann var, en einnig að hluta til einsog hann var ekki. Sumar byggingar eru byggðar einungis svo þær líti út fyrir að vera gamlar. Bærinn er þó sjarmerandi, þótt að matsölustaðurinn, sem við borðuðum á fyrsta kvöldið í miðbænum hafi verið lygilega slappur. Innblásinn af Lonely Planet bókinni pantaði ég Bigos af matseðlinum, sem er víst það pólskasta af öllu pólsku í pólskri matagerðarlist. Þetta var ofsoðið kál borið fram í óætu brauði. Bragðaðist jafnvel verr en það hljómar.

Svo er Pólland auðvitað orðið mekka kapítalismans og með hreinum ólíkindum hvað það er hægt að opna marga KFC og McDonald’s staði á ekki lengri tíma. Þarna eru Kringlur útum allt og allir súpermarkaðirnir eru í eigu Carrefour og Tesco. KFC, H&M, Pizza Hut, Zara og McDonald’s á hverju götuhorni. Þetta ætti ekki að koma mér á óvart eftir veru mína í Rússlandi, en stundum getur maður ekki annað en gapað yfir ógnarkrafti kapítalismans.

Myndavélin mín varð batteríslaus á versta tíma, þannig að ég tók engar myndir. Ég held einmitt að myndavélin fái þráðlaust rafmagn úr íbúðinni minni. Hún virðist alltaf vera fulllhlaðinn heima hjá mér, en um leið og ég tek hana útúr húsi, þá verður hún batteríslaus. Helst reynir hún að vera batteríslaus þegar að hleðslutækið er í öðru landi. Ég verð því bara að taka myndir næst.

6 thoughts on “Warszawa”

  1. batteríið afhleðst ef það stendur í vélinni 🙂 ágætt að taka þau úr ef þú býst við að hún standi í lengri tíma en svona einn tvo daga

  2. hvernig var þetta annars með kjálkana á stelpunum? er badmintonlandsliðið þeirra bara slæmt úrtak eða? :confused:

  3. það var lítið en já það er ekki vitlaust að hafa 2 batterí. Mér hefur fundist það ósköp þægilegt að lenda sjaldnar í þessu “batteríin fái ekki nóg þráðlaus rafmagn” :rolleyes:
    jeijj 110.000 gesturinn heppinn ég jámm eða eitthvað 🙂

Comments are closed.